Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:31:20 (875)

1996-11-06 15:31:20# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Reynslan af GATT-samningnum hefur verið slæm hérlendis. GATT átti að leiða til fjölbreyttara vöruúrvals, meiri samkeppni og aðlögunar íslensks landbúnaðar að nútímalegri viðskiptaháttum, en jafnframt veita eðlilega vernd á aðlögunartíma. Þetta hefur ekki gerst. Ríkisstjórnin útfærði samninginn þannig með löggjöf að fest var í sessi núverandi landbúnaðarstefna sem er bæði neytendum og bændum óhagkvæm. Það lögðust allir gegn löggjöf ríkisstjórnarinnar nema þröngir hagsmunir bændaforustunnar og varðhundar staðnaðs kerfis í stjórnarflokkunum. Ráðherrarnir bera allir ábyrgð á þessu þótt hlutur Framsóknar sé sýnu stærstur. Hæstv. utanrrh. svarar fyrir sjálfan samninginn, landbrh. fyrir steinrunna landbúnaðarstefnu og viðskrh. fyrir atlögu að neytendum. Benda má á að á landsfundi Sjálfstfl. var gagnrýni á framkvæmd GATT-samningsins felld úr ályktunardrögum um viðskipta- og neytendamál. Neytendafjandsamleg stefna Sjálfstfl. þegar kemur að landbúnaðarmálum er skýr. Við lögfestinguna í fyrra voru tollar ákvarðaðir himinnháir.

Við lögfestingu GATT-samningsins í fyrra töldu Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin og talsmenn jafnaðarmanna á Alþingi að útfærsla ríkisstjórnarinnar með ofurtollum bryti í bága við anda GATT-samningsins og mundi leiða til verðhækkana og ofverndunar íslensks landbúnaðar. Ég tel að reynslan staðfesti þetta og spyr starfandi utanrrh., hæstv. landbrh.: Mun hann beita sér fyrir breytingum á löggjöf til að lækka tolla?

Í reynd var með löggjöfinni hindraður lágmarksinnflutningur til landsins sem þó var samningsbundið. Markmið um lágmarksinnflutning landbúnaðarvara, þ.e. 3--5% af innanlandsneyslu, virðist síður en svo hafa náðst. Þannig hefur af ýmsum vöruflokkum verið flutt einungis inn um 0,08% til 1,4% af lágmarksaðgangi á fyrsta ári GATT-samningsins, svo sem af svínakjöti, alifulgakjöti og smjöri. Ég spyr hæstv. ráðherra: Í hve miklu umfangi hefur lágmarksinnflutningur orðið miðað við innanlandsneyslu? Þessi mál varða vitaskuld neytendur sem hafa orðið fyrir þungum búsifjum vegna löggjafar ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. viðskrh. mun taka þátt í umræðunni og ég óska eftir að hann svari tveimur spurningum. Á síðustu 19 mánuðum hafa skuldir heimilanna hækkað um 1.300 millj. sem má rekja til 47% hækkunar á grænmeti og kartöflum. Ástæða hennar er fyrst og fremst slæm útfærsla GATT-samningsins. Hvernig ætlar ráðherranna að bæta heimilum landsins þessa hækkun skulda þeirra? Telur hann eðlilegt að svona mikil vernd fyrir fáa framleiðendur bitni af slíkum þunga á svo stórum hópum landsmanna?

Í öðru lagi er eitt af yfirlýstum markmiðum GATT-samningsins að afnema viðskiptahindranir og stuðla smám saman að samkeppni um verð og gæði framleiðslu og viðskiptum með landbúnaðarvörur. Telur ráðherrann ástæðu til að endurmeta núgildandi löggjöf um landbúnaðarmál til að örva samkeppni og tryggja betur hag neytenda?

Herra forseti. Landbúnaðarstefna ríkisstjórnarinnar er gjaldþrota. Við verjum sex milljörðum á ári vegna búvöruframleiðslunnar sem er meira en allir framhaldsskólar landsins kosta og meira en rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur kostar á ári samkvæmt fjárlögum. Auk þess er gífurleg tollvernd til að hindra innflutning. Tekjur bænda lækka sífellt í vondu kerfi og neytendur njóta hvorki eðlilegs verðs né vöruúrvals. Skattlagning neytenda vegna þessarar fortíðarstefnu er ótrúlega mikil og þjónar hvorki neytendum né bændum.

Ég spyr hæstv. starfandi utanrrh. að lokum: Stuðningur við íslenskan landbúnað er sá fjórði mesti af ríkjum OECD, tollvernd og framlög á fjárlögum nema á annan tug milljarða á ári og matarverð er hærra hér en annars staðar. Hyggst ráðherrann í ljósi þessa grípa til aðgerða og lækka þennan stuðning og tryggja neytendum lægra matarverð?