Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:00:44 (929)

1996-11-07 14:00:44# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vænti þess þrátt fyrir gífuryrði þingmanna, sérstaklega hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að mönnum gangi það eitt til að vilja efla starfsemi Háskólans á Akureyri. Ég a.m.k. kannast ekki við að ég hafi nokkurn tímann staðið í vegi fyrir þróun hans. Ég vil minna á að meðan ég gegndi starfi sem sjútvrh. var tekin ákvörðun um að efla mjög samstarf bæði við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Háskólinn á Akureyri og framtíð hans er mjög undir því komin að þessi samvinna geti verið sem mest og þess vegna tel ég í framhaldi af því vera mjög mikilvægt að efla starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Akureyri og það verði til þess að efla Háskólann á Akureyri.

Ég held líka að sé mikilvægt að auka samstarf milli Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri og Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Ég held að tækifærið, sem þarna gefst með stofnun þessa skóla hér á landi, sé einmitt til að efla þessar stofnanir. Það er hins vegar ekki svo, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að okkur sé algerlega í sjálfsvald sett hvernig við högum okkur í þessu máli og hvernig við göngum fram. Við erum háð samstarfi við háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tokíó og við fengum þann mann sem best þekkir til í þessum efnum, Ingvar Birgi Friðleifsson, sem hefur stjórnað starfsemi Jarðhitaskólans í gegnum tíðina til að hafa forustu fyrir þessu máli. Ég er alveg viss um að honum gengur ekkert nema gott til og hefur unnið faglega að málinu og haft um það ágæta forustu. Nú held ég að menn eigi að taka höndum saman, koma þessum skóla upp og auka starfsemi þessara stofnana því ég er viss um að þessi ákvörðun verður til að efla Háskólann á Akureyri en ekki öfugt eins og virðist vera að menn séu að halda fram.