Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:43:19 (841)

1996-11-06 13:43:19# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:43]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Enn hafa náttúrumhamfarir komið okkur í opna skjöldu þó það sé rétt sem komið hefur fram að það hefur betur farið en á horfðist í gær. En afleiðingarnar eru augljósar. Með þeim er um sinn klippt á aðflutningsæðar á landi til Austurlands og það kemur verst niður á Suðausturlandinu og skapar röskun fyrir það öfluga atvinnulíf sem þar er og má nefna að nú stendur vertíð sem hæst. Þetta er bráðavandinn sem við er að glíma, að draga úr þeim áhrifum sem þetta hefur og vandinn er því meiri vegna þess að landsamgöngurnar hafa á síðari árum orðið lífæðar þessarar atvinnustarfsemi.

Yfirlýsingar ráðamanna um að skjótt verði við brugðist eru mikilvægar og ber að þakka þær. Ég vil undirstrika mikilvægi þess, eins og fram hefur komið í ræðu hæstv. forsrh., að það sé hugað að öllum þáttum samgangna í þessu sambandi bæði skipaferðum og flugi til Suðausturlands. Bráðaviðgerð eftir þessar hamfarir er brýn og það er mikilvægt að yfirlýsingar hafa gengið um að ráðist verði í hana eins fljótt og kostur er miðað við þær hamfarir sem þarna hafa verið, en það verður að gefast tími til að athuga hvernig að varanlegri uppbyggingu verður staðið og auðvitað í samræmi við það hver framvindan verður um hina miklu reginkrafta sem eru á ferðinni þegar Vatnajökull bærir á sér. Við þingmenn Austurlands munum halda fund með Vegagerð ríkisins í kvöld til að fara yfir þeirra fyrstu viðbrögð. Til þessa verður að gefast tóm en bráðaaðgerðir eru mest áríðandi nú. Það er mikilvægt að fullur vilji er til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr þeim áhrifum sem hamfarirnar hafa.