Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:35:33 (913)

1996-11-07 12:35:33# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:35]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram afskaplega upplýsandi og athyglisverð umræða um Byggðastofnun. Umræðan hefur farið um víðan völl svo sem við er að búast enda snertir Byggðastofnun atvinnulíf, einstök sveitarfélög, kjördæmi og þannig má áfram telja. Það hlýtur að vera mjög eðlilegt að velta upp í þessari umræðu hvert raunverulegt hlutverk Byggðastofnunar er, til hvers til hennar var stofnað á sínum tíma. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að hlutverk hennar hafi verið og eigi að vera að styrkja byggðir landsins eins og nafn hennar bendir til og draga úr spennu á milli höfuðborgar eða við skulum segja þéttbýlis og dreifbýlis. Þá er líka rökrétt að spyrja: Hvernig hefur tekist að ná þessum meginmarkmiðum? Séu tölur um byggðaþróun skoðaðar má ljóst vera að markmiðin í sjálfu sér hafa ekki náðst. Við sjáum hvernig þróunin er. Fólk streymir utan af landi einkum hingað á suðvesturhornið þar sem um það bil helmingur þjóðarinnar býr núna. Af þessu má auðvitað draga ýmsar ályktanir en rétt er að minna á að sú spenna sem ríkir á milli dreifbýlis og þéttbýlis er enn til staðar og er umhugsunarefni. Af þessu má draga ýmsar ályktanir. Sumir gætu ályktað sem svo að Byggðastofnun hafi mistekist hrapallega hlutverk sitt. Ég hygg að það sé ekki rétt ályktun því Byggðastofnun hefur eins og komið hefur fram í umræðum aðstoðað í mörgum byggðarlögum. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þenslan hefur verið og flutningurinn hingað á suðvesturhornið. Við þurfum nefnilega að velta því upp hvað það er sem ræður byggðaþróun. Engin ein stofnun mun geta stjórnað byggðaþróun. Það eru fleiri þættir sem koma til. Fyrst ber auðvitað að nefna byggðamál, atvinnumál. Atvinnumál eru undirstaða allra byggða. En það eru fleiri þættir sem koma til og má þar nefna náttúröflin og nægir í því sambandi að benda á þær hörmungar sem dunið hafa á Vestfirðingum á síðasta ári og rétt er hægt að ímynda sér hvaða sálræn áhrif það hefur á íbúa þess byggðarlags og reyndar fleiri byggðarlaga. Síðan er spurningin um þjónustustig og aðra þætti. Allt þetta hefur áhrif á byggðaþróun og ein stofnun er að sjálfsögðu ekki í stakk búin til að rísa gegn eða með því ein og sér.

Við þurfum nefnilega að velta fyrir okkur hvernig byggð þróast. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að í dag eiga mörg smærri sveitarfélög í verulegum erfiðleikum og íbúar þeirra byggðarlaga búa við afskaplega mikið óöryggi og lægra þjónustustig en gengur og gerist í stærri sveitarfélögum. Þróunin er eins og menn vita á þann hátt að atvinnulífið dregst saman af ýmsum ástæðum. Það þarf ekki annað en að togari sé seldur burt úr byggðarlagi eða frystihús fari á hausinn. Þar með er atvinnugrundvöllur brostinn. Fólkið tekur að streyma úr byggðarlaginu ef það getur. Tekjur sveitarfélagsins minnka og á ákveðnu stigi brestur á einn allsherjarflótti. En eftir stendur að þeir sem eftir sitja hafa minni tekjur vegna minnkandi íbúafjölda og hægt og hægt skapast misrétti þar sem íbúar minnstu sveitarfélaga eiga ekki aðgang að þeirri grundvallarþjónustu sem ég hygg að Alþingi sé almennt sammála um að veita öllum þegnum landsins. En það sem verra er er að margir íbúar þessara byggðarlaga komast ekki burt þó fegnir vildu. Þeir eru bundnir átthagafjötrum vegna þess að ævistarf þeirra er gjarnan bundið í húseign sem ekki selst. Þetta er mikill vandi og mörg slík sveitarfélög og íbúar þeirra búa við þetta óöryggi.

Þá er eðlilegt að spyrja: Hvert er hlutverk Byggðastofnunar í dag og hvert á að vera framtíðarhlutverk hennar? En áður en því er svarað hljótum við að gera þá kröfu til okkar sem alþingismanna að byggðastefna verði skýrð. Það hefur komið fram í umræðum hér í morgun að hún er í rauninni afskaplega óskýr og framkvæmdin og byggðaþróunin ber þess gleggst vitni. Menn tala gjarnan í fjórðungum. Menn tala gjarnan í sveitarfélögum. En við þurfum að marka skýrari byggðastefnu. Við erum komin að þeim tímamótum hygg ég. Við mótun þeirrar stefnu þurfum við að skoða tengsl við opinbera fjárfestingu, samgöngur, skóla, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Ég hygg að við stöndum einfaldlega frammi fyrir þeirri staðreynd í dag að við þurfum að taka ákvarðanir um það hvernig við viljum að land okkar byggist í framtíðinni. Viljum við að þróunin haldi áfram eins og hún hefur verið síðustu áratugi, þ.e. að hingað á suðvesturhornið flytjist nánast allir Íslendingar eða viljum við að landið verði byggt á fleiri stöðum? Um það snýst í rauninni spurningin að mínu mati.

Ef við erum sammála um, sem ég hygg að allir þingmenn séu og raunar allir landsmenn, að okkur beri nauðsyn af þjóðhagslegum ástæðum að byggja landið á fleiri stöðum en á suðvesturhorninu, vegna þess að þjóðhagslegir hagsmunir mæla með því. Vegna þess líka að þéttbýlið þarf á dreifbýlinu að halda þá þurfum við að taka ákvörðun um það hvar við ætlum að halda uppi byggð utan suðvesturhornsins og verja þá byggðakjarna með kjafti og klóm. En það felur jafnframt í sér að það kunni að þurfa að taka ákvörðun um að ákveðin sveitarfélög verði borin fyrir borð. Það er erfið og sár ákvörðun en ég hygg að hún sé óhjákvæmileg vegna þess óöryggis sem svo margir íbúar þessa lands búa við í dag í minnstu sveitarfélögunum.

Í annan stað, herra forseti, hefði ég viljað minnast á byggðamál sem atvinnumál í víðari skilningi. Byggðastofnun veitir styrki til að efla byggðir landsins í gegnum atvinnulífið. En á vegum hins opinbera eru ótal aðrar stofnanir og sjóðir sem eru í rauninni að fást við það sama og Byggðastofnun. Vel á annan tug opinberra sjóða eru að styrkja einstaklinga, sveitarfélög og fyrirtæki til að byggja upp atvinnulíf. Ég nefni Framleiðnisjóð, Þróunarsjóð sjávarútvegsins, Iðnþróunarsjóð, Iðnlánasjóð, ýmsa nýsköpunarsjóði, að ógleymdu ráðstöfunarfé einstakra ráðuneyta. Þetta er vitaskuld mjög óskynsamlegt og við þekkjum dæmi um dugmikla einstaklinga sem hafa hug á að koma upp fyrirtækjum og fá styrki frá fjórum til fimm ólíkum aðilum sem allir eiga það sammerkt að vera opinberir sjóðir. Þetta er óskilvirkt og lítil þjóð í stóru landi getur ekki leyft sér að fara svo óskynsamlega með fjárveitingar sínar.

Ég hygg að vandinn snúist líka um íhaldssemi okkar í skipan ráðuneyta. Það má segja að atvinnulífið og þjóðlífið hafi þróast hraðar en ráðuneytin. Ég tel það úrelt að vera með þrjú aðskilin atvinnumálaráðuneyti. Það felur í sér ákveðna stöðnun og gerir m.a. lítið ráð fyrir þróun nýrra atvinnugreina. Ég nefni tölvubúnað sem dæmi og ferðamál. Þarna tel ég að þurfi að verða uppstokkun þannig að heildarsýn hinna einstöku sjóða og atvinnuráðuneyta verði til staðar að ógleymdum svo öllum þeim fjölda rannsóknastofnana á vegum hins opinbera sem hafa illu heilli lítið samstarf. Þetta þarf að einfalda.

Ég nefni, herra forseti, í þriðja lagi tengsl Byggðastofnunar og hinna ýmsu sjóða við bankakerfið. Hvað þýðir það í raun þegar Byggðastofnun tekur ákvörðun um að lána einstaklingum eða fyrirtækjum? Það þýðir að þeim einstaklingum og fyrirtækjum eða sveitarfélögum er gert kleift að fara af stað með fyrirtækjarekstur og er gert í hinni bestu trú og hefur til allrar hamingju afskaplega vel til tekist í mörgum tilvikum. En þá er eftir sá vandi sem steðjar að flestum nýjum fyrirtækjum, þ.e. reksturinn.

[12:45]

Utan við þetta sem má kalla startkapítal standa síðan peningastofnanir, bankastofnanir og halda að sér höndum með sína annáluðu steinsteypustefnu, þar sem lítil áhætta er tekin og lítil þátttaka í að byggja upp atvinnulíf. Ég tel að þurfi, og sé eitt brýnasta mál byggðastefnu og atvinnustefnu landsins, að brúa þetta bil á milli peningastofnana, bankanna og Byggðastofnunar. Ég sé í rauninni fyrir mér Byggðastofnun í nýju hlutverki og vil leyfa mér að vitna aðeins til heimsóknar sem ég fór í til Bandaríkjanna ekki alls fyrir löngu. Þar er nefnilega rekin afskaplega merkileg stofnun, U.S. Small Business Administration, sem gegnir mjög svipuðu hlutverki og Byggðastofnun nema hún nær til landsins alls. Þar telja menn sig vilja láta þjóðarhagsmuni ráða en ekki binda sig við fylki. Ég tel að ástæða sé til að hugleiða ögn hvernig ákvarðanir í sjóðum hér eru gjarnan teknar, eins og fram hefur komið skýrt í umræðum í morgun. Menn taka ákvörðun um að veita tiltekinni upphæð í tiltekinn fjórðung og síðan, svo það sé kæruleysislega orðað, rembast menn við að koma þessari upphæð í lóg.

Í þeirri stofnun sem ég nefndi áðan vestan hafs, og reyndar eru svipaðar stofnanir starfandi í Þýskalandi, snúa menn þessu við og höfða til frumkvæðis einstaklinga og fyrirtækja. Þar geta einstaklingar og fyrirtæki komið með hugmyndir sínar, ekki endilega í nýsköpun, og borið undir þá bandarísku stofnun, sem ég nefndi áðan. Og það er hennar að meta hvort grundvöllur sé fyrir því í tengslum við ýmsar rannsóknastofnanir, í tengslum við rekstrarráðgjafa og þannig má áfram telja. En ég vek athygli á að það eru bankarnir sem lána út. Það er ekki þessi stofnun sem lánar heldur bankarnir með ábyrgð frá þessari stofnun. Það er sú mynd sem ég get séð Byggðastofnun í í framtíðinni. Að Byggðastofnun ábyrgist lán og deili þeirri ábyrgð með bankastofnunum. En vestan hafs er sú stofnun sem ég nefndi ábyrg fyrir 70% lána en bankarnir ábyrgjast 30%. Árangurinn er sá að mestur vöxtur í efnahagslífi vestan hafs er í gegnum smáfyrirtæki sem komið hafa upp með þessum hætti. Þar er mest verðmætasköpun, þar verða flest störf til. Afföll þeirra lána sem eru veitt með þeim hætti sem ég nefndi áðan og deilt er á milli bankastofnana og þeirra stofnana sem ég vil sjá Byggðastofnun í, eru 1%. Árangurinn er stórkostlegur.

Herra forseti. Byggðamál eru atvinnumál. Það eru stærstu pólitísku málin sem við eigum að fjalla um. Við þurfum að marka okkur skýrari byggðastefnu. Hún kann að leiða til sársauka en ég held að við stöndum frammi fyrir þeim veruleika. Við þurfum að einfalda sjóðakerfið þannig að hver króna nýtist okkur og auka skilvirkni. Við þurfum að tengja þetta sjóðakerfi við bankana um leið og við aftengjum steinsteypustefnu bankanna. Síðast en ekki síst þurfum við að stokka upp í ráðuneytum atvinnuvega okkar. Þetta tel ég vera stærstu pólitísku málin sem við þurfum að fást við. Þetta er hin eiginlega byggðastefna.