Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:44:57 (878)

1996-11-06 15:44:57# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það mátti skilja svör hæstv. landbrh. og sitjandi utanrrh. á þann veg að þetta væri nú eiginlega allt í lagi vegna þess að það hefðu ekki verið gerðar athugasemdir við það hvernig Íslendingar hafa framfylgt GATT-samningnum. Það er ástæða til að rifja upp til hvers verið var að endurskoða þennan samning á sínum tíma. Það var annars vegar gert til þess að auðvelda heimsviðskipti og hins vegar til þess að draga úr verndaraðgerðum, til þess einmitt að auka viðskiptin, til þess að aðstoða þriðja heiminn og stuðla að því að það ríki eðlileg viðskipti á sem flestum sviðum.

Afleiðingin eða útfærslan hér á landi er, eins og hér hefur komið fram, sú að grænmeti sérstaklega hefur hækkað í verði. Það hefur valdið lækkun á kaupmætti og aukið skuldir heimilanna sem minna okkur enn á þá hringavitleysu sem ríkir í þessum vísitölum, þ.e. að hækkun á einni vörutegund eða nokkrum vörutegundum skuli verða til þess að hækka skuldir heimilanna. Þetta eru hlutir sem verður að endurskoða. Hækkun á grænmeti gengur þvert á þá manneldisstefnu sem hér hefur verið í framkvæmd eða á að vera í framkvæmd, sem er að auka grænmetisneyslu og maður heyrir allt of mörg dæmi þess að fólk veigrar sér við að kaupa grænmeti vegna þess hversu dýrt það er. Að mínum dómi hefur hér verið gengið allt of langt í því að koma til móts við hagsmuni bænda sem óttuðust mjög þennan samning. Ég vil skora á hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að fara nú rækilega í gegnum þetta mál og gæta þess að hagsmunirnar eru ekki bara á eina hlið. Þeir eru þjóðarinnar í heild og ekki síst neytenda og við þurfum að horfa á þessa hluti í samhengi. Aukin grænmetisneysla mun koma bændum til góða og hún mun koma þjóðinni allri til góða.

Ég ítreka það að ég skora á hæstv. landbrh. að fara rækilega í gegnum þessi mál og láta það ekki á sig fá þó ekki hafi komið athugasemdir erlendis frá. Við eigum að sjá til þess að tilgangurinn nái fram að ganga.