Móttaka flóttamanna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:32:19 (860)

1996-11-06 14:32:19# 121. lþ. 19.2 fundur 79. mál: #A móttaka flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef ekki gert tillögur í ríkisstjórninni um að við hefðum ákveðinn kvóta. Ég hef hins vegar sagt að ég muni, á meðan ég er ráðherra, gera árlega tillögu um að taka á móti einhverjum hópi flóttamanna. Eins og fram kom hjá ræðumanni vildi ég ekki binda hendur komandi ráðherra með kvóta og ég vildi sjá hverju fram yndi með þennan hóp sem við buðum heim. Við buðum heim fyrst 25 flóttamönnum en það urðu verulegar tafir á að þeir kæmu en þær voru ekki okkur að kenna. Það var vegna þess að Alþjóðaflóttamannastofnunin vildi sjá hverju fram yndi í ríkjum fyrrum Júgóslavíu áður en ákveðið væri hvaða flóttamenn það yrðu sem kæmu til Íslands. Síðan fór nefnd út til að taka á móti flóttafólkinu. Nefndarmenn hringdu heim og óskuðu eftir að fá að taka sex flóttamenn í viðbót. Ég fór með það í ríkisstjórn og það var samþykkt umyrðalaust að bjóða heim sex flóttamönnum til viðbótar. Að vísu heltist einn úr lestinni. Það voru hjón sem skildu og annað þeirra kom ekki. En það voru sem sagt 30 flóttamenn sem komu. Þeir fóru til Ísafjarðar og við höfum öðlast mjög dýrmæta reynslu á þessum samskiptum á Ísafirði. Það var öðruvísi staðið að móttöku þessara flóttamanna en áður hefur verið gert og það hefur gefist aldeilis frammúrskarandi vel. Ísfirðingar eiga sérstakar þakkir fyrir gestrisni sína og hvernig þeir hafa staðið aðdáanlega að móttöku þessara flóttamanna.

Þeir hafa gert það með þvílíkri prýði og við vitum ekki annað en að allir þessir nýju Íslendingar uni sér vel. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í morgun eru allir karlar í vinnu nema einn. Hann er bílstjóri og byrjar að keyra á mánudaginn kemur. Hann hefur ekki haft vinnu nema eitthvað stopult fram að þessu en á mánudaginn byrjar hann í nýrri vinnu og þá eru þeir allir komnir til starfa. Konurnar allar eru útivinnandi nema ein. Sú er heima vegna þess að maðurinn hennar vinnur svo langan vinnudag. En horfur eru á að hún byrji að vinna í desember og maðurinn minnki eitthvað við sig vinnuna. Nám þeirra hefur gengið með miklum ágætum. Allt þetta fólk er farið að geta bjargað sér á íslensku. Börnin ganga í skóla með sínum aldursflokkum og vegnar vel. Ein stúlka þurfti sérstakrar þjálfunar við og fær hana á Ísafirði. Það eina sem kannski hefur komið á óvart, og þó ekki, er að fólkið þurfti miklar tannviðgerðir og það er eini liðurinn sem hefur orðið dýrari en við reiknuðum með í upphafi. Það hefur verið staðið frammúrskarandi vel að þessu og hefur verið ódýrara en við áttum von á.

Ég tel því að á þessu höfum við lært hvernig á að taka á móti flóttamönnum og ég hef áhuga á að standa þannig að þar sem ég á eftir að koma að þessum málum. Ég held að það hafi tekist með mikilli prýði á Ísafirði. Ég átti tal við bæjarstjórann í morgun og spurði hvort Ísfirðingar mundu vilja bjóða svona hópi heim aftur. Það mundu þeir vilja, taldi hann, ef aðstaða væri til.

Það er gert ráð fyrir að þetta fólk njóti félagslegs framfæris eða stuðnings í eitt ár en að því loknu sé það orðið fullgildir borgarar og geti séð um sig sjálft. Ef svo er ekki mun að sjálfsögðu félagsþjónusta og sú þjónusta sem Ísfirðingum býðst standa þessu fólki líka til boða.