Fíkniefnaneysla barna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:12:17 (853)

1996-11-06 14:12:17# 121. lþ. 19.1 fundur 68. mál: #A fíkniefnaneysla barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Foreldrar hafa alltaf búið við mikinn ótta um að eitthvað hendi börnin þeirra. Sá ótti hefur snúið að því að þau yrðu alvarlega veik, lentu í slysum en oft líka að þau lentu í slæmum félagsskap. Þegar við vorum að alast upp, þýddi það að lenda í slæmum félagsskap allt annað en það þýðir nú.

Í dag er það mesta skelfing foreldra ef börnin lenda í þannig félagsskap að þau kynnast fíkniefnum og ég tala ekki um ef þau láta til leiðast að prófa og verða eyðileggjandi efnum að bráð.

Í vetur, í desember, áttum við öflugar samræður um þessi mál, stjórn og stjórnarandstaða, í efnislegri utandagskrárumræðu um fíkniefnamál. Stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún vildi í þessu alvarlega máli taka höndum saman við stjórnvöld og að sameiginlega mundu þingmenn, hvar í flokki sem þeir stæðu, sameinast um að leita allra leiða til að afstýra því að börn og ungmenni yrðu fíkniefnum að bráð, leita allra leiða í forvörnum og afstýra því að efni komist á markað og inn í landið af því að við vitum að í sambandi við fíkniefnin þá erum við best sett hvað varðar eftirmeðferðina og verst sett með að afstýra því að þessi vá dynji yfir.

Sjálf lagði ég til þá að félmn. og heilbrn. og e.t.v. fleiri nefndir þingsins mundu sameiginlega halda fund þingmanna með öllum þeim sem ríkisstjórnin boðaði að væru að fara að taka á þessum málum og að við, stjórnarliðar og stjórnarandstaða, mundum þannig fá upplýsingar um hvernig ríkisstjórn, á hverjum stað, í hverju ráðuneyti, ætlaði að taka á þessum málum, gætum fylgst með og staðið að og bakkað upp og látið í okkur heyra að stjórnvöld og Alþingi eru saman að taka á þessum vanda. Slíkur fundur hefur ekki orðið og ég árétta það hér og hef talað um það við formenn þessara nefnda að staðið verði að því að hafa slíkan fund. Það væri vissulega hægt að gera tilraun með opinn nefndarfund einmitt um þetta mál þannig að fjölmiðlar fengju að fylgjast með hvað væri að gerast í hverju einasta ráðuneyti í þessum málum.

Virðulegi forseti. Það bárust skelfilegar upplýsingar í fréttum sjónvarps 9. október um að 200 börn undir 16 ára aldri séu ofurseld fíkniefnum. Ég setti strax fram þessa fyrirspurn án þess að átta mig á því að félmrh. yrði fjarverandi á næstu vikum og ég síðan í framhaldi. Það skiptir ekki öllu máli hvenær slík fyrirspurn er tekin fyrir. Aðalmálið er að við fáum svör og reynum að fá yfirlit yfir stöðuna í þessum málum til þess, eins og ég hef áður sagt, að reyna allt sem við getum til að lagfæra þessi mál.