Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:37:35 (946)

1996-11-07 15:37:35# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég byrja á því að taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram varðandi þau vinnubrögð sem felast í frv. eins og því sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Hér er lagt til, herra forseti, að við gerum á einu bretti breytingar á 17 lagabálkum, þar af 13 varanlega. Þetta er auðvitað ekki bjóðandi og sú umræða sem nú þegar hefur farið fram um heilbrigðismálin og þær viðamiklu breytingar á stjórnkerfi heilbrigðismála, sem hér er verið að leggja til, ættu að sýna mönnum hversu fráleit þessi aðferð er. Einmitt þar, í heilbrigðismálunum, væri þörf á sjálfstæðri umfjöllun vegna þess að við erum að tala um stórmál. Við eru að tala um mál sem varða ekki bara Samband ísl. sveitarfélaga heldur ýmsa fleiri og mál sem verðskuldar þá virðingu að vera borið fram í sérstöku frv. Mig grunar, herra forseti, að það sé víðar svo en í menntmn. að ríkisstjórnin sé ekki búin að setja fram mörg mál á hv. Alþingi sem þarfnast skoðunar í nefnd. Ég velti því fyrir mér hvort það er tiltekin taktík að leggja ekki fram sérstök mál heldur skella öllu inn í einn bandorm sem síðan er unninn fyrir aftan bakið á sér. Að minnsta kosti hefði mér fundist full ástæða til þess að taka hér upp sérstaka umræðu um heilbrigðismálin og stjórnkerfi þeirra. Það hefði t.d. verið fróðlegt að heyra hæstv. heilbrrh. fjalla nokkuð um hvort og þá hvernig ríkisstjórnin hefur skoðað þann möguleika að heilsugæslan verði flutt alfarið til sveitarfélaganna. Ég þekki þau svör að nú þegar sé tilraunaverkefni í gangi á Höfn í Hornafirði og að Akureyri sé að taka heilsugæsluna yfir nú um áramótin. En það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. heilbrrh. er sammála því mati fulltrúa sveitarfélaganna að það hafi beinlínis komið fram í viðræðum um þessi reynsluverkefni að fyrst þau á annað borð væru farin yfir til sveitarfélaganna kæmu þau aldrei til baka. Það segir okkur auðvitað þá sögu að það er fyrirhugað að flytja þennan málaflokk yfir fyrr en síðar. Þetta hefði þurft að ræða hér, ekki inni í einhverjum bandormi, eins og þetta sé eitthvert aukaatriði, heldur sem það stórmál sem það vissulega er. Ég vil því, herra forseti, mótmæla þessum vinnubrögðum og óska eindregið eftir því að þau verði ekki viðhöfð aftur að ári. Að sú ríkisstjórn sem þá situr sé svo vönd að virðingu sinni að hún leggi stórmálin fram í sérstökum frumvörpum.

Síðan vil ég, herra forseti, víkja að nokkrum atriðum þess frv. sem hér liggur fyrir. Nokkrum þeim atriðum sem mér er unnt að fjalla um efnislega á þessu stigi máls vegna þess að, eins og fram kom í máli mínu áðan, er greinilega ekki gert ráð fyrir því að menn hafi hér tóm til þess að kynna sér mál sérstaklega. Það er þá fyrst 2. gr. sem fjallar um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Þegar í umræðunni hafa ýmis orð verið látin falla um þá stefnu að fara að innheimta sérstaklega 1.500 króna gjald af þeim sem falla á prófum. Um þetta er hægt að hafa ýmis fleiri orð og ég verð að segja að mér fannst fráleitt of sterkt tekið til orða hér fyrr í dag um þessa hugmynd. Yfirskin gjaldtökunnar er aðhald en raunverulegt innihald er auðvitað tekjuöflun. Tekjuöflun upp á rúmar 30 milljónir. Hér hefur fundist nýr tekjustofn, tekjustofn sem er bein afleiðing af því hvernig skólakerfið er byggt upp og stjórnvöld geta beinlínis ráðið hversu stór er árlega með framlögum sínum að öðru leyti til framhaldsskólanna. Það er nefnilega svo merkilegt að það sem menn nefna í rökstuðningi fyrir því að taka upp þetta gjald er hið mikla brottfall nemenda úr framhaldsskólum og endurtekning prófa. Halda menn að hin raunverulega ástæða brottfalls úr íslenskum framhaldsskólum sé það að menn hafi ekki verið látnir borga fyrir prófin? Þetta er svo fráleitt að varla er hægt að taka þátt í umræðunni. Af hverju ráðast menn ekki að rótum þessa vanda sem er sá að skólakerfið hefur ekki mætt þörfum þess breiða fjölda sem inn í framhaldsskólana sækir? Framhaldsskólunum hefur verið gert að taka við öllum án þess að þeir hafi fengið fjármuni til þess að sinna þeim mismunandi kröfum og þeim mismunandi þörfum sem því fylgja. Síðan á að skattleggja þessa nemendur sérstaklega fyrir það að skólinn hefur ekki getað mætt þörfum þeirra. Þetta er sérstök skólastefna, ég verð að segja það. Ekkert bendir til þess að þetta eigi að breytast í ár vegna þess að niðurskurðurinn til framhaldsskólanna er meiri en nokkru sinni fyrr. En það er ástæða fyrst tilefni gefst til, herra forseti, að geta um það að ekki er verið að byrja að skera niður í framhaldsskólum landsins með þessum fjárlögum eða því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir. Að því hefur verið látið liggja en það er ekki svo. Því miður hefur linnulaust verið skorið niður á framhaldsskólastiginu. Það hefur m.a. komið í veg fyrir að verkmenntun hafi náð að þróast hér. Þar skal enn höggvið í sama knérunn --- nú var ég næstum búin að segja það sem Stefán heitinn Jónsson hafði gjarnan að orðtaki í þessu sambandi, sem var sama hnérörið. En það er svona þegar maður skemmtir sér við að snúa út úr þá getur maður lent illa í því. En þetta er skelfileg staða sem við stöndum frammi fyrir gagnvart framhaldsskólunum. Það var varað við því sérstaklega þegar framhaldsskólalögin voru samþykkt á Alþingi sl. vor að framkvæmdin yrði ekki hafin með niðurskurði. Þær viðvaranir voru hafðar að engu og það er ekki bara skorið niður heldur á nú að fara að skattleggja nemendur sérstaklega vegna þeirrar skólastefnu sem stjórnvöld hafa rekið.

[15:45]

Það er heldur ekki ljóst hvernig þetta mun virka. Það er nokkuð ljóst að aðferðirnar verða að vera ólíkar vegna mismunandi gerðar skólanna og auðvitað óttast menn að þetta muni koma mjög mismunandi niður. Það er líka alveg klárt að ,,elítuskólarnir``, gömlu menntaskólarnir sem hafa valið sér nemendur, eru í allt allt annarri stöðu gagnvart þessu gjaldi en þeir skólar sem hafa talið sér skylt að fara eftir lögunum og taka við öllum sem sótt hafa um inngöngu. Ég álít sem sé, herra forseti, að hér sé verið að fara inn á mjög alvarlega og vafasama braut og vænti þess að hv. menntmn. í góðri samvinnu við Alþingi fái hér nokkru um breytt.

Ég vil síðan gera að umtalsefni þær greinar sem snúa að starfsmenntun í atvinnulífinu og Atvinnuleysistryggingasjóði. Í bandormi sem var borinn fram fyrir um það bil ári var tryggingagjaldinu breytt þannig að tekin var ákvörðun um að hluti þess rynni í Atvinnuleysistryggingasjóð, að tryggingagjald fjármagnaði Atvinnuleysistryggingasjóð. Þegar ákvörðunin var tekin og það stendur beinlínis í lögunum að ef atvinnuleysi yrði minna en þá var miðað við átti að líta til þeirrar skýrslu sem sjóðurinn gæfi fjmrh. árlega varðandi fjárhagslega stöðu og skýrslu Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi. Ef niðurstaða gæfi tilefni til að breyta hundr\-aðshluta atvinnutryggingagjaldsins þá skyldi fjmrh. flytja frv. þar að lútandi á Alþingi. Ef sú upphæð sem átti að renna til atvinnutryggingagjaldsins, sem hluti af tryggingagjaldi, yrði of há vegna þess að atvinnuleysi færi minnkandi ætti að breyta þeirri tölu hér á Alþingi. Þá hefði mátt ætla að um það væri flutt frv. á Alþingi nú vegna þess að spáin segir að atvinnuleysi verði minna ef ég hef skilið stjórnvöld rétt og þau guma af. En hvað er gert? Það er ekki gert heldur er flutt annað frv., þ.e. hluti þessa bandorms fjallar um að starfsmenntun í atvinnulífinu og stuðingur við konur og þá atvinnustarfsemi þeir þær hafa verið að byggja upp víða um land, skuli fjármagna af því sem fram yfir kann að vera. Í rauninni er þannig búið að fara bak við bæði það sem var sagt í fyrra og stendur í lögunum um tryggingagjald.

Ég held að ótti manna hafi líka komið fram fyrir ári, þegar þessi mál voru rædd, um að ekki yrði endilega farið eftir því þó að þarna væri talað um tiltekinn hundraðshluta sem ætti að breytast árlega eftir því hvernig atvinnuleysi væri hér á landi. Ári síðar er staðfest að ekkert verður gert með þetta heldur á að nýta gjaldið til þess að fjármagna annað það sem hefur verið fjármagnað með beinum framlögum úr ríkissjóði. Þessi tvö mál, starfsmenntun í atvinnulífinu og fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur, einkum á landsbyggðinni eins og það byrjaði, á nú að vera hluti af starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta er ekki lengur hluti af atvinnustefnu, ekki lengur hluti af menntastefnu heldur hluti af þeirri félagslegu samhjálp sem við höfum samþykkt að hafa í samfélagi okkar. Það er grundvallarmunur á þessu enda eins og hér hefur komið fram eru þeir aðilar, sem sömdu um þetta í kjarasamningum á sínum tíma --- vegna þess að lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu voru liður í lausn kjarasamninga á sínum tíma --- hreint ekki sáttir við þessa ráðstöfun og þeir sem láta sér annt um endurmenntun, um símenntun, um menntastefnu í samfélagi okkar, hljóta líka að vera mjög ósáttir við þá ráðstöfun sem hér er verið að gera. Þetta á einfaldlega ekki heima inni í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta er ekki hluti af ráðstöfunum vegna atvinnuleysis. Þessi menntastefna, þessi atvinnustefna byggir á einhverjum misskilningi sem verður vonandi hægt að leiðrétta.

Þetta er líka menntastefna sem fer svolítið á skjön við þá menntastefnu sem var kynnt og rædd á menntaþingi nú í haust og það á einnig við um framhaldsskólann. Þar var glæsileg dagskrá í boði og haldnar voru hátíðlegar ræður, margar hinna merkustu. Ég reyndi að sitja á þessu þingi sem ég gat, bæði í tjaldi og í húsi, en það verður að segjast eins og er að merkasti hluti þessa þings, því það var ekki bara í tvennu lagi heldur í þrennu lagi, fór fram á göngum Háskólabíós. Þar voru menn ekki að taka þátt í hinum hástemmdu ræðum eða hinum glæsilegu lýsingum á menntakerfinu sem menn vildu sjá. Þar voru menn að tjá ótta sinn vegna þess sem þeir þóttust sjá fram undan í menntamálum þjóðarinnar ef það frv. til fjárlaga eða þær fyrirætlanir um niðurskurð og aðhald og þrengingar og breytingar sem menn sáu fyrir næðu fram að ganga. Það þing sem fór fram á göngum, það var einatt fátt í sölum eins og menn þekkja, var að ræða um allt aðra menntastefnu en þá sem þingið fjallaði um. Það var að ræða um veruleikann. Hann er því miður allur annar. Það er líka afar slæmt, herra forseti, að þessi mál skuli bera að í bandormi.

Ég vil síðan að lokum fjalla örlítið um þá tilhneigingu sem er ávallt fyrir endi að velta kostnaði af ríkisvaldi og yfir á sveitarfélögin. Í þessum bandormi er verið að tala um refi. Það sem mig langar til að nefna í þessu samhengi er framkvæmd málefna fatlaðra. Það er tilfinning ýmissa sveitarstjórnarmanna að þegar að því kemur að málefni fatlaðra verði alfarið málefni sveitarfélaga, ekki bara tiltekinna reynslusveitarfélaga, verði búið að ýta býsna stórum hluta kostnaðar yfir á sveitarfélögin þannig að þau fái verkefnið með tiltölulega litlum tekjustofni. Þetta marka menn, þeir sem sinna fræðslumálum í sveitarfélögum sínum og uppeldismálum, þetta marka þeir af því að stuðningur við börn í leikskólum, sem hafa verið greind fötluð af stofnunum hins opinbera og hafa þurft á stuðningi að halda, hefur komið úr ríkissjóði samkvæmt lögum þar til nú upp á síðkastið að þessir hlutir eru að breytast. Fötlunin hefur verið flokkuð í þrennt og svörin eru þau að nú sé einungis einn flokkurinn, sá alvarlegasti, greiddur af ríkinu. Hinum flokkunum, sem taldir eru vægari, er ýtt yfir á sveitarfélögin. Hér er ekki verið að sækja eftir lagabreytingu til þess að geta hagað hlutum svona. Hér er einungis um framkvæmd að ræða sem menn eru eðlilega afskaplega ósáttir við vegna þess að hér er um verkefni að ræða sem ljóst er að sveitarfélögin munu taka við, samanber það sem ég ræddi um áðan varðandi heilsugæsluna. Það er óeðlilegt að velta þeim kostnaði sem lögum samkvæmt á að vera kostnaður ríkisins yfir á sveitarfélögin áður en þau hafa tekið við verkefninu. Þau hafa vissulega ákveðnar skyldur við leikskólanemendur sína og sinna þeim væntanlega hvert eftir getu og áreiðanlega samkvæmt lögum en áður en þau hafa fjármuni til þess að gera betur er vart hægt að ætlast til þess.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en mun e.t.v. taka þátt í umræðunni frekar þegar á líður.