Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:27:14 (890)

1996-11-07 11:27:14# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:27]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða sem hér á sér stað skuli fara fram. Ég vek athygli á því að um er að ræða umfjöllun um stofnun að því leyti sérstaks eðlis hún fer fram í heyranda hljóði á Alþingi sem er nú ekki mjög algengt í sambandi við ríkisstofnanir

Ég fagna framsöguræðu hæstv. forsrh. og er reyndar sammála því sem kom fram í máli hans. Það er vert að geta þess svo það valdi ekki misskilningi að ég hef farið yfir ræðuna eftir að ég kom til þessa fundar en ég var upptekinn við önnur störf á meðan framsagan átti sér stað.

Hér hefur umræðan m.a. verið um skýrslu Ríkisendurskoðunar og ég tel það raunar mjög af hinu góða. Ég óskaði eftir þessari skýrslu. Mér fannst það eðlilegur kostur þegar ný stjórn tæki við, þar af fimm nýir stjórnarnefndarmenn, að skoðun Ríkisendurskoðunar á starfsháttum stofnunarinnar lægi fyrir. Ég vek líka athygli á því að auðvitað er skýrsla Ríkisendurskoðunar ekki vísindaleg úttekt. Hún byggist eðli málsins samkvæmt á ályktunum sem sumar verða að vera á ábyrgð Ríkisendurskoðunar sem slíkrar. Þannig að auðvitað er hægt að deila um ýmislegt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sérstaklega ef menn vilja haga lestrinum þannig. Ég sé hins vegar marga jákvæða hluti og gagnlega koma fram í skýrslunni. Það sem skiptir meginmáli er að skýrslan sé notuð þannig að hún geti verið leiðsögn. Það er margt í þessari skýrslu sem gerir hana að góðri leiðsögn fyrir stjórnendur stofnunarinnar.

[11:30]

Það er alveg ljóst að megingagnrýnin sem kemur fram, reyndar eins og hún hefur verið útlögð af fjölmiðlum, byggist á þeim töpum sem Byggðastofnun hefur orðið fyrir. Og auðvitað er ekki að leyna neinu í þeim efnum. Ég veit ekki hver það er sem hefur t.d. grætt á fiskeldi. Ég veit reyndar ekki um neinn sem ekki hefur tapað á fiskeldi. Og það gerði Byggðastofnun eins og aðrar þær stofnanir sem lánuðu til fiskeldis. Mér sýnist að töp Byggðastofnunar, auðvitað eru það háar tölur, en ég held að þær séu eitthvað um 3--5% af heildartöpum og gjaldþrotum í landinu á þessum sama tíma. Menn hafa nefnilega verið að gera upp erfiða reikninga frá þeim tíma sem atvinnulífið átti í vök að verjast og það er enginn munur á því sem hefur komið fyrir í rekstri Byggðastofnunar í þeim efnum frá því sem er um aðrar stofnanir.

Ég tek sérstaklega undir þau orð sem komu fram í ræðu hjá hv. 5. þm. Vestf., að það er auðvitað spurning hvar við erum að fást um byggðamál, hér í þessum þingsal og í þjóðfélaginu. Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu þingmannsins um þetta efni. Það vildi svo til að ég fékk í morgunsárið í hendurnar skýrslu um þær ákvarðanir sem eru teknar á Alþingi við fjárlagagerð. Það er kannski nokkuð eðlilegur kostur að vekja athygli á þeim niðurstöðum sem þar fást og líta svo aðeins til þeirra möguleika sem Byggðastofnun hefur til þess að snúa byggðaþróuninni við. Ég hef þann fyrirvara á, herra forseti, að ég hef ekki getað skoðað þessar niðurstöður grannt. En þær eru unnar upp úr ríkisreikningi og ættu að vera nokkuð traustar heimildir. Þar kemur m.a. fram að viðhaldskostnaður, sem greiddur er af fjárlögum ríkisins, sem er nú æðigóður póstur, fer sífellt hækkandi á þéttbýlissvæðinu í Reykjavík og á Reykjanesi. Hann er hins vegar að dragast saman úti á landsbyggðinni og þegar sleppt er t.d. vegagerð, þetta er bæði með og án vegagerðar, þá sjást varla fjárveitingar í sumum kjördæmum. Ég nefni t.d. Vestfirði í þessum efnum, það sjást varla tölur í þeim efnum. Ef litið er til annarra stærða, t.d. launagreiðslna ríkisins, þá eru um 75% eða 3/4 hlutar hér á þéttbýlissvæðinu og landsbyggðin skiptir hinu á milli sín. Það er nokkuð athyglisvert að þessar greiðslur fara hækkandi á þéttbýlissvæðunum en fara lækkandi úti á landsbyggðinni. Þetta er ekkert mjög ólíkt því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson komst að áðan. Og þannig mætti reyndar lengur telja. Ekki síst af því að menn eru að tala um fækkun starfa úti á landsbyggðinni þá sýnist mér að það komi út úr þessari skýrslu að 90% nýrra starfa í opinbera samfélaginu sé deilt út í þessi tvö kjördæmi. Mér sýnist líka að þrátt fyrir allan niðurskurðinn sem menn eru að tala um, og er nú að hálfu leyti kominn á sálina á ýmsum góðum mönnum, þá fjölgi störfum við opinbera þjónustu hér á þéttbýlissvæðunum en fækkunin verði úti á landsbyggðinni.

Þessi skýrsla er unnin upp úr ríkisreikningi og ég held að þetta sé nokkuð óumdeilanlegt. Síðan er verið að taka ýmsar aðrar ákvarðanir í þjóðfélaginu, t.d. í sambandi við stjórn fiskveiða. Ríkisvaldið hefur verið að gera samning við bændur og það er auðvitað erfitt og kannski ekki hægt eins og er að sýna fram á áhrif hans --- og þó. En það kemur í ljós að samdráttur í landbúnaði kemur mjög harkalega niður á sumum byggðarlögum hér á landi, einkum norðvestanlands og norðaustanlands og menn hafa ekki fundið ráð til þess að koma þar á móti. Það eru því æðimiklir straumar í þjóðfélaginu sem falla á móti byggðastefnunni og reyndar með þeirri þróun að fólk leiti hingað á suðvesturhornið. Mér sýnist að áherslur séu mjög í þá veru að af þessu verði enn frekari þróun og þá ekki síst vegna þess að hér eru áformaðar miklar framkvæmdir, svo mörgum tugum milljarða nema, og það gefur þá auga leið að þangað mun vinnuaflið sækja. Þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi ýmsa möguleika, kannski sérstaklega um þessar mundir, þá sé ég ekki að það verði auðveldur kostur að sporna hér á móti.

Ég sagði það að Byggðastofnun hefði ýmsa möguleika og það ber að leggja á það áherslu að í þeim efnum hafa orðið gífurlega miklar breytingar á síðustu árum. Eins og ég gat um áðan var það hlutverk Byggðastofnunar, eins og fleiri sjóða og banka, að berjast með atvinnurekstrinum í landinu í veikri stöðu hans fyrir því að hann gæti haldið velli á erfiðum tímum. Niðurstaðan fékkst eins og menn vita í lok síðasta áratugar með því að miklir fjármunir voru færðir inn í sjóði til þess að taka við taprekstri. Byggðastofnun var engin undantekning í þeim efnum en nú eru hins vegar að þessu leyti breyttir tímar. Þess eru t.d. nokkur dæmi að fyrirtæki sem menn höfðu misjafnlega mikla trú á hafa nú komist í góðan rekstur og eru farin að skila hagnaði. Þess hefur t.d. orðið vart núna í sambandi við auglýsingar Byggðastofnunar á sölu hlutafjár í fyrirtækjum að það er þó komin eftirspurn eftir slíkum bréfum. Það er auðvitað grundvöllur þess að hægt sé að vinna með eðlilegum hætti að þessum málum að atvinnulífið hafi bærilegan rekstrargrundvöll. Og að þessu leyti eru að sjálfsögðu afar miklar breytingar sem ég held að engum manni geti dulist og a.m.k. eru ljósar í huga þeirra sem starfa í Byggðastofnun. Það er grundvöllur þess að hægt sé að halda uppi blómlegri byggð að atvinnuvegirnir hafi grundvöll og geti gengið með bærilegum hætti.

Ég skal svo að lokum svara þeim fyrirspurnum sem til mín var beitt. Það er þá í fyrsta lagi í sambandi við það hvort það hafi ekki verið vilji stjórnarinnar að gerðar væru byggðaáætlanir. Það er auðvitað vilji hennar eins og starfsmanna stofnunarinnar. (Forseti hringir.) --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, get þá gert betur grein fyrir þessu síðar, virðulegi forseti. Fyrsta byggðaáætlunin á grundvelli þeirra laga sem nú gilda hefur verið gerð og um þá næstfyrstu verður fjallað á næsta stjórnarfundi og ég skal þá víkja nánar að þessu í síðari ræðu minni.