Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:29:29 (909)

1996-11-07 12:29:29# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:29]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gísli Einarsson féll í sömu gryfju og Ríkisendurskoðun í samanburðarfræðinni og kannski ekki óeðlilegt miðað við hvernig skýrslan er sett upp. En ég trúi því annars um þennan ágæta þingmann að hann vilji hafa það sem sannara reynist í þessum málum. Málið er það að þegar fiskeldið fer af stað á Íslandi á sínum tíma þá eru það aðallega tveir sjóðir sem taka þessi mál að sér. Annars vegar er það Framkvæmdasjóður ríkisins og hins vegar Byggðastofnun. Framkvæmdasjóður ríkisins valdi fyrirtækin fyrst sem hann vildi hafa hjá sér, afgangurinn lenti hjá Byggðastofnun. Þegar menn eru að tala um afskriftir milli Norðurlands vestra, eins og hv. þm. gerði, annars vegar og Vesturlands hins vegar, verður að líta á að ef það fjármagn sem afskrifað var vegna þess eina fiskeldisfyrirtækis sem fjallað er um að Byggðastofnun hafi lánað í Norðurlandi vestra væri tekið frá þá er hlutfallið nákvæmlega sama á Norðurlandi vestra og á Vesturlandi og í Reykjanesi. En það er ekkert getið um það hvað tapaðist á fiskeldinu sem Framkvæmdasjóðurinn lánaði til sem voru í öðrum kjördæmum. Ég er ekki að segja þetta á neikvæðan hátt en þetta sýnir okkur að skýrslan og samanburðurinn sem menn eru hér að tala um er ekki réttlátlega sett upp. Að skaðlausu hefði Ríkisendurskoðun mátt taka þetta fram.