Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:16:03 (935)

1996-11-07 14:16:03# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:16]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Starfsemi Byggðastofnunar hefur verið mikið í sviðsljósinu í haust eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar leit dagsins ljós í september. Umfjöllun um stofnunina hefur verið nokkuð einlit að mínu áliti og mest hamrað á neikvæðum punktum í skýrslu Ríkisendurskoðunar en nánast ekkert fjallað um það fjölbreytta og ágæta starf sem í Byggðastofnun er unnið og er tvímælalaust mjög þýðingarmikið fyrir landsbyggðina.

Þegar Ríkisendurskoðun gerir stjórnsýsluúttekt á Byggðastofnun hlýtur hún náttúrlega að benda á það sem úrskeiðis hefur farið liðinn áratug og hvernig má standa betur að málum. Í skýrslunni eru margar ágætar ábendingar þar að lútandi en það sem mér finnst helst vanta í skýrsluna er að segja frá því að mikil breyting hefur orðið á starfsemi Byggðastofnunar eftir setningu reglugerðar um stofnunina árið 1992.

Auðvitað geta menn haft misjafnar skoðanir á því hvað á að standa í skýrslu sem þessari. Mér finnst hún á margan hátt mjög gagnleg og gefa góðar ábendingar sem stjórn Byggðastofnunar mun að sjálfsögðu taka til greina. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst kaflinn um mat á fórnarkostnaði við byggðastefnu Byggðastofnunar árin 1985--1995 út í hött og ekki sæmandi Ríkisendurskoðun ef hún vill láta taka mark á sér.

Að reikna saman eigið fé í upphafi tímabils, bæta við það framlögum ríkisins á tímabilinu og klykkja svo út með því að uppreikna summuna með ávöxtun spariskírteina ríkissjóðs og segja að niðurstaðan sé fórnarkostnaður við byggðastefnuna á þessum tíu árum, eru náttúrlega svo undarleg vinnubrögð að ekki tekur tali. Þessi fáránlega niðurstaða um fórnarkostnað var síðan að sjálfsögðu það sem upp úr stóð í umfjöllun um stofnunina eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út og hefur valdið Byggðastofnun álitshnekki og byggðastefnunni tjóni. Þessir útreikningar Ríkisendurskoðunar á fórnarkostnaði eru ekki síst undarlegir vegna þess að hún hefur ekki birt tölur um fórnarkostnað við aðra málaflokka í þeim skýrslum sem hún hefur gert um starfsemi annarra stofnana, t.d. Húsnæðisstofnunar, en skýrsla um stjórnsýsluúttekt á þeirri stofnun var birt í síðasta mánuði. Þar er ekki minnst einu orði á fórnarkostnað við húsnæðisstefnuna og það hlýtur því að vera mikið íhugunarefni hvað vakir fyrir Ríkisendurskoðun með þessum vinnubrögðum.

Mér finnst útskýringar starfsmanna Ríkisendurskoðunar varðandi fórnarkostnaðinn í bréfi sem alþingismönnum barst í morgun ekki fullnægjandi, síður en svo.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að kannað hafi verið viðhorf umsækjenda um fjárhagslega fyrirgreiðslu til þjónustu Byggðastofnunar og þar hafi komið fram almenn ánægja með þessa þjónustu. Þetta er auðvitað mjög jákvætt fyrir stofnunina og má gjarnan koma fram í umræðum um Byggðastofnun, en starfsmenn Byggðastofnunar eru flestir með mjög mikla reynslu og þekkingu á málefnum landsbyggðarinnar.

Mestur hluti umfjöllunar um Byggðastofnun að undanförnu hefur verið um fjármálasýslu stofnunarinnar, lánveitingar, styrki, hlutafjárkaup og fjárfestingar. Vissulega hefur Byggðastofnun eins og aðrar lánastofnanir orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna erfiðleika atvinnulífsins á undanförnum árum og þá fyrst og fremst vegna fiskeldisins þar sem stofnunin hefur tapað stórum fjárhæðum. Og vissulega má í sumum tilfellum gagnrýna það að of lengi hafi verið haldið áfram að lána í vonlausan rekstur og auðvitað má gagnrýna einstakar styrkveitingar þó að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra hafi tvímælalaust gert það gagn sem til er ætlast. Byggðastofnun hefur þann ágæta sið að birta í ársskýrslu sinni skrá yfir öll lán og alla styrki ársins og mættu ýmsir taka sér það vinnulag til fyrirmyndar.

Mér finnst oft gleymast í umræðum um Byggðastofnun að lánveitingar og úthlutun styrkja er aðeins hluti af starfsemi stofnunarinnar. Þar fer fram margþætt starfsemi, t.d. umfangsmikil gerð byggðaáætlana og aðstoð við aðila sem eru að athuga möguleika á nýrri atvinnustarfsemi. Ég gæti nefnt tvö dæmi um slíka aðstoð sem starfsmenn Byggðastofnunar hafa lagt mikla vinnu í nú um nokkurt skeið. Það fyrra er undirbúningur og rannsóknir vegna magnesíumverksmiðju á Reykjanesi, verksmiðju sem gæti skapað þar hundruð starfa. Hitt dæmið er undirbúningur og rannsóknir vegna leirverksmiðju í Búðardal. En verði sú verksmiðja að veruleika mun hún skapa nokkuð mörg störf í þessu litla byggðarlagi þar sem atvinnulíf er einhæft og fólki stöðugt að fækka. Fjárveitingar Byggðastofnunar til atvinnuráðgjafar og ferðamálafulltrúa á landsbyggðinni hafa tvímælalaust skilað góðum árangri. Vaxtarbroddur atvinnulífsins úti á landi er ekki hvað síst í ferðamálunum og mikilvægt að standa þar vel að málum.

Nú hefur Byggðastofnun tekið upp þá stefnu að gera samninga við atvinnuþróunarfélög og samtök sveitarfélaga í einstökum kjördæmum þannig að þessir aðilar fá ákveðna upphæð árlega til annast ráðgjöf á sviði almennrar atvinnuþróunar, ferða-, markaðs- og sölumála í sínu kjördæmi og ráða til þess ráðgjafa. Þarna er um ákveðna stefnubreytingu að ræða af hálfu stjórnar Byggðastofnunar, en með þessu er forræði í þróunarmálum fært heim í hérað í hendur fólksins sem þar hefur forustu í atvinnu- og félagsmálum.

Auðvitað greinir menn á um einstaka þætti starfsemi Byggðastofnunar. Ég hef t.d. ekki verið sáttur við úthlutun þorskaflahámarks, en í skýrslu Byggðastofnunar er greint frá úthlutun stofnunarinnar á veiðiheimildum til kvótabáta. Á síðasta ári var samþykkt á Alþingi að á næstu fjórum árum skuli Byggðastofnun árlega hafa til ráðstöfunar þorskaflahámark er nemur 500 lestum miðað við óslægðan fisk og Byggðastofnun skal árlega ráðstafa þessum aflaheimildum til krókabáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem algerlega eru háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti, eins og segir í lagatextanum.

Þegar starfsmenn Byggðastofnunar fóru að huga að þessu máli, kom í ljós að ekkert byggðarlag uppfyllti þessi skilyrði. Þá var unnið út frá þeirri viðmiðun að þeir staðir einir kæmu til greina þar sem hlutur þessara báta var yfir 50%. Ég er ósammála þessari túlkun og treysti mér því ekki til að standa að þessari úthlutun í stjórn Byggðastofnunar og lagði reyndar til að Byggðastofnun skilaði þessu verkefni af sér, en sú tillaga var ekki samþykkt.

Einn þáttur í rekstri Byggðastofnunar eða starfseminni er rekstur svæðaskrifstofanna en þær eru staðsettar í fjórum kjördæmum landsins, á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi. Ég hef lengi haldið því fram að þeir landshlutar þar sem ekki eru svæðaskrifstofur hafi orðið nokkuð út undan hvað varðar fjárveitingar. Mér finnst skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfesta þetta sjónarmið. Þetta á jafnt við um styrki og lánveitingar. Það er minna sótt um slíkt af þeim landshlutum þar sem ekki er svæðisskrifstofa og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Það segir sig sjálft að starfsmenn svæðisskrifstofanna eru í beinu sambandi við fólk og fyrirtæki á sínu svæði og leiðbeina því að sjálfsögðu hvað varðar möguleika á aðstoð Byggðastofnunar. Því hef ég haldið því fram að annaðhvort beri Byggðastofnun að reka svæðisskrifstofur í öllum landshlutum eða engum. Hv. þm. Stefán Guðmundsson útskýrði í andsvari í morgun hvers vegna lánveitingar væru misjafnar milli landshluta, en ég vek athygli á því að þessi munur er ekki síður hvað varðar styrkveitingar.

Hv. þm. Gísli Einarsson velti því fyrir sér í ræðu sinni hvort skýringin á því hvað Vesturland hefur orðið út undan hjá Byggðastofnun væri sú að stjórnarmenn hefðu ekki komið úr þeim landshluta. Mín skoðun er sú að það sé ekki ástæðan heldur fyrst og fremst vegna þess að Byggðatofnun hefur ekki rekið svæðisskrifstofu á Vesturlandi. En það er ánægjulegt að vanskil lántakenda hjá Byggðastofnun minnkuðu um hálfan milljarð kr. á síðasta ári. Það ber auðvitað vott um að ástand atvinnulífsins hefur batnað verulega og betri skil lántakenda bæta auðvitað stöðu Byggðastofnunar og það er mikið fagnaðarefni.

Í ársskýrslu Byggðastofnunar er bent á búsetuþróun síðustu 15 ára sem hefur verið landsbyggðinni afar óhagstæð. Þegar segir, með leyfi forseta:

,,Með fáum undantekningum hefur hallað mjög á landsbyggðina. Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram. Á undanförnum 15 árum er tæpur helmingur íbúafjölgunarinnar þar vegna aðflutnings af landsbyggðinni. Einn af hverjum 10 íbúum svæðisins er aðfluttur á þessu tímabili. Þessi þróun er ekki æskileg til langframa. Byggðastofnun er ætlað að styrkja stöðu landsbyggðarinnar með því að efla þar skynsamlega atvinnustarfsemi. Þó misjafnlega hafi tekist til í áranna rás má fullyrða að verr væri komið fyrir ýmsum stöðum ef Byggðastofnunar hefði ekki notið við.``

Þessi búsetuþróun á sér ýmsar skýringar. Það skiptir auðvitað miklu máli að nánast öll stjórnsýsla landsins eða ríkisins og opinber þjónusta er á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru þúsundir starfa og fer vaxandi eins og hér er bent á. Það er nú svo að allir flokkar og allar ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa haft það á stefnuskrám sínum að flytja eitthvað af þessum opinberu stofnunum út á land, en því miður hafa allir heykst á þessu þangað til loksins á þessu ári að hæstv. umhvrh. ákvað að vinna nú samkvæmt þessari stefnu og tilkynnti að Landmælingar skyldu fluttar til Akraness. Og hvað skeði þá? Það ætlaði allt vitlaust að verða og þingmenn, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn hafa síðan hamast á hæstv. ráðherra og reynt með öllum tiltækum ráðum að hnekkja þessari ákvörðun hans. Ég tel aðför ýmissa stjórnmálamanna að hæstv. ráðherra afar ómerkilega í ljósi þessarar margyfirlýstu stefnu stjórnmálaflokkanna og margra síðustu ríkisstjórna. Því miður virðast allt of margir trúa því að það sé náttúrulögmál að öll slík starfsemi sé hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að þessi hugsunarháttur eigi verulegan þátt í þróun búsetu og stöðugum straumi landsbyggðarmanna til höfuðborgarsvæðisins.

Herra forseti. Það er mín skoðun að heilt á litið sé starfsemi Byggðastofnunar mjög þýðingarmikil fyrir landsbyggðina. Þrátt fyrir að búsetuþróun í landinu þann áratug sem Byggðastofnun hefur starfað hafi verið landsbyggðinni í óhag, er ég sannfærður um að þessi þróun hefði verið enn óhagstæðari ef Byggðastofnunar hefði ekki notið við. Ég er gjörsamlega ósammála þeim sem vilja leggja Byggðastofnun af og vil þvert á móti efla stofnunina til aukinna átaka fyrir landsbyggðina.