Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:35:08 (945)

1996-11-07 15:35:08# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að eðlilegt sé að fækka þessum heilsugæslustjórnum og það muni bæta þjónustuna. Ég veit það ekki, ég geri mér ekki grein fyrir því, og hæstv. heilbrrh. svaraði því ekki hvort eitthvert samráð hefði verið haft við Reykjavíkurborg hvað þetta varðar. Ég veit að sem betur fer er áhugi á því að sameina heilbrigðisstofnanir og að vinna meira saman. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um þá aðferð að koma með málið inn í þessum bandormi sem gefur ekki nokkra einustu möguleika á því að fara rækilega ofan í þessi mál og að raunveruleg stefnumörkun eigi sér stað. Hér er verið að veita hæstv. heilbrrh. mjög miklar heimildir til þess að gera breytingar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og ég tek undir það að ég held að það þyrfti að gera það í samráði við miklu fleiri. Það er fyrst og fremst sú leið sem hér er farin í lagasetningu þar sem er um grundvallarstefnumörkun að ræða. Mér finnst þetta mjög óeðlileg aðferð og tel að hæstv. heilbrrh. hefði átt að koma með málin hvert í sínu lagi eða sem heild ef það á við og þau fengju rækilega umfjöllun og meðferð. Við vitum að þetta tengist allt fjárlögunum. Þetta verður allt að afgreiða fyrir jól og það er auðvitað enginn tími fyrir svona stór mál. Ég vek athygli á því sem kom fram hér áðan í máli hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, sem mótmælti þessum greinum þannig að ekki er einu sinni samstaða í ríkisstjórnarflokkunum um að fara svona að. Þar var bent á miðstýringaráráttu hæstv. heilbrrh. Hér er um ágreiningsmál og stórmál að ræða.