Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:55:53 (927)

1996-11-07 13:55:53# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Það er alveg greinilega nauðsynlegt að rifja upp, ekki bara fyrir síðasta ræðumanni heldur einnig hæstv. menntmrh. og fleirum, hver hugsunin var á bak við það þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður og hann tók til við að byggja upp fræðslu á sviði sjávarútvegs, hjúkrunarfræða og síðan kennarabraut. Hugsunin er sú að sinna þörfum í uppbyggingu menntamála í landinu sem ekki var séð fyrir til þess að ekki væri verið að troða skóinn niður af öðrum og til þess að ekki þyrfti að koma til núnings við, m.a. minn gamla ágæta skóla, Háskóla Íslands. Það var einmitt ætlunin með því að marka Háskólanum á Akureyri sérstöðu og fáninn átti að vera fræðsla á sviði sjávarútvegs sem ekki var fyrir hendi í landinu, enginn hafði sinnt fram að því. Þetta mál snýst um það að sú stefna fái að halda, að ekki sé grafið undan henni og hún gerð að engu með ákvörðunum af þessu tagi. Og að yfirlýst og mörkuð stefna Alþingis fái að halda og standa. Auðvitað átti að nota þetta upplagða tækifæri til að efla þessa starfsemi enn og styrkja hana með því að byggja upp það sem til þurfti til viðbótar til að við gætum boðið það besta á Akureyri, að svo miklu leyti sem við gerum það ekki nú þegar.

Það er rangt og nauðsynlegt að hafna því að það liggi ekkert fyrir í þessu máli um það að okkur Íslendingum hafi ekki verið í sjálfsvald sett að byggja þetta nám upp þar sem við vildum. Það liggur ekkert fyrir um það. Ég mótmæli því að þetta mál hafi snúist um að hafa skólann hér í Reykjavík eða ekki í landinu. Það er rangt. Ég hef farið yfir alla þessa pappíra. Ég hitti sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna á Akureyri. Þeim leist mjög vel á það sem þeir sáu þar. En hvað gerðu þeir að lokum? Þeir féllust á tillögu nefndar Háskóla Íslands, nákvæmlega um það sem þar var lagt til, eðlilega. Þeir töldu sig ekki í stakk búna til að stinga upp á einhverju öðru. Þannig verður þessi niðurstaða til, af nefnd sem er fyrst og fremst skipuð af forsvarsmönnum stofnana hér sem eiga hagsmuna að gæta. Það hefur verið haldið illa á þessu máli og það er satt best að segja, með þínu leyfi, herra forseti, fjandi hart að á sama tíma og stórframkvæmdunum er raðað upp í keðju hér á suðvesturhorninu skuli ekki einu sinni vera hægt að fá pólitískan stuðning við það að standa við þegar mótaða stefnu um uppbyggingu annars staðar á landinu. Það er lélegt, hæstv. utanrrh., slappt og framsóknarlegt.