Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:43:05 (891)

1996-11-07 11:43:05# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. og stjórnarformaður Byggðastofnunar skauta ansi létt í gegnum gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Ekki veit ég hvort þetta þýðir að hann ætli að láta hana sem vind um eyru þjóta eða hvort þetta boðar að hann telji hana réttmæta og ætli að taka mark á henni og vona ég svo sannarlega að það síðarnefnda sé rétt. Hv. þm. var að byrja að svara þeim spurningum sem til hans var beint og hefur kannski ekki haft tækifæri til að svara þeim öllum. En mig fýsir að vita vilja hans til þess og hvort hann telji það rétt að leggja niður lánastarfsemi Byggðastofnunar. Af hverju styrkir hafa aldrei verið auglýstir að undanskildu síðasta ári þrátt fyrir að lög og reglugerðir kveði á um það. Og af hverju ekki hafi farið fram árangursmæling á þeim lánveitingum og styrkveitingum sem fram hafa farið á undanförnum árum frá Byggðastofnun sem er forsenda þess að meta hvort við erum á réttri leið. Eins fýsir mig að vita, hvort sem það verður núna í andsvari eða síðar, um samspil Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og Byggðastofnunar í lánveitingum sem eru til sömu aðila --- hvort Framleiðnisjóður og Byggðastofnun viti um lánafyrirgreiðslu hvors um sig.

En fyrst og fremst er það náttúrlega framtíðin sem skiptir máli. Það er lítið hægt að breyta fortíðinni nema þá að læra af henni. Og ég spyr sérstaklega hvort formaður stjórnar Byggðastofnunar telji ekki rétt að breyta starfsemi Byggðastofnunar í núverandi mynd og leggja niður lánastarfsemina og hvort ekki sé rétt líka að leggja af stjórn Byggðastofnunar með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan.