Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:54:36 (882)

1996-11-06 15:54:36# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:54]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram við þessa umræðu eins og oft áður að allar aðstæður sem GATT krafði íslensk stjórnvöld um eru fyrir hendi, allar aðstæður eru fyrir hendi. Það hefur verið farið eftir þeim samningum sem við Íslendingar gerðum. Og það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það væru engin klögumál erlendis frá.

Við finnum það í þessari umræðu að þó að menn standi hér upp, hafi hátt og gagnrýni hið miðstýrða kerfi og bölvi því, er staðreyndin sú að hafi einhvers staðar eitthvað gerst þá er það í hinu frjálsa kerfi þar sem menn eru ekki undir neinu miðstýrðu kerfi. En ég vil vekja athygli á því að menn eru í þessari umræðu að glíma við rangan aðila. Það kemur hér upp og er á hvers manns vörum að það er vísitalan.

Við Íslendingar búum við arfleifð sem heitir lánskjaravísitala og stjórnvöld hafa haft hug á að afnema hana árum saman. En það hefur ekki orðið að veruleika. Skuldir koma og skuldir fara. Hér var t.d. hv. þm. Eggert Haukdal. Hann glímdi í 16 ár við lánskjaravísitöluna og náði ekki árangri. Hvernig væri nú að kratarnir tækju sig til og færu að glíma við lánskjaravísitöluna þannig að þetta einkennilega verðmyndunarkerfi þar sem skuldir koma og skuldir fara, hætti að valda þessum óróa?

Ég vil að auki segja að ég er auðvitað undrandi á blekkingarumræðu sem kemur frá virtum samtökum úti í bæ, þ.e. Alþýðusambandi Íslands, að hagfræðingum þeirra samtaka skuli leyfast að tala eins og þeir gera. Þeir fara með rangar fullyrðingar um GATT. Þeir hafa ekki verið kjörnir sem forsvarsmenn þeirra samtaka og ég undra mig á því hvernig íslenskur verkalýður sem hefur atvinnu af landbúnaði leyfir þeim að láta. Þeir líkjast í mörgum atriðum krötunum sem þó eru að verða sýnu stilltari því að þeir skilja þó að árangur hefur náðst. Og þó að þeir láti svona hér í dag, þá verða þeir að viðurkenna með sjálfum sér að stjórnvöld hafa farið að þeim samningum sem þau gerðu.