Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:29:58 (942)

1996-11-07 15:29:58# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla því að afstaða mín í þessu máli til eyðingar refa mótist af einhverri andúð á íslenska refnum. Það er síður en svo. Mér þykir afar vænt um dýrið og stúderaði það meira að segja fyrr á öldinni eins og einhverjir mundu segja. Ég kann ennþá latnesku fræðiheitin á heimskautaref og rauðref: alopex lagopus og vulpes vulpes og allt hvað er ef hv. þm. er einhverju nær. En málið er að því miður er óhjákvæmilegt að halda þessu dýri í skefjum. Það hefur reynslan sýnt miðað við önnur sjónarmið og vegna þess að hann er vargur í véum á köflum.

[15:30]

Mergurinn málsins er sá að þetta snýst alls ekki um líffræðilegan þátt málsins. Það er ekki endilega ætlunin að draga neitt úr eyðingu refa. Spurningin hér er bara um kostnað, að velta honum yfir á nokkur fámennustu og strjálbýlustu sveitarfélög landsins. Ef þetta væri tengt ákvörðun um að hætta allri refaeyðingu í 10 ár eða eitthvað því um líkt félli kostnaðurinn að sjálfsögðu niður. En þetta snýst ekki um það. Það er gallinn. Hafi menn áhyggjur af því að útgjöld hafi farið þarna úr böndunum, að það fyrirkomulag sem við lýði er einkennist um of af því að menn geti skrifað reikninga á ríkið, svona eins sumir eru sagðir skrifa á Tryggingastofnun er hægt að breyta því. Ég hef heyrt marga tala um að út af fyrir sig mundu þeir alveg sætta sig við að þátttaka ríkisins væri bundin í formi fastrar upphæðar á hvert eitt dýr. En að gera þetta svona finnst mér mjög lítilmótlegt vegna þess að nokkur fátækustu og afskekktustu og strjálbýlustu sveitarfélög landsins mega ekki við miklu og þetta er satt best að segja ekki mjög stórmannlegt. En afstaða mín byggist á þessu en ekki andúð eða andstöðu við íslenska refinn nema síður sé.