Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:52:50 (881)

1996-11-06 15:52:50# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:52]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það er einkennileg árátta forustumanna Alþfl. að gera meira úr ætluðum breytingum vegna GATT-samningsins nú þegar þeir sitja ekki í ríkisstjórn, en þeir gerðu þegar þeir sátu í ráðherrastólunum því að þá sögðu þeir hér í þessum ræðustóli að ekki væri að vænta mikilla breytinga á vöruverði vegna GATT-samningsins.

Ég verð hins vegar að segja að ég er sannfærður um að GATT-samningurinn, bæði á meðan hann var í vinnslu og eins eftir að hann var orðinn að samningi, hefur haft áhrif til aukinnar samkeppni og meiri fjölbreytni á okkar innlenda matvörumarkaði og þar með leitt til lækkaðs vöruverðs. Þetta getum við séð á tölum yfir verð á landbúnaðarvörum síðustu árin. Þetta er út af fyrir sig góður árangur vegna samningsins og þess vegna var hann okkur mikilvægur.

Það hafa hins vegar verið hnökrar á framkvæmd samningsins. Slíkt þarf að leiðrétta og ég treysti hæstv. landbrh. til að gera það. Það hefur auðvitað verið umdeilt að bjóða upp kvóta á þann hátt að greiðslan fyrir kvótann hækki vöruverðið. Eins má það ekki gerast að aðilar tengdir innlendum framleiðendum fái úthlutað kvótum sem þeir síðan nýta ekki. Þar er verið að nota kerfið til að koma í veg fyrir að aðrir geti flutt inn. Ég treysti hæstv. ráðherra til þess að slétta úr þessum hnökrum.