Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:56:48 (947)

1996-11-07 15:56:48# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem fallið hafa um þá grein í þessu frv. sem lýtur að svokölluðu endurinnritunargjaldi í framhaldsskólunum vil ég taka það fram að eins og kemur fram í greinargerðinni er fyrsta markmið þessarar gjaldtöku að stuðla að því að nemendur innriti sig ekki í áfanga nema þeir séu staðráðnir í því að stunda þar nám. Þessi krafa er mjög mikilvæg í ljósi þróunar sem hefur verið hér í skólakerfinu því að innritun nemenda í nám án þess að þeir hafi fullan hug á að ljúka því hefur valdið vandræðum í mörgum áfangaskólum.

Við getum tekið annað dæmi til þess að skýra hvað í þessu felst. Í skóla úti á landi var sú regla höfð að menn gátu gengið þar í ljósritunarvél og notað hana án þess að greiða nokkuð fyrir afnotin. Síðan var sú regla tekin upp að innheimta 10 kr. gjald fyrir afnot af ljósritunarvélinni og þá snarminnkaði notkunin. Þá kom í ljós að ekki var þörf fyrir alla þá ljósritun sem var stunduð í þessari vél. Þetta er meginatriðið með gjaldtökunni, að stuðla að því að aukin hagkvæmni verði í skólakerfinu og sérstaklega í áfangakerfinu þannig að fjármunirnir nýtist vel og ekki verði stofnað til þess að menn innriti sig í áfangana án þess að ætla raunverulega að stunda þar nám. Þetta kemur fram í greinargerðinni og þetta er megintilgangurinn með tillögunni.

Hitt er ljóst að tillagan felur í sér að það eigi að setja um þetta reglur. Þær reglur verða smíðaðar og í þeim reglum verður tekið tillit til fatlaðra, sjúkra og annarra sem geta af augljósum ástæðum ekki stundað nám með sama hraða og aðrir. En menn mega ekki gleyma meginmarkmiði tillögunnar og þess vegna held ég að hún eigi fullan rétt á sér og sé bráðnauðsynleg.