Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 10:34:31 (887)

1996-11-07 10:34:31# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[10:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun skal forsrh. flytja Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar. Ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 1995 hefur verið dreift til þingmanna og vænti ég þess að þeir hafi haft tækifæri til þess að kynna sér hana. Ég vil nú leyfa mér, herra forseti, að hafa um þá skýrslu fáein orð.

Ef litið er almennt á þróun byggðar í landinu á síðasta ári má glögglega sjá að hún er ekki í samræmi við þau markmið sem m.a. voru sett fram í þeim efnum á Alþingi með samþykkt þál. um stefnumótandi byggðaáætlanir í maí 1994. Búferlaflutningar innan lands til höfuðborgarsvæðisins hafa aftur farið vaxandi undanfarin fjögur ár og nú er 16. árið í röð þar sem fleiri flytja til höfuðborgarsvæðisins innan lands en frá því. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að fólk flytji úr dreifbýli í þéttbýli, en við þurfum að gæta að því að samtals er hér um að ræða 43% af vexti höfuðborgarsvæðisins á þessu tímabili.

Það er áhyggjuefni að þeim þéttbýlisstöðum fer fækkandi á landsbyggðinni þar sem fólki fjölgar og æ fleiri bætast í hóp þeirra þar sem ríkir stöðnun og fækkun. Aftur á móti hafa orðið nokkur umskipti til hins betra varðandi búferlaflutninga frá útlöndum til landsins.

Það er áreiðanlega engin einhlít skýring á þeirri þróun byggðar sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi á Íslandi. Vonandi munu þau mál skýrast að hluta þegar fyrir liggja niðurstöður rannsóknar sem Byggðastofnun hefur nú nýlega hafið með Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og ætlað er að varpa ljósi á einstaklingsbundnar ástæður fyrir búferlaflutningum.

Miklar breytingar í landbúnaði annars vegar og sjávarútvegi hins vegar eiga þó efalítið sinn þátt í þróuninni. Í sjávarútveginum hefur verið að ganga yfir bylgja mikillar uppstokkunar. Fyrirtæki hafa verið að renna saman í stærri heildir, oft með starfsemi á fleiri en einum stað. Aukin fiskvinnsla um borð í frystiskipum og sókn á fjarlæg mið hafa breytt forsendum rekstrar í landi og þetta ásamt öðrum þáttum hefur orðið þess valdandi að mjög hefur dregið úr svokallaðri hefðbundinni landvinnslu til frystingar. Það er hins vegar mótsagnakennt að víða hefur orðið að manna þá landvinnslu sem enn er stunduð með erlendu vinnuafli.

Aukin veiði loðnu og síldar á undanförnum árum hefur leitt til endurnýjunar í sjávarútvegi. Er nú svo komið að yfir standa eða þegar er lokið endurbyggingu á fiskimjölsverksmiðjum mjög víða um landið. Auk þess hafa nýjar verksmiðjur risið. Þessar breytingar munu auka afköst og bæta framleiðsluna. Samhliða hafa fyrirtækin gert ráðstafanir til að bæta aðstöðu til að frysta afurðir uppsjávarfiska til manneldis.

Innan sjávarútvegsins standa með öðrum orðum yfir verulegar breytingar til að auka framleiðsluverðmæti. Hið sama á sér stað í mörgum öðrum greinum, þar á meðal í ferðaþjónustu, handverki og fleiru. Því er fráleitt að segja að atvinnulíf landsbyggðarinnar sé í stöðnun. Veikleiki landsbyggðarinnar virðist liggja í einhæfni þess og vöxtur þjónustugreina takmarkast víðast hvar af mannfæð.

Ríkisvaldið hefur takmörkuðu en þó ákveðnu hlutverki að gegna í eflingu sjálfstæðs atvinnulífs. Samgöngur skipta bæði almenning og atvinnureksturinn verulegu máli og þar hefur verið lyft grettistaki á undanförnum árum. Bættar samgöngur gera fólki mögulegt að sækja vinnu, þjónustu og skóla milli byggðarlaga. Það er hluti af bættum lífskjörum að bæta aðgang að þjónustu. Bættar landsamgöngur hafa einnig komið atvinnulífinu mjög til góða.

Þegar litið er í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1995 má glögglega sjá að uppsveifla atvinnulífsins hafði góð áhrif á rekstur stofnunarinnar. Hagnaður varð 45 millj. kr. og eiginfjárhlutfall er 16,6%. Þörfin fyrir afskriftaframlag minnkaði og áður afskrifuð lán innheimtust. Niðurstaða efnahagsreiknings stofnunarinnar var um 7,3 milljarðar og hafði dregist saman um nær 10%.

Útlán á árinu eru samtals rúmur milljarður en aukning frá fyrra ári stafaði að hluta til af hinni miklu fjárhagslegu endurskipulagningu innan sjávarútvegsins sem nú gengur yfir. Stofnunin hafði mun meira fé til ráðstöfunar til styrkveitinga á árinu 1995 en mörg fyrri árin eða alls 202 millj. kr. Auknu framlagi til stofnunarinnar af fjárlögum var varið til þeirra og auk þess hafði stofnunin til ráðstöfunar aukafjárveitingar til smábáta á aflamarki og vegna búvörusamnings.

Af almennu ráðstöfunarfé var 95 millj. kr. varið til styrkveitinga og þar af 30 millj. kr. til atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni og var það framlag hækkað um 5 millj. kr. frá fyrri árum. Í fyrsta sinn varð að auglýsa eftir styrkjum bæði vor og haust. Alls bárust um 400 umsóknir eftir fyrri umsóknarfrest. Mikið af þeim umsóknum var vegna álitlegra mála sem þóttu horfa til framfara en vegna mikils fjölda þeirra var ljóst að mörgum umsækjendum þurfti að synja.

Við mat á umsóknum var horft til þess hvert væri nýjungagildi verkefna en einnig arðsemi og raunhæfni og hvernig staðið væri að undirbúningi. Reynt var að meta hæfi framkvæmdaraðila og hvernig þeir hygðust standa að fjármögnun. Þá var einnig horft til samkeppnisstöðu og umhverfisáhrifa.

Sérstakt framlag til stofnunarinnar vegna búvörusamnings var 70 millj. kr. og vegna smábáta 40 millj. kr. Þeim fjármunum sem stofnunin hafði til ráðstöfunar vegna búvörusamnings var í meginatriðum varið til þeirra landsvæða sem háðust eru sauðfjárrækt í samræmi við fyrri stefnumótun.

Með fjáraukalögum fyrir árið 1994 og fjárlögum fyrir árið 1995 fékk Byggðastofnun til ráðstöfunar alls 40 millj. kr. til að veita sem styrki til útgerðar smábáta á aflamarki vegna þess samdráttar í veiðiheimildum sem þessir aðilar höfðu orðið fyrir. Upphæðinni var deilt milli þeirra báta sem enn voru gerðir út og höfðu aflaheimildir umfram eitt tonn af þorski. Sett var lágmark og hámark á úthlutun vegna hvers báts, en að öðru leyti var styrkurinn í réttu hlutfalli við samdrátt í tekjuöflunarmöguleikum yfir þrjú undangengin fiskveiðiár. Samtals var veittur styrkur til 295 aðila.

Með lögum um fiskveiðistjórnun, sem samþykkt voru árið 1995, var Byggðastofnun falið að úthluta veiðiheimildum til báta á þorskaflahámarki sem gerðir eru út frá stöðum sem háðir eru veiðum slíkra báta og standa höllum fæti. Um er að ræða 500 tonna þorskaflahámark og skal stofnunin ráðstafa þessum aflaheimildum árlega í fjögur fiskveiðiár. Úthlutunin tók til þeirra staða þar sem hlutur krókabáta var yfir 50% af afla heimabáta. Þá takmarkaðist úthlutunin einnig af því að sjávarútvegur væri yfir 10% af atvinnulífi. Þeir staðir sem samkvæmt þessu fengu endanlega úthlutun voru Tálknafjörður, Suðureyri, Grímsey, Bakkafjörður, Borgarfjörður eystri og Breiðdalsvík. Hver þorskaflahámarksbátur sem gerður var út frá þessum stöðum fékk ríflega fjórðungsviðbót við aflaheimildir sínar með þaki sem var ríflega 10 tonn.

Á árinu 1995 gerði svokölluð Vestfjarðanefnd tillögur til stjórnar Byggðastofnunar um lánveitingar af Vestfjarðaaðstoð að upphæð 197 millj. kr. en áður höfðu verið afgreiddar 80 millj. kr. Af upphaflegri fjárveitingu sem nam 300 millj. kr. var 15 millj. kr. varið til styrkveitinga til nýjunga í atvinnulífi. Nú hefur verið lagt fram í þinginu frv. til fjáraukalaga þar sem veitt verður 60 millj. kr. viðbót við 300 millj. kr. framlagið til þess að leysa, með sambærilegum aðgerðum og sömu skilyrðum og sett voru fyrir fyrri lánveitingum, erfiðleika í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum.

Áfram hefur verið unnið að gerð svæðisbundinna áætlana í Byggðastofnun. Nú er lokið slíkri áætlanagerð fyrir Skaftárhrepp í Vestur-Skaftafellssýslu og Reyðarfjörð, Eskifjörð og Neskaupstað en það svæði hefur verið kallað miðfirðir Austfjarða. Svæðisbundnar byggðaáætlanir fyrir Vestur-Húnavatnssýslu og Vestur-Barðastrandarsýslu eru á lokastigi. Á öllum þessum svæðum hefur verið unnið í nánu samstarfi við heimamenn að úttekt á núverandi stöðu og horfum fyrir viðkomandi byggðarlag. Gerðar eru tillögur um atvinnuþróunarstarf á viðkomandi svæðum. Einnig hafa verið gerðar tillögur um fyrirkomulag opinberrar þjónustu og þær hafa verið bornar undir einstök ráðuneyti. Staðreyndin er hins vegar sú að langtímamarkmiðssetning um þróun einstakra málaflokka sem ríkið annast liggur ekki fyrir nema í undantekningartilvikum. Sjaldnast beinast óskir heimamanna að gegndarlausri útþenslu hins opinbera, eins og stundum er látið að liggja. Fremur eru menn að sækjast eftir staðfestingu á því að núverandi þjónustustigi verði haldið næstu árin.

Þegar Ísland gerðist aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði tóku gildi reglur þær sem á svæðinu gilda um ríkisstyrki. Samningurinn takmarkar möguleika einstakra ríkja til að aðstoða atvinnurekstur með styrkveitingum. Þetta ákvæði er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga vegna þess að við höfum ekki veitt umfangsmikla, beina ríkisstyrki til atvinnurekstrar, nema í landbúnaði, og hér er heldur ekki hefð fyrir því að fyrirtæki sæki fjárfestingarstyrki til ríkis eða annarra opinberra aðila svo sem viðgengist hefur í Evrópu. Þetta er að sínu leyti styrkur fyrir okkur, enda hafa ríkisstyrkir annarra veikt samkeppnisstöðu okkar.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur það verkefni að fylgjast með styrkveitingum opinberra aðila til atvinnurekstrar og þar með styrkveitingum Byggðastofnunar. Á hinu Evrópska efnahagssvæði eru almennt gerðar kröfur til þess að styrkveitingar séu skýrt afmarkaðar í verkefnum, að reglur séu skýrar og gagnsæjar og að jafnræðis sé gætt. Þetta gegnir tvíþættu hlutverki. Annars vegar er þetta gert til þess að tryggja eðlilega samkeppnisstöðu milli landa en hins vegar, og það er ekki síður mikilvægt, til þess að tryggja jafnræði milli fyrirtækja innan lands. Þar er nálægðin meiri og mikilvægt að sátt sé um þann stuðning sem veittur er.

[10:45]

Í framhaldi af viðræðum íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA hefur stofnunin staðfest tillögu forsrn. um að byggðastyrki megi veita á allri landsbyggðinni hér á landi. Er það gert með tilvísun til íbúaþróunar á landsbyggðinni, hversu dreifð byggðin þar er og einhæfni atvinnulífsins. Í suðlægari hlutum Evrópu eru byggðaaðgerðir réttlættar á grundvelli lágra tekna og mikils atvinnuleysis samkvæmt sérstökum viðmiðunum en slíkar forsendur eru ekki fyrir hendi hér á landi. Í nágrannalöndum okkar, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru hins vegar færð svipuð rök fyrir byggðaaðgerðum og hér er gert.

Eftirlitsstofnunin hefur fjallað um hvaða hámarksstuðningur við fjárfestingar af hálfu opinberra aðila sé heimill. Hér er eingöngu um heimildarákvæði fyrir íslensk stjórnvöld að ræða en fjárfestingarstuðningur hér á landi hefur verið afar takmarkaður. Forsrn. hefur tekið athugasemdir Eftirlitsstofnunarinnar vegna framkvæmda byggðastyrkja til athugunar og er unnið að breytingum á reglugerð um Byggðastofnun af því tilefni. Þessar breytingar snúa að því að afmarka starfssvæði stofnunarinnar og setja reglur um hámarksstuðning við fjárfestingu annars vegar en hins vegar að setja skýrari reglur um skipulagningu stuðningsstarfsins og málsmeðferð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun hjá Byggðastofnun var á þetta bent og með reglugerðarbreytingum verður tekið á þeim þáttum sem að málsmeðferð hjá stofnuninni snúa.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu rætt um starfsemi Byggðastofnunar á síðasta ári, en hef ekki enn minnst svo neinu nemi á stjórnsýsluendurskoðun þá sem Ríkisendurskoðun framkvæmdi á yfirstandandi ári á Byggðastofnun að beiðni stjórnarformanns hennar. Skýrsla Ríkisendurskoðunar vakti töluverða athygli og umræðu og þótti ýmsum sem niðurstöður skýrslunnar gæfu tilefni til róttækra breytinga, jafnvel að skýrslan gæfi sjálfstætt tilefni til að leggja stofnunina niður.

Um skýrslu Ríkisendurskoðunar er það að segja að þar koma fram þarfar ábendingar sem eðlilegt er og sjálfsagt að stofnunin taki mið af og lagfæri sína hluti með hliðsjón af þeim.

Viðbrögð stjórnar Byggðastofnunar við skýrslunni hafa verið á þá leið að ætla má að hún muni færa sér skýrsluna í nyt, bæði varðandi verklag og stefnumótun innan stofnunar.

Ýmislegt sem Ríkisendurskoðun beinir spjótum sínum að er svo þess eðlis að það er ekki síður við aðra að sakast en stofnunina sjálfa því auðvitað var það ekki síst fyrir þrýsting Alþingis og ríkisstjórnar sem stofnunin lánaði í fiskeldi, loðdýrabúskap og annað sem hún hefur tapað mestum fjármunum á í fyrri tíð. Útlánatap stofnunarinnar var einmitt það sem mesta athygli vakti í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Útlánatapið síðustu tíu ár er vissulega miklu meira en getur talist ásættanlegt. Það er hins vegar hverju barni ljóst að Byggðastofnun var frá öndverðu ætlað að taka áhættu í þágu byggðasjónarmiða. Að öðrum kosti hefði verið einfaldast að eftirláta almennum lánastofnunum þessa starfsemi en hætt er við að bankar eða almennar lánastofnanir hefðu seint talið sér hag í ýmsu því sem forðum var iðulega breið pólitísk samstaða um að væri nauðsynlegt og að stofnuninni bæri að gera þótt það kostaði fé.

Þó er á hinn bóginn vissulega vafasamt að líta alfarið til fortíðar hinnar almennu lánastarfsemi sem heilags fordæmis fyrir nokkurn mann. Það er t.d. ótrúlegt að stærsti banki þjóðarinnar skuli ekki eiga nema um 6 þús. millj. kr. í eigið fé eftir 100 ára starf. Eignamyndun bankans er ekki nema 60 millj. kr. á ári og er þá ekki litið til eigin fjárframlaga eiganda hans.

Ríkisendurskoðun gerir ekki í skýrslu sinni hina minnstu tilraun til að meta þann ávinning sem náðst hefur með starfsemi stofnunarinnar eða það tap sem vera má að henni hafi tekist að forða. Stofnunin leggur hins vegar út í útreikning á því sem í skýrslunni er nefnt ,,fórnarkostnaður vegna byggðaaðgerða`` síðustu tíu árin. Afar sérkennilegt er hvernig þessi kostnaður er fundinn en Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að þessi fórnarkostnaður næmi 8,5 milljörðum kr. Þetta er gert m.a. með því að vaxtareikna öll framlög ríkisins til stofnunarinnar, sem getur vart talist viðeigandi og jafnvel beinlínis villandi, enda ber að líta á stóran hluta af þessum framlögum sem rekstrarframlög til almennrar starfsemi og framlög vegna styrkveitinga og afskrifta sem aldrei var ætlast til að stofnunin ávaxtaði.

Séu vextir og eigið fé og framlög ríkisins á tímabilinu dregin frá lækkar þessi fjárhæð um 3,1 milljarð og því til viðbótar bendir allt til þess að 2,6 milljarðar, eigið fé stofnunarinnar í upphafi tímabilsins, hafi verið stórlega ofmetið, en útistandandi lán stofnunarinnar sem reiknuð voru til eigin fjár voru að stórum hluta til óverðtryggð og á lágum vöxtum þrátt fyrir mikla verðbólgu og afskriftareikningurinn tómur. Hefði verið nær að Ríkisendurskoðun með sínum aðferðum reiknaði eigið fé niður.

Ég rek þetta ekki hér til að bera í bætifláka fyrir einn eða neinn en það er nauðsynlegt að menn átti sig á hvað stendur á bak við þessar tölur og það er ekki síður nauðsynlegt að menn átti sig á að með sömu reiknikúnstum má gera æðimargt tortryggilegt og valda mönnum stórskaða. Ekki er vafi á í mínum huga að Ríkisendurskoðun er ein gagnlegasta stofnun okkar og hefur með beinu og óbeinu aðhaldi sparað ríkisvaldinu og ríkinu stórfé. En hvað ætli samanlagður, uppfærður vaxtareiknaður fórnarkostnaður sé orðinn af rekstri þeirrar ágætu ríkisstofnunar ef saman væri tekið með þeim hætti sem gert var um Byggðastofnun?

Ég vil einnig vekja athygli á því að í skýrslu Ríkisendurskoðunar fer lítið fyrir umræðum um þau stórkostlegu umskipti sem urðu í starfi stofnunarinnar við og eftir að sett var reglugerð um stofnunina árið 1992 en síðan þá hefur stofnunin nánast viðhaldið eigin fé sínu og verið rekin með hagnaði sum ár. Þetta nefnir Ríkisendurskoðun ekki þrátt fyrir að á þetta hafi verið bent.

Ríkisendurskoðun er afar mikilvæg stofnun og vinnur margt vel enda ríkisendurskoðandi fær og góður embættismaður. En þeir sem eru í hlutverki gagnrýnenda og dómara verða sjálfir að setja það fordæmi að vera opnir og ekki uppnæmir fyrir gagnrýni, leiðréttingum og aðfinnslum.

Ég leyfi mér að vísa til greinargerðar sem Byggðastofnun hefur sent forseta Alþingis þar sem kvartað er yfir framangreindu atriði og staðhæft er að stærstur hluti útlánataps stofnunarinnar hafi fallið til fyrir fimm til tíu árum síðan. Þar segir, með leyfi forseta, orðrétt um þá breytingu sem varð í kjölfar setningar reglugerðarinnar:

,,Stofnuninni var sett skýrt fjárhagslegt markmið að varðveita eigið fé og gjaldfært er strax fyrir áhættu í hverri lánveitingu. Áherslan færðist á minni styrki til nýsköpunar og áætlunargerðar. Hlutafjárþátttöku var hætt um tíma og stórlega dró úr lánveitingum, fjárhagsleg umsvif hafa dregist verulega saman og stofnunin starfar nú á grundvelli þeirra um 140 millj. kr. á ári sem eftir sitja þegar atvinnuráðgjafar í landshlutum hafa fengið sinn hlut. Þær 140 millj. kr. verða að duga fyrir rekstrarkostnaði stofnunarinnar, áhættu í lánveitingum og til styrkveitinga vegna nýsköpunar.

Ég vil ítreka þá skoðun að margt hafi færst til betri vegar í starfi og starfsháttum Byggðastofnunar og um margt hafi verið brugðist við þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á síðustu vikum, fyrir fjórum árum síðan. Nú er það svo að afkomuhorfur Byggðastofnunar hafa batnað vegna bættra skila lántakenda við stofnunina sem helgast fyrst og fremst af bættri stöðu atvinnulífsins í landinu almennt þannig að hagur stofnunarinnar sýnist vera alltryggur.

Herra forseti. Þótt margt hafi batnað í starfsemi Byggðastofnunar er nauðsynlegt að endurmeta hana og gera á henni breytingar. Það umhverfi sem stofnunin starfar í hefur breyst mikið og það eitt og sér gefur tilefni til slíkrar skoðunar. Skýrsla Ríkisendurskoðunar á þar að koma að gagni enda er hún að mörgu leyti prýðilega unnin. Í henni koma fram ábendingar sem vert er að skoða, til að mynda varðandi stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar en taka má undir að æskilegt sé að koma á eðlilegu stjórnsýslusambandi milli stofnunar og ráðuneytis. Raunar er stigið skref í þá átt í bandormi sem ríkisstjórnin mun leggja fram í tengslum við nýju starfsmannalögin, en þar er gert ráð fyrir því að forsrh. skipi forstjóra stofnunarinnar, sem stjórnin hefur ráðið til þessa.

Við slíkt mat á hlutverki stofnunarinnar og áherslum á starfsemi hennar þarf að líta til þess sem vel hefur farið í starfsemi hennar ekki síður en til þess sem farið hefur verr.

Flestir eru því væntanlega sammála að Byggðastofnun hafi með ágætum sinnt þátttöku í og stuðningi við það atvinnuþróunarstarf sem fram fer á vegum atvinnu- og iðnþróunarfélaga víða um landið, en stofnunin er hluthafi í þeim og liðsinnir atvinnuráðgjöfum á landsbyggðinn með margvíslegum hætti. Ég heyri vel látið af þessum þætti í starfsemi stofnunarinnar og tel að hann megi enn efla.

Einnig hefur vinna sem stofnunin hefur unnið í tengslum við gerð svæðisbundinna byggðaáætlana mælst vel fyrir meðal sveitarstjórnarmanna og stuðlað að aukinni samvinnu þeirra sveitarfélaga sem þessar áætlanir ná til. Tilfærsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga, stækkun sveitarfélaganna og efling þeirra hlýtur raunar að kalla á að þau komi að málum sem þau varða og eru til umræðu á vettvangi Byggðastofnunar.

Herra forseti. Eins og áður sagði eru betri skil á útlánum Byggðastofnunar ótvíræð vísbending um batnandi stöðu atvinnulífsins. Sá bati sem þar á sér stað hlýtur einnig að segja okkur að þörf fyrir sértæka útlánastarfsemi af því tagi sem Byggðastofnun hefur rekið er ekki eins rík nú og í erfiðara árferði og gefur það tilefni til þess að endurmeta frá grunni þörfina fyrir slíka starfsemi ellegar að þrengja skilyrði fyrir lánveitingu. Í þessu sambandi er vert að líta til þess að samkeppni um eignarhald fyrirtækja er orðin virkari á síðari árum en áður var og eignarhald atvinnufyrirtækja er ekki lengur bundið við þá staði eða svæði þar sem þau eru starfrækt. Þetta dregur úr þörfinni fyrir að ríkið grípi inn í þegar á bjátar í einstökum fyrirtækjum því aðrir sjá sér í auknum mæli hag í því og hafa bersýnilega til þess nauðsynlegt bolmagn.

Ör þróun á hlutabréfamarkaði lýtur einnig að því sama. Því orkar mjög tvímælis að veita einstökum fyrirtækjum og eigendum þeirra styrki eða lán sem eru afskrifuð jafnharðan. Einnig hlýtur að koma til álita að skoða hlutverk Byggðastofnunar á lánamarkaði með tilliti til væntanlegrar uppstokkunar á opinberum fjárfestingarlánasjóðum.

Ég tel að öllu samanlögðu mjög jákvætt að fram fari góð og málefnaleg umræða um málefni Byggðastofnunar og æskilegar breytingar á starfsemi hennar. Stofnuninni þarf að setja raunhæf markmið en gagnrýni á stofnunina má að hluta rekja til þess að henni hafi stundum verið sett óljós og jafnvel óframkvæmanleg markmið á liðnum árum.