Náttúruhamfarir á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 13:46:07 (842)

1996-11-06 13:46:07# 121. lþ. 18.91 fundur 73#B náttúruhamfarir á Skeiðarársandi# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[13:46]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Mikil tíðindi, þó ekki óvænt, hafa orðið austur á Skeiðarársandi. Ógnvekjandi mynd blasti þar við sjónum síðdegis í gær. Samgöngumannvirki sem staðið hafa í 22 ár og gagnast þjóðinni vel eru stórskemmd sem og raflínur og ljósleiðari. Þó fór betur en á horfðist þegar hlaupið var að nálgast hámark. Ekkert manntjón hefur orðið í þessum hamförum og við finnum öll hver léttir fylgir því þótt efnislegar skemmdir séu miklar. Það er raunar eitt af undrum Íslands hversu Skeiðará og Grímsvatnahlaup hafa tekið til sín fá mannslíf á liðinni tíð.

Ef það sem stendur uppi af Skeiðarárbrú reynist nothæft mætti ætla, og var staðfest hér af forsrh. sem hans mat, að meira en helmingur mannvirkja á sandinum hafi staðist hamfarirnar og geti nýst áfram a.m.k. til bráðabirgða. Þjónustumiðstöð þjóðgarðsins í Skaftafelli hefur alveg sloppið við hlaupið og má þakka það styrkingu fyrirhleðslugarða fyrir atbeina Alþingis 1984.

Tímabundinn vandi blasir við landsmönnum í framhaldi þessara atburða. Mest verða áhrifin fyrir Austur-Skaftfellinga og Austfirðinga uns tekist hefur að koma á vegasambandi á ný. Þakka ber viðbrögð hæstv. forsrh. og ríkisstjórnar til þessa. Ég lýsi þeirri von að fáar vikur líði uns bráðabirgðavegasambandi hefur verið komið á á ný. Jafnframt þarf að grípa til margvíslegra stuðningsaðgerða gagnvart atvinnulífi og almenningi og til að draga úr því tjóni sem óhjákvæmilega verður af þessum náttúruhamförum.

Herra forseti. Ég tek undir þakkir frummælanda til þeirra mörgu vísindamanna og starfsmanna opinberra stofnana sem um langt skeið hafa búið okkur undir þennan atburð. Alþingi og ríkisstjórn eiga að styðja vel við starfsemi vísindamanna okkar og frjálsra samtaka eins og Jöklarannsóknafélagsins.

Er við verðum vitni að þessum hamförum hljótum við að minnast liðinna kynslóða sem barist hafa við náttúruöflin á Skeiðarársandi um aldir við langtum örðugri aðstæður en við nú þekkjum.