Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:41:15 (830)

1996-11-05 17:41:15# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega tiltölulega einfalt að bera fram útgjaldatillögur og heimta peninga í hitt og þetta. Hv. þm. hefur mikla reynslu af því bæði sem þingmaður og ráðherra. Það er kannski erfiðara að standa við stóru orðin þegar til kastanna kemur.

Hv. þm. spurði um hvort ég mundi blanda mér í kjarasamninga. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar hér eða nú um það. Ég vil sjá hverju fram vindur, hvernig kjarasamningar ganga og það er ekki á mínu borði að semja við ríkisstarfsmenn um launamál sem er raunar ekki nema hluti af þeim kjarasamningum sem þarf að gera.

Framkvæmdasjóður fatlaðra er náttúrlega ekki nema lítill hluti af því sem fer til málefna fatlaðra. Hann er settur upp með öðrum hætti núna heldur en hann hefur verið áður. Um það getur hæstv. fjmrh. í þessu þskj. sem hv. þm. var að vitna til. En peningarnir eru bara annars staðar í fjárlögunum. Hv. þm. byrjaði á því meðan hún var ráðherra að nota Framkvæmdasjóð fatlaðra að hluta til til rekstrar. Ég er út af fyrir sig ekkert að gagnrýna það því það þýðir ekkert að byggja ef ekki er hægt að reka. 40% voru notuð til rekstrar og nú eru hlutirnir nefndir réttum nöfnum. Það sem er í Framkvæmdasjóði fatlaðra fer til framkvæmda. Reksturinn er annars staðar í fjárlögunum.

Heimilin hættu ekki að safna skuldum þegar ég tók við en þau voru búin að safna stofninum að þeim áður en ég tók við.

Menn hafa verið að tala hér um hamingjuna. Mér finnst liggja svo illa á hv. 13. þm. Reykv. að ég er farinn að efast um að hún sé hamingjusöm.