Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 15:59:11 (948)

1996-11-07 15:59:11# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[15:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að ég og hæstv. ráðherra séum að tala um sama hlutinn. Ég er að tala um 2. gr. þessa frv. sem hér liggur fyrir, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og þar er eingöngu talað um að innritast í próf eða áfanga í framhaldsskóla vegna þess að það er verið að tala um prófagjald. Það er ekki verið að tala um skólagjöld. Þau eru annars staðar og ég hef heyrt þau rök sem hér voru fram borin áður um það að skólagjöldin eigi að koma í veg fyrir það að menn séu ,,að óþörfu`` að innrita sig í áfanga sem þeir síðan annaðhvort geta ekki eða hafa ekki aðstöðu til þess að stunda nám í. Skólagjöldin eru annað mál.

Í 2. gr., og ég hef líka þaullesið þá greinargerð sem fylgir, er bara verið að tala um þessi prófagjöld. Það er verið að tala um það ef menn þurfa að endurtaka próf eða jafnvel að endurtaka áfanga til að endurtaka próf. Það er ekki verið að ræða um skólagjöld almennt séð í framhaldsskólunum sem hafa verið rökstudd sérstaklega með því að nemendur væru ekki að innrita sig í skóla eða ef þeir ætluðu sér ekki að mæta í skóla og vinna þar eins og ég sagði áðan.