Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:47:14 (893)

1996-11-07 11:47:14# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé auðheyrt af orðum hv. síðasta ræðumanns að hann vill helst koma sér hjá því að ræða þessa skýrslu. Það er auðvitað ekkert eðlilegra heldur en stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar sé rædd undir þessum lið um Byggðastofnun. Hvað er eðlilegra? Ef þingmaðurinn telur það ekki passa, sem ég er ekki sammála, þá er náttúrlega spurning hvort hér eigi ekki að óska eftir því að fram fari þá ítarleg og löng utandagskrárumræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna þess að það er mjög margt sem við þurfum að ræða varðandi það sem fram kemur í skýrslunni, ekki síst varðandi vinnubrögðin og vinnubrögð stjórnar sem eru mjög ámælisverð. Eins og það að stjórnina hafi skort vilja til þess að gera áætlanir um þróun byggðar í atvinnulífinu, nánast sagt að hún hafi komið í veg fyrir það. Og forsenda fyrir lánveitingum hlýtur að eiga að byggjast á slíkum áætlunum. Að það hafi ekki farið fram árangursmæling af 17--18 milljarða fyrirgreiðslu. Þetta kemur allt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. --- Ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundsson hristir hausinn. Þetta undirstrikar enn það sem ég segi að það er full ástæða til þess að fá ítarlega og langa utandagskrárumræðu um stjórnsýsluendurskoðun (StG: Það er flest rangt sem ...) Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnun. Ég er nú bara að segja það sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að þingmaðurinn er þá að mótmæla því. Ég hvet þingmanninn til þess að lesa það sem fram kemur núna í bréfi Ríkisendurskoðunar til þingmanna í morgun, þar sem verið er að svara ásökunum Byggðastofnunar um það að Ríkisendurskoðun hafi gert mistök. Ég leyfi mér að efa það að þingmaðurinn hafi skoðað þau atriði og það er full ástæða til að fara fram á utandagskrárumræðu um þessa skýrslu.