Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:59:08 (870)

1996-11-06 14:59:08# 121. lþ. 19.4 fundur 94. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á þskj. 96 hefur Petrína Baldursdóttir lagt fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins:

,,Hve mikið fé hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins veitt í styrki til úreldingar fiskiskipa síðan lögin um sjóðinn tóku gildi árið 1994?

Hvað hefur verið gert við skipin sem úrelt hafa verið?

Telur ráðherra að með lögum um sjóðinn hafi náðst árangur í hagræðingu innan sjávarútvegsins?``

Alþingi samþykkti lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins árið 1994. Hlutverk sjóðsins á að vera, eins og segir í 1. gr. laganna, að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Sjóðurinn á í því skyni að kaupa fiskvinnslustöðvar, framleiðslutæki þeirra, greiða styrki vegna úreldingar fiskiskipa til að draga úr afkastagetu í sjávarútvegi. Sjóðnum er enn fremur ætlað að stuðla að skipulagsbreytingum í sjávarútvegi í samvinnu við lánastofnanir enda leiði slík endurskipulagning til verulegrar hagræðingar.

Frv. um Þróunarsjóðinn má rekja til umræðu sem var í þjóðfélaginu um mikla skuldastöðu og offjárfestingu í sjávarútvegi. Þegar umræður um Þróunarsjóðinn áttu sér stað á hinu háa Alþingi voru mjög skiptar skoðanir um stofnun Þróunarsjóðsins. Minna má á að þegar sjútvn. sendi málið út til umsagnar voru flestallir mjög neikvæðir á tilurð sjóðsins og vöruðu við að enn einn sukksjóðinn skyldi setja á laggir. Menn töluðu um skatt á sjávarútveginn, að útvegurinn hefði nóg á sinni könnu, að skuldir þyrfti frekar að lækka heldur en bæta við álögum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því lögin tóku gildi má reikna með að komin sé einhver reynsla á tilurð sjóðsins og því eru spurningarnar settar fram sem ég hef borið fram til ráðherra.