Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:34:43 (839)

1996-11-06 13:34:43# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:34]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi greinaflokks sem Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur birti í Lesbók Morgunblaðsins fyrir mörgum árum og hann nefndi Í veldi Vatnajökuls komst hann þannig að orði um náttúruöflin í Skaftafellssýslum:

,,Saga þessara byggðarlaga er því að enn þá meira leyti en saga annarra byggðarlaga okkar lands, saga um baráttu við náttúruöflin. Í vestursýslunni er það barátta við eldinn sem mest hefur mótað byggðasöguna, í austursýslunni er það baráttan við ísinn. Þar drottnar Vatnajökull og kærir sig kollóttan um það hvernig öðrum landshlutum er stjórnað, hvort þar er þjóðveldi, einveldi eða lýðveldi. Hér er það hann sem ræður.``

Umbrotin í Vatnajökli undanfarna daga eiga rætur að rekja til þess sem jarðfræðin hefur kallað íslenska heita reitinn. Þar eru upptök Íslands ef svo má að orði kveða. Áhrifa hans gætir um mikinn hluta Norður-Atlantshafsins. Miðja þessa heita reits er undir norðvestanverðum Vatnajökli og þar er að finna mikilvirkustu eldstöðvar landsins, svo sem Bárðarbungu og Grímsvötn. Einhver stærstu eldgos hér á landi á sögulegum tíma eiga upptök sín í þessum eldstöðvum.

Atburðirnir í Bárðarbungu að undanförnu sem m.a. birtast í hlaupi á Grímsvötnum, sem nú stendur yfir, er hluti þessa ógnvekjandi náttúruspils sem Íslendingar hafa nú orðið vitni að. Sá vitnisburður er niðri á Skeiðarársandi þar sem brýr hafa brotnað, vegir og varnargarðar sópast burt, byggðalína brotnað, ljósleiðari slitnað og gróðurlendur grafist í aur og grjót.

Þetta eru auðvitað ógnvekjandi fréttir en hér er líka að finna bjartar hliðar. Ekki slokknaði á neinni ljósaperu þótt byggðalínan um Skeiðarársand brotnaði. Símatruflanir urðu engar þótt ljósleiðarinn slitnaði og umbætur í samgöngumálum komu í veg fyrir að neyðarástand á flutningum hafi skapast. Nú kemur sér vel sú ákvörðun samgrh. að byggja upp vel uppborinn veg milli Austur- og Norðurlands.

Ekki má láta hjá líða að minna á þátt vísindamanna okkar í sambandi við náttúruhamfarirnar þar eystra. Þau störf eru holl viðvörun til fjárveitingavaldsins, sem Alþingi fer raunar með, um að gæta þess vel að starfsemi á vettvangi náttúruvísinda bæði er varðar búnað og mannafla búi við bærilegan kost. Ég vek athygli á að stór hluti af Grímsvatnarannsóknum hefur verið unninn af sjálfboðaliðum bæði lærðum og leikum og í Jökli, riti Jöklarannsóknafélagsins, hafa birst mikilvægar ritgerðir um hegðun þessa umbrotasvæðis. Við verðum að muna það vel öllum stundum í hvernig landi við búum, landi þar sem tröllauknir kraftar í náttúru þess geta leyst úr læðingi hvenær sem er.

Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til þeirra vísindamanna og sjálfboðaliða sem hér eiga hlut að máli, svo og þeirra sem höfðu með gæslu og eftirlit á Skeiðarársandi.

En hyggjum nú að því sem fram undan er. Nú þegar liggur fyrir að gríðarlegt tjón hefur orðið á mannvirkjum á Skeiðarársandi bæði að því er varðar byggðalínuna, ljósleiðarann og þó sérstaklega samgöngumannvirkin. Þrátt fyrir þá kosti til að bregðast við sem ég hef rætt má öllum ljóst vera að greið leið sunnan jökla verður með öllum tiltækum ráðum að komast á hið fyrsta. Ég treysti vel forustu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum og óhætt er að fullyrða að Vegagerð ríkisins er fullkomlega þeim vanda vaxin að takast á við uppbyggingu mannvirkja á Skeiðarársandi með skjótum og greiðum hætti.

Bárðarbunga hefur verið að búa sig undir þessi átök í nærri því sex áratugi. Það hlýtur að vera sjálfsagður og eðlilegur kostur að einhver ár taki að jafna peningaleg reikningsskil við þessar aðgerðir Bárðarbungu og Grímsvatna þótt framkvæmdum þar verði að sjálfsögðu hraðað svo sem framast er kostur.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.