Fíkniefnaneysla barna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:15:49 (854)

1996-11-06 14:15:49# 121. lþ. 19.1 fundur 68. mál: #A fíkniefnaneysla barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem ástæða er til að fjalla um. Það komu fréttir í Ríkisútvarpinu, sjónvarpinu um að í Reykjavík og nágrenni væru 200 börn undir 16 ára aldri neytandi fíkniefna. Það virðast nú flestir, við nánari athugun, vera sammála um að vandinn hafi verið orðum aukinn í fréttinni sem betur fer. Þrátt fyrir eftirgangsmuni hefur ekki fengist upplýst hvaðan fréttastofu bárust þessar upplýsingar og það hefur verið gripið til þess ráðs að leita upplýsinga hjá þeim aðilum sem hafa afskipti af ungmennum sem lenda í vanda af þessu tagi.

Leitað var til Barnaverndarstofu sem safnaði upplýsingum frá Rauðakrosshúsinu, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, lögreglunni í Reykjavík, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Rannsóknarstofnun uppeldismála, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, SÁÁ og Teig, áfengisskor geðdeildar Landspítalans. Upplýsingar sem þaðan bárust til Barnaverndarstofu eru margvíslegar og fróðlegar og ég vil biðja starfsmenn þingsins um að dreifa þeim. Ég get ekki fjallað um málið nægilega í örstuttum fyrirspurnatíma. En ég tel að það sé gott fyrir þingmenn að hafa þessar upplýsingar í fórum sínum.

Barnaverndarstofa bað um að það yrði lagt mat á umfang fíkniefnaneyslu ungmenna í ljósi RÚV-fréttarinnar og var beðin um upplýsingar um hve mörgum börnum viðkomandi stofnun hefði haft afskipti af sjálf og talið að vandi þeirra væri að meginstofni til neysla fíkniefna. Þá var beðið um aðrar upplýsingar um áfengis- og fíkniefnaneyslu sem varpað gætu ljósi á hve mörg börn væru ofurseld neyslu vímugjafa. Neysla fíkniefna er oft einn þáttur í margslungnum vanda ungmenna og mikilvægt að gera sér grein fyrir því að neyslumunstur barna og fullorðinna er ólíkt. Kannanir á fíkniefnaneyslu unglinga þurfa að taka mið af þessum mun.

Að mati þeirra stofnana sem sérhæfa sig í rannsóknum, meðferð, eftirliti, ráðgjöf og annarri þjónustu við börn í vímuefnavanda virðist fíkniefnavandi ungmenna fjarri því eins mikill eins og ráða má af fréttaflutningi fréttastofu sjónvarps. Það merkir þó ekki að hann sé ekki mjög alvarlegur og við honum þarf að bregðast. Það væri nær lagi að álykta að hámarksfjöldi barna í þessum aldurshóp sem eru illa haldin af neyslu fíkniefna sé um 50 og þar af séu 20--40 á hverjum tíma á stofnunum í því skyni að leita sér hjálpar.

Það er vandasamt verk að fjalla um fíkniefnaneyslu ungmenna og það verður að fara gætilega með upplýsingar. Ef hún er ofmetin getur það gefið ungu fólki skilaboð um að neysla fíkniefna sé miklu almennari og eðlilegri en hún raunverulega er. Rangar upplýsingar geta líka orðið til þess að gripið sé til rangra viðbragða. Eins og kom fram í svari lögreglunnar í Reykjavík er meðferðarþörf vegna neyslu vímuefna líkast til mest í aldurshópnum 16--18 ára en ekki í yngsta aldurshópnum Það er náttúrlega í samræmi við mat Barnaverndarstofu. En umræddur fréttaflutningur gæti beint sjónum manna frá þessari staðreynd.

Þær upplýsingar sem okkur hafa borist segja okkur að mikilvægt sé að efla forvarnir þegar um yngstu aldurshópana er að ræða. Þær segja okkur einnig að til er hópur barna yngri en 16 ára sem þarfnast meðferðar vegna neyslu vímuefna. Þetta eru ekki ný tíðindi og félmrn. hefur verið þetta ljóst. Undanfarin missiri hefur verið unnið að því í ráðuneytinu og Barnaverndarstofu að endurskipuleggja meðferð unglinga vegna fíkniefnaneyslu. Þessi börn þurfa að sjálfsögðu einnig að eiga greiðan aðgang að viðeigandi meðferðarþjónustu. Þegar eru reknar sex meðferðarstofnanir sem sinna þessum aldurshópi og ákveðið hefur verið að bæta þeirri sjöundu við á næsta ári. Það meðferðarheimili verður sérstaklega ætlað börnum sem þarfnast langtímameðferðar vegna vímuefnavanda. Á þessu heimili munu 5--6 börn fá meðferð og það mun verða staðsett í Eyjafjarðarsýslu. Jafnframt því að setja á stofn meðferðarheimili fyrir börn sem hafa leiðst út í neyslu vímuefna hefur félmrn. í samstarfi við borgarstjórn Reykjavíkur hafið undirbúning að sérstöku átaki í grunnskólum Reykjavíkur á vormissirinu 1997 til að sporna við og uppræta fíkniefnaneyslu grunnskólanema í borginni.

Vímuefnavandinn hefur verið til umfjöllunar, (Forseti hringir.) herra forseti, í nefnd á vegum dómsmrn., félmrn., menntmrn. og heilbrrn. og frv. þar að lútandi er væntanlegt til þingsins á næstu dögum.