Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:27:27 (953)

1996-11-07 16:27:27# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú olli svar ráðherrans mér miklum vonbrigðum vegna þess að mér skilst að ráðherrann ætli að styðja það að fækka á biðlistunum og það sé hægt að hefja bæklunaraðgerðir á fólki sem hefur beðið lengi. En ráðherrann ætlar ekki að styðja að það verði veitt fjármagn til að það sé hægt. Ráðherrann ætlast greinilega til að þetta sé tekið af fjárveitingu sem sjúkrahúsin fengu til að mæta uppsöfnuðum halla og vanda. Það var ekki gert ráð fyrir neinum aðgerðum til að stytta biðlistana í því að því er ég best veit.

Virðulegi forseti. Ég heyri af orðum hæstv. ráðherra að sú heimild sem ráðherrann er að biðja um er alls ekki tímabær. Ég veit því ekki hvort við þurfum að ræða hana miklu meira. Það þarf bara að fella hana út. Efh.- og viðskn. þarf bara að fella hana út úr þessum bandormi og við þurfum að samþykkja það á þinginu vegna þess að það er ekkert upp á borðinu enn þá til að taka afstöðu til. Auðvitað verður þingið að taka afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir. Ráðherrann getur verið í viðræðum um hugmyndir sem hún er með um samhæfingu og hagræðingu o.s.frv. Þegar niðurstaða liggur fyrir þá á ráðherrann að koma með það inn í þingið og þá fyrst er tímabært að taka afstöðu til þeirra tillagna sem ráðherrann kemur með hér inn á borðið en ekki núna að biðja um algjörlega opna heimild fyrir því að umbreyta öllu skipulagi á rekstri sjúkrahúsa á landinu án þess að Alþingi hafi nokkuð um það að segja.