Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:50:03 (914)

1996-11-07 12:50:03# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:50]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. síðasta ræðumanni var tíðrætt um styrki og styrkjaúthlutanir. Ég vil að komi fram að það eru ekki nema sáralitlar upphæðir sem Byggðastofnun úthlutar af styrkjum. Inni í þeirri tölu, sem hér hefur verið fjallað um, eru ákvarðanir sem hafa verið teknar af Alþingi á grundvelli fjárlaga þar sem Byggðastofnun hefur verið falið að úthluta styrkjum samanber t.d. smábáta. Eins hefur Byggðastofnun úthlutað styrkjum á grundvelli viðauka II í búvörusamningi og meginstofninn í styrkhúthlutunum á síðasta ári var einmitt vegna þessara ákvarðana. Það er tiltölulega lítið fjármagn sem Byggðastofnun hefur, því miður, til úthlutunar í sambandi við styrki.

Mér finnst rétt af því að menn hafa verið að vitna í Ríkisendurskoðun og er það sjálfsagður hlutur, og skilgreiningar í þeim efnum, að lesa það sem fram kemur á bls. 49 um þessi efni:

,,Þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi ekki náð sem skyldi markmiðum laganna um hagkvæmari byggðaþróun eða aukna fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni má ætla að aðgerðir stofnunarinnar hafi beinst að enn öðru markmiði laganna þ.e.a.s. að hindra byggðaröskun.``

Það er ekki þar með sagt að ekki hafi verið farið eftir lögum Byggðastofnunar þó að ýmsir hlutir hafi ekki gengið eftir í þeim efnum.