Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:58:25 (928)

1996-11-07 13:58:25# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:58]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegur forseti. Ég held að það sé nú full ástæða til þess að gera grein fyrir því um hvað deilan stendur í raun og veru. Það er mikill misskilningur hjá Kristínu Halldórsdóttur og hjá hæstv. menntmrh. að málið snúist um það hvort skólinn verði hér á landi eða ekki. Það er engin deila um það að þegar við Íslendingar löðum þetta verkefni hingað til okkar, notumst við við þá bestu þekkingu sem til er í landinu. Um það stendur deilan ekki. Spursmálið er hins vegar hver hlutur Háskólans á Akureyri í framtíðinni verður í þessum efnum. Og það er þar sem hefði þurft að taka ákvörðunina. Um framtíðarstefnu og uppbyggingu fyrir norðan, í fullu samkomulagi og fullu samræmi við það sem hefur verið gert hingað til þar í háskólanum. Þessum háskóla var ætlað sérstakt hlutverk í sambandi við sjávarútveg og auðvitað skiptir miklu máli að hann geti byggt það nám upp til framtíðar. Það sem ég óttast er að með þessu fyrirkomulagi rísi upp sjávarútvegsháskóli í Reykjavík og möguleikar til að útvíkka hans starfsemi sem muni verða til þess að taka fyrir þróun háskólastarfseminnar fyrir norðan. Þess vegna hefði stefnumörkun til framtíðar þurft að fylgja þessari samþykkt. Og það hefði ekki á nokkurn hátt þurft að skaða þessa starfsemi sem við erum að laða hingað til landsins núna, ekki á nokkurn hátt.

Ég vil segja það sérstaklega varðandi þær umræður sem hér urðu um hrepparíg að það vill nú svo til að allir taka þátt í þessum hrepparíg. Höfuðborgin tekur þátt í því líka. Háskóli Íslands tók mjög beinan þátt í umræðunni um stofnun Háskólans á Akureyri á sínum tíma og Háskóli Íslands leit svo á að það væri sér sæmandi að hlaupa til strax og búið var að stofna sjávarútvegsdeild við Háskólann á Akureyri, að stofna þá hér rannsóknastofnun í sjávarútvegi sem studdist ekki við neina akademíska kennslu. En það hvarflaði ekki að Háskóla Íslands, því miður, að taka upp samvinnu við Háskólann á Akureyri um þetta verkefni eins og aðrar rannsóknastofnanir höfðu gert. Og er það mjög miður að þessi æðsta kennslustofnun landsins skyldi ekki sjá ástæðu til að styðja við þróun Háskólans á Akureyri þegar gott tækifæri gafst til þess.