Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:43:33 (831)

1996-11-05 17:43:33# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg óþarfi fyrir hæstv. ráðherra að hafa áhyggjur af minni hamingju. Það sem hér er verið að tala um eru lífskjör stórs hluta fólksins í landinu. Ég vildi vona að ráðherrann hefði einhverjar áhyggjur af þeim 32 þús. einstaklingum sem lifa hér undir hungurmörkum. Það hefur ekkert komið fram í máli ráðherrans hér í dag, alls ekki neitt. Það mál þarf auðvitað að ræða miklu frekar en gert hefur verið.

Ég mun óska eftir því við félmn. að hún fari almennilega ofan í málefni fatlaðra. Ráðherrann veit það þegar var heimilað að hluta til að fjármagna að litlu leyti rekstur með fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra þá var það forsenda fyrir því og það var skilyrði milli mín og fjmrh. að tekjur af erfðafjárskatti yrðu ekki skertar. Þetta var forsenda fyrir því og það gekk eftir öll árin sem ég sat í ráðuneytinu að skilað var hverri einustu krónu af erfðafjárskatti til þessa málaflokks fatlaðra. (Félmrh.: .... ekki nema 300 millj. en eru 420 núna.) Það er alveg sama, hæstv. ráðherra. Ég bið ráðherrann að vera ekki svo órólegan þegar við komum að sannleikanum og kjarna málsins. Hér stendur að það er sparnaður í útgjöldum upp á 208 millj. sem er verið að taka úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Það er ljóst að ráðherrann mun standa eftir með það minnismerki, ef ekki verður breyting á, að hann er að eyðileggja þennan sjóð fatlaðra sem hefur þó gert það að byggja upp þjónustu og framkvæmdir fyrir fatlaða á sl. tíu árum. Hann er að leggja grunn að því að eyðileggja þennan mikilvæga sjóð, Framkvæmdasjóð fatlaðra, líkt og hann er að gera varðandi Byggingarsjóð verkamanna. (Félmrh.: Þetta er bara rangt.)