Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 16:02:39 (885)

1996-11-06 16:02:39# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[16:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins fyrst út af því sem fram kom bæði hjá hv. málshefjanda í lokin og hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, að allt væri í lagi af því að ekki hefðu komið kærur erlendis frá. Það var nú alls ekki megininntakið í mínum málflutningi. Þar sem staðgengill utanrrh. var spurður taldi ég rétt að láta það koma fram hvaða meðferð okkar skýrslur hafa fengið í þessu efni og okkar framkvæmd á samningnum. Það var fyrst og fremst það sem ég var að draga fram, ekkert um fullyrðingar um ólögmæti eða lögmæti. Það kom hvergi fram í máli mínu.

Í öðru lagi held ég að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. málshefjanda mjög málefnalega og farið yfir þessa framkvæmd og m.a. að ljóst er að verðlag á mjólkur- og kjötvörum hefur farið lækkandi á undanförnum árum, ekki endilega GATT-samningi að kenna eða þakka eftir atvikum, heldur vegna búvörusamnings. Það vill nú svo til að það mál, sem hér er aðallega til umræðu og veldur kannski mestum deilum sem er grænmetisverðið, að það er sú landbúnaðarafurð sem hefur frjálsa verðlagningu. Aðrar eru smám saman að verða það. Eins og allir hv. þm. vita var í búvörusamningnum, sem gengið var frá á síðasta þingi, gert ráð fyrir að horfið yrði frá opinberri verðlagningu á þeim hluta landbúnaðarafurða, sem þar var samið um, á næstu árum. Þannig að hér er verið að stíga skref í þessa átt, stór skref og mikilvæg skref. Og furðulegt er að það skuli vera gert lítið úr því af þeim sem mest tala um frelsi í þessum efnum.

Samningur um mjólkurafurðir er nú að hefjast og því ótímabært að gefa sér fyrir fram hvað út úr honum kann að koma. En það er grænmetið sem í raun hefur verið á frjálsum verðmarkaði. Ég ætla ekki út af fyrir sig að deila við hagfræðinga eða reiknimeistara um útreikning á 1.300 milljónunum en vil geta þess af því það er ekki hægt að koma að tölulegum upplýsingum hér í stuttu máli, að við höfum tekið saman upplýsingar um verðþróun á tíu grænmetistegundum frá árunum 1993--1996 sem sýnir að hækkunin er í raun ekki mikil og á sumum tegundunum er hún nánast engin. Það var umtalsverð verðlækkun á grænmeti á árinu 1994 vegna hagstæðra framleiðsluskilyrða en ef borið er saman við lengra tímabil þá kemur í ljós að (Forseti hringir.) verðbreytingarnar eru litlar og algjörlega órökstutt að það sé GATT-framkvæmd að kenna.

Hjá hv. þm. Árna Mathiesen komu fram þær væntingar að málin yrðu skoðuð og lagfærð og vissulega hafa komið fram hnökrar á framkvæmdinni sem voru lagfærðir strax í fyrrasumar þegar á það reyndi. Það var strax gengið í að reyna að koma framkvæmdinni á betri rekspöl og ekki hafa verið uppi háværar athugasemdir (Forseti hringir.) frá innflytjendum eða þeim aðilum sem hafa þurft að búa við þetta. Ein setning eftir, hæstv. forseti. Ef kvóti gengur ekki út, vegna þess að hér var gefið í skyn að það kynnu að vera einhverjir aðilar sem útveguðu sér kvótann til þess að flytja ekki inn, þá er honum endurúthlutað.