Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 10:55:54 (888)

1996-11-07 10:55:54# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), KHG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[10:55]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Inn í umræðu um þessa skýrslu fléttast án efa umræður um önnur mál og skyld en sjálf ársskýrsla Byggðastofnunar. Það er óhjákvæmilegt að mínu mati að koma inn á byggðastefnuna almennt og einnig skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hæstv. forsrh. vék að. En áður en ég held lengra áfram mínu máli, herra forseti, vildi ég spyrja hvort ræðutíminn sé ekki 15 mínútur?

(Forseti (StB): Jú, það er rétt. Ræðutíminn er 15 mínútur.)

Fyrst um byggðastefnuna almennt og verkefni Byggðastofnunar í framhaldi af því og hvernig menn skilgreina það mál. Það sem menn þurfa að hafa í huga er að byggðastefna er tilkomin vegna þess að það er ójafnvægi. Menn eru ekki að setja fram slíkt hugtak og skilgreina það nema af því að menn telja að eitthvað fari öðruvísi en þeir vilja og vilja bæta úr því. Það hefur oft verið æðióljóst hvað menn eiga við með orðinu byggðastefna og ég vil a.m.k. fyrir mitt leyti reyna að skýra það hugtak.

Í mínum huga er það stefna sem stjórnmálaflokkar eiga að framfylgja og hefur það að markmiði að þróun í íslensku þjóðfélagi gangi nokkuð jafnt yfir landið allt. Þar á ég bæði við þróun í atvinnulífi og fólksfjölda og tækifæri manna til ýmissa lífsins gæða sem boðið er upp á í samfélaginu. Það þýðir að þegar á hallar, eins og þegar atvinnulíf stendur veikt á tilteknum stöðum, þá lít ég á það sem pólitískt verkefni að grípa þar inn í og bæta úr. Þegar fólki fækkar á tilteknum landsvæðum, þá lít ég á það sem pólitískt verkefni stjórnmálaflokkanna að hafa skoðun á því hvers vegna þetta er og hvaða tillögur þeir hafa til úrbóta.

Undanfarin tíu ár eða svo hefur verið að mínu mati þróun, bæði í atvinnumálum og íbúaþróun, sem hefur einkennst af ójafnvægi. Fólki hefur fjölgað afar mikið á einu svæði landsins og fækkað mikið á hinum hluta landsins í heildina. Sums staðar hefur fólksfjöldi staðið í stað, annars staðar hefur orðið mikil fækkun, mismikil þó eftir stöðum.

Það hefur líka verið mismunandi afkoma í atvinnugreinum. Þar á ég fyrst og fremst við um þær þrengingar sem sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum á undanförnum árum. Þær eru auðvitað að sumu leyti orsökin fyrir hinu fyrra sem ég nefndi, þ.e. íbúaþróuninni, en það er líka annað og meira sem ekki hefur verið eins mikið í umræðunni á undanförnum árum og menn hafa kannski ekki veitt eins athygli en ég hygg að hafi jafnvel meiri áhrif heldur en þrengingar í aðalatvinnugreinum landsbyggðarinnar, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði. Það er uppbyggingin á ríkinu, hinni opinberu þjónustu. Þar hafa menn dregið saman þá uppbyggingu, byggt hana ójafnt upp þannig að á sumum stöðum og sumum landsvæðum búa menn við miklu lakari stöðu hvað það varðar en annars staðar. Þetta ójafnvægi hefur að mínu viti haft gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun hér á landi eins og menn sjá ef þeir hugsa málið eilítið. Það hlýtur auðvitað að hafa mikið að segja ef aðeins er boðið upp á störf, tiltekin störf á ákveðnum stöðum landsins en ekki annars staðar. Það hlýtur að hafa þau áhrif að þeir sem mennta sig til þeirra starfa verða að flytja sig þar sem störfin eru í boði og setja sig niður þar. Á undanförnum árum, kannski getum við sagt á áratugum, en ég vil segja á undanförnum áratug, hefur nefnilega verið ákaflega hröð sú þróun, að hin faglega þjónusta hefur þjappað sér saman á höfuðborgarsvæðinu. Einkum er þetta áberandi í störfum sem eru hjá ríkisvaldinu og krefjast menntunar.

[11:00]

Það er því afar brýnt að mínu viti að taka á þessum þætti málsins og dreifa hinum opinberu verkum meira um landið en verið hefur og ég hef fagnað því framtaki hæstv. umhvrh. að flytja eina ríkisstofnun, að vísu litla, en áformi hans um að flytja hana héðan og út á land hef ég fagnað vegna þess að hún er merki þess að menn vilja breyta. Og menn hafa tekið eftir því að þetta skiptir máli. Það má deila um það hvort aðferðin sé rétt en engu að síður er ákvörðunin rétt og hana styð ég. Menn hafa nefnt að aðrar aðferðir væru vænlegri, eins og að ný störf verði frekar sett niður utan höfuðborgarsvæðisins, stofnanir fluttar að hluta til eða eitthvað slíkt og allt þetta má auðvitað skoða. En ég bendi á að menn hafa talað um það í aldarfjórðung að ætla að gera hlutina svoleiðis en hafa ekkert gert. Það hefur ekkert orðið úr verkum að ég tel vegna þess að menn meintu ekkert með því. Þegar menn tala um að þau störf sem kunni að skapast í framtíðinni verði kannski sett niður á landsbyggðinni en ekki sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þá er það að mínu viti bara flótti frá veruleikanum og menn víkja sér undan því að taka á málinu sjálfu.

Eitt er það sem hefur ef til vill verið byggðastefnunni verra en nokkuð annað og tengist því sem ég var að ræða um, uppbyggingunni á hinni opinberu þjónustu. Í stað þess að byggðastefnan grundvallist á að dreifa þessum faglegu störfum nokkuð jafnt um landið þannig að íbúasamsetning í landinu væri nokkuð svipuð en ekki eins og hún er að þróast í dag, að á einu svæði landsins er menntafólkið, mennirnir með háskólaprófin, og á hinum svæðum landsins eru þeir sem eru á götunni í verkamannagallanum. Þannig er íslenskt þjóðfélag að þróast.

Menn hafa sagt að til þess að ekki verði of mikil átök um þessa stefnu skuli hinar nýju atvinnugreinar verða úti á landi, nýsköpunin skuli vera úti á landi. Menn hafa sett peninga í fiskeldi og loðdýrarækt og sagt: Þarna er nú það sem við ætlum að færa landsbyggðinni svo hún haldi sínum hlut. En það er afar ósanngjarnt að landsbyggðin eða byggðastefnan sé tengd við áhættu og nýsköpun almennt í þjóðfélaginu. Það á að vera almennt verkefni þjóðfélagsins en ekki partur af byggðastefnu. Eins og allir þekkja hefur farið heldur illa í þessum tveimur helstu nýsköpunaratvinnugreinum, sem menn hugðust setja á stofn og skellurinn af því hefur bitnað á byggðastefnu og í framhaldi af því heldur neikvæðri umræðu um hana og um landsbyggðina í heild sinni. Þetta tel ég afar ósanngjarnt. Hefur það verið málinu heldur fjötur um fót að menn vikust undan að koma með tillögur sem tækju á hinu raunverulega vandamáli og reyndu að bæta úr því en í staðinn gripu menn til þess ráðs að beina sjónum að öðru sem ekki væri að vænta andstöðu við héðan af þessu svæði.

Ég vil segja, herra forseti, að lokum um þetta mál að sú áhersla sem undanfarna mánuði hefur verið lögð á eitt mál og hefur verið helst í umræðunni er í raun angi af þessu öllu saman. Þar á ég við þessa miklu umræðu um veiðileyfagjald. Hvað er veiðileyfagjald? Þegar menn greina það mál og reyna að átta sig á um hvað það snýst, þá fjallar það mál aðeins um eitt atriði. Skatta. Að leggja skatta á tiltekinn hóp í þjóðfélaginu. Og hvaða hópur á að borga skattinn? Það eru þeir sem búa úti á landi. Og hverjir eiga að fá skattinn? Það eru þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Staðan er nefnilega sú að 86% af sjávarútvegi í landinu er utan höfuðborgarsvæðisins. 86% af tekjum af veiðileyfagjaldi, sem getur numið 15--30 milljörðum kr. árlega samkvæmt fullyrðingum flutningsmanna, eru peningar sem eru teknir út úr byggðarlögum úti á landi og færðir í gegnum ríkissjóð á höfuðborgarsvæðið. Það er ekkert annað en nýlendustefna á landsbyggðina. Veiðileyfagjald sem byggir á að taka það í gegnum ríkissjóð og eyða því eins og útgjöld ríkissjóðs flokkast er ekkert annað en nýlendustefna á landsbyggðina. Ef menn meina eitthvað með því að vilja taka arð af atvinnugrein og láta íbúana njóta þess, sem standa að því að skapa þann arð, þá eiga menn að leggja það til að arðurinn renni þar sem hann verður til, dreifist á byggðirnar sjálfar. En það dettur mönnum ekki í hug, sem halda þessu fram, af því að þeir eru ekki að hugsa um landsbyggðina, því miður. Og mega nú þingmenn jafnaðarmannaflokksins mikla hafa það í huga, þegar þeir fara að halda fundi á landsbyggðinni og tala við fólkið þar, að þá er betra fyrir þá, og ég ráðlegg þeim það, að endurskoða þessar hugmyndir sínar a.m.k. í þá veru sem ég hef nefnt. Því þar fá þeir engan stuðning við þessa nýlendustefnu sína sem þeir hafa boðað í þingsölum.

Herra forseti. Tími minn er það naumur að ekki gefst færi á að víkja að öllu því sem vert væri. Ég vil að lokum segja það um byggðastefnuna að menn átta sig kannski á því að hún er víðtækara hugtak en menn halda. Það er fleira sem menn eru að gera, sem er í reynd byggðastefna, en er undir öðru nafni. Það má t.d. nefna það að undanfarin mörg ár hefur verið rekin sérstök byggðastefna gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Ríkissjóður hefur styrkt ákveðin verkefni á höfuðborgarsvæðinu með beinum fjárframlögum sem sveitarfélögum annars staðar á landinu er gert að borga úr sínum sjóðum og af sínum tekjum. Þar á ég við rekstur leikskóla við sjúkrastofnanir, sem hefur í mörg ár verið kostaður af fjárlögum ríkisins í gegnum fjárveitingar til spítalanna og nemur á þriðja hundrað millj. kr. á ári. Þetta er verkefni sem sveitarfélögum annars staðar er sagt: Þið eigið að borga þetta. Þetta er auðvitað ekkert annað en byggðastyrkur inn á höfuðborgarsvæðið.

Annað dæmi um sérstakan byggðastyrk inn á höfuðborgarsvæðið er 2 milljarða kr. styrkur til sveitarfélaga til þess að geta staðið undir því að einsetja grunnskóla. Hvaða sveitarfélög fá þennan styrk? Það eru þau sveitarfélög sem eru fjölmennari en 2.000 manns. Nær allur þessi styrkur rennur inn á höfuðborgarsvæðið. Það er dálítið merkilegt að menn skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að styrkja þurfi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu alveg sérstaklega til að taka við þessu verkefni af ríkinu þegar menn hafa haldið því fram ár eftir ár að fjölmennari sveitarfélög væru betur í stakk búin til að sinna sínum verkefnum en fámennari sveitarfélög. En komast svo að þeirri niðurstöðu að sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa geti einsett sína grunnskóla af þeim tekjum sem þau hafa haft. Hvað er þetta annað en byggðastyrkur? Það mundi heita byggðastyrkur ef örin á stefnunni væri í hina áttina, út á land en ekki inn á höfuðborgarsvæði eins og er í þessu tilviki.

Ég vil, herra forseti, víkja örfáum orðum að skýrslu Ríkisendurskoðunar og af því tími minn er nú nánast búinn þá verð ég að afmarka það við aðeins eitt atriði sem fram kemur í skýrslunni og leiðrétta það. Á bls. 107 í skýrslunni kemur fram sú sérkennilega skoðun að hlutverk stjórnar Byggðastofnunar sé ekkert annað en að greiða atkvæði um þær tillögur sem forstjóri stofnunarinnar leggur fram og stjórnarmenn hafi það eitt hlutverk að segja já eða nei. Geti sjálfir ekki lagt fram tillögur eða breytingartillögur eða annað af því tagi. Mér þykir miður að sjá þetta atriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar því þetta er hrein firra, eins og allir sjá sem hafa lesið lögin, og lesið frv. og framsögu með því máli (Forseti hringir.) þegar það var lagt fram fyrir ellefu árum. Það er slæmt fyrir stofnun sem vill láta taka sig alvarlega í íslensku þjóðfélagi, eins og Ríkisendurskoðun, þegar hún er ber að hreinum ósannindum.