Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:32:54 (944)

1996-11-07 15:32:54# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða um refinn heldur þær greinar sem að mér snúa varðandi heilbrigðismálin. Hv. þm. var meira sammála mér en ósammála varðandi þessar greinar. Hún talaði um mikilvægi þess að hagræða og sameina og gert er ráð fyrir því í þessum greinum og þá sérstaklega 19. gr. Af hverju kemur þetta til? Það kemur til vegna þess að við höfum verið í viðræðum við ýmsar sjúkrastofnanir, við sveitarfélög varðandi samhæfingu sjúkrastofnana. Á Suðurnesjum er t.d. áhugi að sameina Garðvang í Garði og Sjúkrahúsið í Keflavík. Það er eitt dæmi. Til þess þarf lagastoð. Á Austurlandi er mikill áhugi fyrir því að samhæfa sjúkrastofnanir og þannig náum við meiri hagræðingu. Með breyttum og bættum samgöngum er þetta einfaldara og auðveldara og gert er ráð fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga komi þar að málum þannig að sveitarstjórnarmenn geti haft áhrif á þessa samræmingu.

Fleira kom fram í máli hv. þm. Hún hafði m.a. áhyggjur af því að með 15. gr. væri verið að sameina t.d. heilsugæsluna í Fossvogi og Sjúkrahús Reykjavíkur. Það er alls ekki það sem þar er átt við heldur fyrst og fremst að í litlum heilsugæslustöðvum úti á landi, sem eru samreknar sjúkrahúsum, komi meiri samræming inn en nú er.

Varðandi það að í 18. gr. er talað um að aðeins ein stjórn verði yfir heilsugæslunni á Reykjavíkursvæðinu þá er mjög eðlilegt einmitt í þessari samræmingu að heildaryfirsýn sé yfir heilsugæsluna hér á Reykjavíkursvæðinu.