Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:21:16 (950)

1996-11-07 16:21:16# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:21]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að mega gefa andsvar við ágætri ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í: Ágæta?) Ágæta ræðu, hv. þm. Hún spurði í lok ræðu sinnar hvort ég styddi það að stjórn Ríkisspítala hefur ákveðið að stytta biðlistana varðandi beinaaðgerðir. Ég styð það. Það hefur þegar verið ákveðið eftir því sem ég best veit.

Það voru ekki svo flóknar spurningarnar sem hún lagði fyrir að það er hægt að svara þeim í stuttu andsvari. Það er stefnumörkun í heilbrigðismálum og menn hljóta að vera sammála þeirri stefnumörkun að þar sem hægt er að ná hagkvæmni og hagræðingu með aukinni samvinnu og jafnvel sameiningu þá stígum við auðvitað þau skref. Af því að hv. þm. gerði mjög lítið úr þeirri samvinnu sem er verið að vinna að með heimamönnum varðandi þessa sameiningu sjúkrastofnana er það nú þannig að sum þessara mála eru komin á framkvæmdastig og eru ekki á neinu rabbstigi. Til þess að sameina þær stofnanir þarf lagastoð. Ég sagði það áðan í andsvari að t.d. á Suðurnesjum erum við komin það langt varðandi samræmingu heilbrigðisstofnana að við munum að öllum líkindum sameina þær fáum við til þess lagastoð frá Alþingi. Þetta er ekki eins flókið mál eins og hv. þm. vildi vera láta. Þetta er bara eðlileg þróun. Eðlileg þróun í heilbrigðismálum að auka samræmingu og samhæfingu þessara stofnana.

Hv. þm. spurði hvar ætti að ná þessum 160 millj. kr. sparnaði sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að náist í sjúkrahúsum út á landi. Það er með þeirri samhæfingu, hv. þm., sem á að ná þessum 160 millj. kr. Það er nefnd í gangi sem er að vinna að stefnumótun í því efni.