Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 14:48:46 (940)

1996-11-07 14:48:46# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér tökum við til við að ræða árlegan kunningja sem er að verða, svonefndan bandorm um ráðstafanir í efnahagsmálum eða ríkisfjármálum. Aðalgallinn við þessi mál er sá að þau eru ávísun á ófagleg vinnubrögð sem eru ekki til eftirbreytni og ég held að flestir séu sammála um að svona viljum við helst ekki hafa hlutina. Að það sé með löngum frumvarpsgormi farið inn í fjölmörg sérlög, faglega löggjöf, og kippt þar úr sambandi einstökum þáttum án nokkurs tillits til heildarsamhengis, án nokkurs tillits til stefnumótunar í viðkomandi málaflokki o.s.frv. En því miður er það nú svo að enn sitja menn fastir í þessu og hefur jafnvel heldur brugðið til hins verra á síðari árum og þá á ég m.a. við það að hér er nú í enn ríkari mæli en nokkru sinni fyrr farið út á þá braut að gera varanlegar breytingar á sérlögum í bandorminum. Allir fyrstu bandormarnir, sem a.m.k. ég kannast við, voru þess eðlis að um var að ræða tímabundið inngrip í ákvæði sérlaga, sem giltu eingöngu það ár sem í hönd fór vegna þess sem menn hafa þá væntanlega talið vera einhverjar tímabundnar aðstæður í fjármálum ríkisins. Og frá þingræðislegum og lagalegum sjónarhóli er það þó af tvennu illu skömminni skárra að eingöngu sé um tímabundna ráðstöfun að ræða, eða frestunarákvæði eins og stundum var, til að mynda þegar hér var árlega á síðasta kjörtímabili, og er jafnvel enn, frestað í eitt ár í senn ákvæðum grunnskólalaga um einsetningu skóla, um mat í hádeginu og annað því um líkt. Þá gátu menn sagt sem svo að því miður væri efnahagurinn svo bágur og aðstæður svo erfiðar að þrátt fyrir hin háleitu markmið um að bæta skólastarfið yrði að fresta því eitt ár og svo aftur í ár o.s.frv. En nú hafa menn ekki lengur fyrir þessu heldur eru í bandormi lagðar til varanlegar breytingar og það grundvallarkerfisbreytingar á nokkrum sviðum, til að mynda í heilbrigðismálum, og ég kem að því síðar. Og það, herra forseti, finnst mér vera óeðlilegt. Mér finnst það vera vond uppsetning mála og ekki í samræmi við þann metnað og þau faglegu vinnubrögð sem við ættum að temja okkur.

Ég ætla að nefna hér nokkra þætti, að sjálfsögðu leyfir tíminn ekki að fara tæmandi yfir allar greinar frumvarpsins og alla þá fjölmörgu málaflokka sem hér eiga við --- og það eitt með öðru eru rök gegn því að vinna svona að hlutunum. Menn eru að hluta til sviptir málfrelsi með því að sulla hér 20 frumvörpum saman í eitt og ræðutíminn er sá sami þó verið sé að koma inn á viðamikil grundvallarmál í heilbrigðismálum, menntamálum þess vegna, landbúnaðarmálum eða guð má vita hvað.

1. gr. er um að fénýta nú í ríkissjóð svonefndan sérstakan eignarskatt sem lagður hefur verið á um alllangt skeið og upphaflega var, ef ég kann rétt, tekjustofn fyrir byggingu Þjóðarbókhlöðu. Síðan kom að því að það voru ýmsar fleiri byggingar frekar á fóðrum, t.d. endurbyggingarnar á Bessastöðum, sem hafa kostað sitt eins og þjóðin veit, ekki síst hönnunarkostnaður og stjórnunarkostnaður og ýmis umsýsla, en förum ekki nánar út það. (Gripið fram í.) Ja, hvernig sem það nú er. En alla vega kostaði það eitthvað, hæstv. forsrh., hver sem borgaði það. En sleppum því. Mergurinn málsins er sá að þarna var lagður á sérstakur --- sérstakur hvað? --- sérstakur eignarskattur, álag á eignarskattinn. Ég verð að segja alveg eins og er að einhvern tíma minnir mig að Sjálfstfl. hafi eitthvað verið að kalla slíkt ekknaskatt og það væri nú ekki góð latína að vera að níðast á eignafólkinu sem væri yfirleitt aldraðar ekkjur. En nú bregður svo við að þessi sérstaki eignarskattur, sem var þó réttlættur með því að hann væri til þess að efna fyrirheitin um þjóðargjöfina, Þjóðarbókhlöðuna, er núna tekinn að verulegu leyti og honum bara slengt í ríkissjóð. Hvar eru nú talsmenn ekknanna? Ég spyr. Mér finnst þetta nokkuð sérkennilegt, herra forseti, að þarna verður ríkisstjórninni þetta fyrir og það er hæstv. forsrh. af öllum mönnum sem neyðist til að mæla fyrir því hér að 150 milljónir af tekjum þessa sérstaka eignarskatts eða tekjustofns Þjóðarbókhlöðunnar og endurbyggingar menningarverðmæta eiga nú að renna í ríkissjóð. Og það sem meira er: Það á líka að gera upptækar 100 milljónir úr sjóðnum frá þessu ári þannig að þarna er á einu bretti verið að ráðstafa 250 milljónum í ríkissjóð af þessu sérstaka álagi á eignarskattinn. Það er mjög athyglisvert og í sögulegu og pólitísku samhengi næstum því skemmtilegt, herra forseti, að það skuli vera hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem mælir fyrir þessum sérstaka ekknaskatti Sjálfstfl.

Þá kemur næst að 2. gr., herra forseti, sem er satt best að segja harla dapurleg. Hvað á að gera þar? Jú, það á að breyta nýsettum lögum, lögum nr. 80/1996, þau lög eru varla orðin köld, þau eru svo glæný. Og hvað á að gera þar? Jú, það á að leggja 1.500 kr. skatt á þá sem falla á prófum eða þá sem þurfa af einhverjum ástæðum að endurinnrita sig í námsáfanga í framhaldsskólunum. Þetta er svona námserfiðleikaskattur. Þetta er sérstakur skattur á þá sem eiga í erfiðleikum í sínu námi og þurfa að endurtaka próf eða endurinnritast í námsáfanga. Og hvað skyldi nú ríkissjóður landsmanna og fjárlögin, upp á sína rúmlega 120 milljarða eða nær 130, eiga að fitna mikið af þessum sérstaka skatti á námserfiðleika? Það eru liðlega 30 millj. kr. Er þetta okkur samboðið? Hvað er verið að skattleggja? Það er verið að skattleggja aðstæður eins og þær sem koma upp þegar námsmenn eiga í félagslegum erfiðleikum og það dregur úr námshraða þeirra. Það er verið að skattleggja veikindi. Þegar menn ráða ekki við það að fylgja skólafélögum sínum á fullum hraða í gegnum námið t.d. vegna veikinda. Það er verið að skattleggja, eftir atvikum, þá sem erfiðast eiga með að uppfylla kröfur um fulla námsframvindu en vilja þó reyna að ljúka framhaldsnámi og verða kannski að kyngja því að fara eitthvað hægar en hin uppsetta námskrá skólanna gefur tilefni til. Og eins og við vitum þá eru það orðin milli 80 og 90%, ef ekki nær 90%, af öllum árgöngum sem eru í framhaldsskólum eða a.m.k. hefja nám þar. Það þýðir að sjálfsögðu að sá hópur hefur stækkað á undanförnum 10--15 árum sem ræður verr við kröfurnar. Það liggur í hlutarins eðli. Það er akkúrat þennan hóp sem er verið að skattleggja. Þetta er alveg reginheyksli, herra forseti, reginhneyksli, að fara að búa hér út sérstakan námserfiðleikaskatt. Hvar er nú hæstv. menntmrh.? Ég held það væri ástæða til að sá ágæti maður kæmi hér og yrði okkur til skemmtunar og ræddi, eins og honum einum er lagið, aðeins um þennan námserfiðleikaskatt.

Hér koma næst greinar þar sem verið er að binda þátttöku ríkisins á ýmsum sviðum varðandi framlög til landbúnaðar, til búfjárræktar, jarðræktarlaga og þvílíkra hluta við fasta krónutölu í fjárlögum í staðinn fyrir að ríkið hefur að sínu leytinu tekið þátt í þessu með ákveðinni hlutdeild í kostnaðinum. Það er væntanlega alveg sérstaklega að ósk hv. þm. Egils Jónssonar, sem þetta er haft svona. Vegna þess að hann er alveg viss um að þetta muni reynast vel þegar frá líður, að það muni reynast gott fyrir landbúnaðinn og jarðræktina og búfjárræktina í landinu að þurfa að herja á fjárveitingarnar í fjárlögum hverju sinni í staðinn fyrir að þarna var um tiltekna kostnaðarskiptingu milli greinarinnar og ríkissjóðs að ræða sem var föst og þurfti ekki að rífast um á hverju einasta ári. Ríkið tók tiltekinn þátt, hlutfallslega í þessum útgjöldum. Og hef ég ekki fleiri orð um það.

Næst kemur í 9. gr., herra forseti, að algjöru nýmæli en þar er verið að fara í fyrsta sinn inn á tekjustofn Framkvæmdasjóðs fatlaðra, þ.e. ráðstöfun erfðafjárskatts með þeim hætti að tekjur umfram 165 millj. kr. á árinu 1997 skuli renna í ríkissjóð. Auðvitað gefum við ekkert fyrir það þó þetta eigi kannski ekki að raska í stórum stíl högum Framkvæmdasjóðs fatlaðra á þessu ári. Það sem málið snýst um er kerfisbreytingin. Það er grundvallarákvörðunin um að fara líka inn á þennan tekjustofn og taka hann að hluta til í ríkissjóð. Það er a.m.k. verið að gera þetta í ríkari mæli en áður hefur verið gert. Að vísu hefur fátt verið mönnum heilagt síðustu árin í þessum efnum. En það sem er að gerast smátt og smátt er að þetta er allt saman að verða að hluta til skattstofnar sem voru lagðir á upphaflega og ætlaðir til annarra hluta og eru í eðli sínu þannig að þeir eru mjög vondir skattstofnar. Sumt af þessu eru jafnvel nefskattar eða annað slíkt sem lýtur ekkert þeim eðlilegu sjónarmiðum sem gera á til tekjustofna ríkisins, en kannski hægt að réttlæta það að leggja þetta á í sérstökum afmörkuðum tilgangi. Þetta er hið versta mál, herra forseti.

Næst kem ég að atvinnuleysistryggingunum. Um þær er fjallað í nokkrum liðum, þ.e. 11., 12. og 13. gr. lúta allar með einum eða öðrum hætti að því að það er verið að velta yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð kostnaði sem áður hefur verið borinn af ríkissjóði. Hann á nú að fara að standa undir kostnaði vegna starfsfræðslu í atvinnulífinu og guð má vita hvað. Og hvers vegna ætti það nú að vera? Af hverju getur ekki ríkið greitt þennan kostnað eins og hann hefur verið? Eru ekki nóg verkefnin fyrir höndum hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, því miður? Ég hélt það. Mér finnst það líka heldur snautlegt ofan í allar umræðurnar um að efla starfsfræðslu, endurmenntun og símenntun og hvað það nú er að svo er ríkið að reyna að komast undan því að bera tiltölulega vægan kostnað sem hér hefur verið á ferðinni, smáaura í raun og veru. Það er ekki mikil reisn yfir því.

[15:00]

Þá næst að greinum 15--20, herra forseti, sem eru hvað sem útgjöldum líður og tölum í þessu máli það langljótasta í frv. vegna þess að þarna er gengið langlengst í því, að mínu mati, að teygja á vinnubrögðum og löggjafarrammanum, ef svo má að orði komast. Fyrir utan það að ég tel 19. gr. vera algerlega fráleita frá stjórnskipulegum sjónarhóli séð. Að setja inn í lög að þrátt fyrir öll ákvæði sérlaga um heilbrigðismál, af hvaða tagi sem er, skuli hæstv. heilbrrh. hafa algert alræðisvald í þessum efnum og mega sameina og sundra sjúkrahúsum og stofnunum, leggja þær niður, reka þær, sameina stjórnir þeirra, hvað sem er, mála þær allar svartar. Enginn endir er á því sem heilbrrh. gæti gert ef þetta verður afgreitt svona. Til hvers þá að vera með löggjöf yfirleitt? Af hverju segjum við ekki á einum stað í lagasafninu: Spörum allan pappírinn og allar blaðsíðurnar. Heilbrrh. ræður heilbrigðismálum. Punktur. Það er alveg eins hægt að gera það. En það er sem sagt, herra forseti, lagt til að inn í lögin komi ákvæði um að ráðherra geti ákveðið sameiningu sjúkrastofnana með reglugerð eins og hæstv. ráðherra sýnist. Að vísu á að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Og hvers vegna endilega það, með fullri virðingu fyrir því batteríi? Heilbrigðismál eru verkefni ríkisins. Ég held að nær væri að hafa samráð við heilbrn. Alþingis ef menn eru að þessu á annað borð. Og starfsfólkið og aðra slíka, landlækni eða þá sem málið varðar, heilbrigðisstéttirnar í landinu. Nei, það er ekki. Það á að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og ég segi: Hvers vegna endilega þeir?

Mergurinn málsins er sá að svona valdaafsal gengur ekki. Það gengur ekki að hafa þetta svona. Til hvers í ósköpunum er fjárln. að mæðast í því að fara yfir fjárlagabeiðnir og velta fyrir sér útgjöldum í þennan eða hinn geirann í heilbrigðismálum ef það skiptir svo engu máli? Hæstv. heilbrrh. ræður og gerir það sem honum sýnist.

Það er ekki bara að hægt eigi að vera að sameina þetta að vild innan ársins með reglugerð heldur er sagt: Jafnframt er kveðið skýrt á um að ráðherra geti með reglugerð ákveðið --- hvað? Flokkun, starfssvið og verkaskiptingu sjúkrahúsa. Hvað þýðir þetta? Ráðherra getur einhliða lagt niður hvaða starfsemi sem honum sýnist í hvaða sjúkrahúsi sem er. Hann getur ákveðið að leggja t.d. niður skurðdeildir, fæðingardeildir og alla deildaskipta þjónustu á öllum sjúkrahúsum á landsbyggðinni og ákveða að þau skuli öll verða elliheimili frá og með því, langlegudeildir fyrir aldraða. Til dæmis Sjúkrahúsið á Húsavík, hæstv. samgrh. (Samgrh.: Það er gott sjúkrahús.) Já, það er gott sjúkrahús og við viljum hafa það þannig áfram, er það ekki? En við kærum okkur ekki um að sett sé inn í lagasafnið að ráðherra geti gert bókstaflega það sem honum sýnist.

Hvað liggur hér á bak við, herra forseti? Meðal annars það að spara á 160 millj. án þess að það sé útskýrt nokkurn skapaðan hlut. Sá orðrómur fer auðvitað eins og eldur í sinu um allt land að þessar 160 millj. eigi fyrst og fremst að koma af sjúkrahúsunum á landsbyggðinni á grundvelli þessarar heimildar. Vegna þess að menn leggja ekki í þá pólitísku erfiðleika að standa eins og menn við sínar ákvarðanir og ræða þær á Alþingi, þá eigi að gera þetta með reglugerðum þegar búið er að loka fjárlögunum. Þá megi menn nöldra á Húsavík, Blönduósi, Sauðárkróki, Patreksfirði og annars staðar þar. En það er, eins og kunnugt er, búið að heilaþvo menn af því að útgjaldavandinn í heilbrigðisgeiranum snúist fyrst og fremst um að þjónusta er veitt úti á landi. Maður eftir mann talar sig hásan um það að vandamálin séu þau að veitt sé t.d. sjúkrahússþjónusta á Austurlandi. Það voru gerðar miklar skýrslur, gular, bláar, gráar, og guð má vita hvað, um hversu nauðsynlegt sé að leggja niður eitthvað af þessari starfsemi úti á landi.

Einu sinni var gerð skýrsla um Reykjavík og hvað kom út úr henni? Lang, langstærsta talan sem hægt er að spara í íslenska heilbrigðiskerfinu, hvar er hún? Hún er í Reykjavík. Með því að sameina sjúkrahúsin hér og hætta að láta þau keppa innbyrðis og kaupa tvö sett af öllum dýrustu lækningatækjum landsins. En aldrei má nefna það. Nei, vandinn liggur á landsbyggðinni. Það er búið að ákveða það. Vandinn liggur t.d. í því að sjúkrahús skuli vera á Ísafirði og Neskaupstað, jafngáfulegt og það væri að leggja niður þá þjónustu þó ekki væri af neinum öðrum ástæðum en vegna almannavarna og öryggissjónarmiða þar.

Ég mótmæli þessari grein, herra forseti. Það er alger ósvinna að gera grundvallarbreytingar á löggjöf og stjórnskipan heilbrigðismálanna með þessum aðferðum. Að læða því inn í eina ræfilslega grein í bandormi og ætla að sleppa þannig frá málunum án þess að segja orð um hvaða beinar breytingar eru í farvatninu hvernig á að spara þessar 160 millj. og hvaðan þær verða teknar. Þetta gengur ekki, hæstv. heilbrrh. Ég spái að þetta fari út úr frv. núna eins og það gerði í fyrra og farið hefur fé betra.

Herra forseti. Meginsparnaðurinn á hins vegar að koma frá sama stað og venjulega --- með niðurskurði á vegafé. Af þessum 1.400 eða 1.600 millj., sem eru í bandorminum, kemur meira en helmingurinn frá Vegagerðinni einni. Það á að taka hátt á níunda hundrað millj. kr. af mörkuðum tekjum Vegagerðarinar til framkvæmda og láta þær renna í ríkissjóð.

Ég skora á hæstv. forsrh. að endurskoða þessa tölu, ekki síst í ljósi nýjustu atburða. Þessi skerðing mundi duga langleiðina ef ekki alveg, til að mæta öllum áföllnum kostnaði vegna náttúruhamfaranna á Skeiðarársandi. Ég held að við hljótum að þurfa að endurskoða hluti af þessu tagi þegar við stöndum frammi fyrir breyttum aðstæðum. Ekki er sanngjart að láta það koma niður í formi niðurskurðar framkvæmda í öðrum landshlutum sem menn hafa lengi beðið eftir. Ég tel þess vegna að gera eigi þá eðlilegu breytingu á að taka út þessa skerðingu og nota það fé til að endurbyggja mannvirkin á Skeiðarársandi, veg og brýr, eftir því sem ákveðið verður. Við getum þá huggað okkur við að ekki þarf að fara í sérstaka skattlagningu annars staðar til þess. Vilji menn afla teknanna á móti fyrir ríkissjóð eru hæg heimatökin að gera það með hinu almenna tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Ég skal með glöðu geði greiða atkvæði með hæstv. forsrh. t.d. með því að hækka lítillega tekjuskatt á hagnað fyrirtækja til að vega upp á móti þessu. Þau hafa haft ágæta afkomu síðustu missirin og bólgnað mörg hver út af peningum eins og kunnugt er. Og ekki ætla þau að hækka mikið kaupið ef marka má þær viðmiðanir sem vinnuveitendur hafa gefið út, þannig að ég held að ágætt sé að taka eitthvað af þessu í ríkissjóð og geta haldið áfram með uppbyggingu veganna í landinu.

Tvennt vil ég nefna að lokum, herra forseti. Hvort tveggja er að mínu mati smánarlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn. Það fyrra er ákvæði 25. gr. og ég segi nú bara: Litlu verður Vöggur feginn. Hversu lágt geta menn lagst? Hvað haldið þið að eigi að gera, herra forseti? Það á að afla ríkissjóði heilla 2 millj. kr. í tekjur. Það á að ná inn 2 millj., hvorki meira en minna og haldi menn sér nú fast, með því að láta menn borga sérstakt gjald fyrir að áfrýja niðurstöðum Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Menn skulu borga 120 þús. kall ef þeir vilja ekki una þeim úrskurðum sem þeir fengu. Menn eiga sem sagt að kaupa sér réttlætið ef þeir telja að á sér hafi verið brotinn réttur. 120 þús. kr. kostar réttlætið hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er gott að loksins er búið að finna upp mælikvarða til að leggja mælistiku yfir réttlætið.

Þá kemur að því síðasta, herra forseti, og þar hefur nú ríkissjóður heldur betur komist í feitt. Það á að hætta að endurgreiða hluta af kostnaði við refaeyðingu, hvorki meira né minna en heilar 19 millj. Þannig að aumingja Þingvallahreppur, sem að sögn fróðra manna setti 10% af brúttótekjum sínum í þetta í fyrra, getur borið þetta sjálfur. Þar hafa þeir heldur betur fundið breiðu bökin, hæstv. ráðherrar, í Þingvallahreppi.