Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:29:06 (954)

1996-11-07 16:29:06# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða að taka hér til máls og fara nokkrum orðum um málefni sem í þessum bandormi eru og varða mitt ráðuneyti. Sérstaklega í kjölfarið á hinni ljúfu og indælu ræðu hv. 13. þm. Reykv. sem er sýnilega í góðu skapi núna eins og ætíð. Hún fór ekki með rétt mál í ræðu sinni og ég neyðist til að fara aðeins yfir þetta.

Í fjárlögunum fyrir árið 1996 var varið til málefna fatlaðra samtals 2.124 millj. kr. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 er áformað að verja til málefna fatlaðra samtals 2.313 millj. kr. Í lögum um Framkvæmdasjóð fatlaðra segir að hann skuli fá óskertar tekjur erfðafjársjóðs. Í fjárlögum fyrir árið 1994 var að tillögu hv. 13. þm. Reykv., sem þá var félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, ákveðið að verja 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til rekstrarverkefna. Þetta var ákvarðað í bandormi. Áætlað var að erfðafjárskattur gæfi 300 millj. Í fjárlögum fyrir 1995 var að tillögu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar eða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þau voru bæði á þeim tíma sem fjárlög voru undirbúin, þá var ákveðið í bandormi að verja 40% af ráðstöfunarfé framkvæmdasjóðs til rekstrar. Þá var áætlað að erfðafjárskattur gæfi 310 millj. Í fjárlögum fyrir árið 1996, þ.e. þetta ár, var með ákvæði í bandormi að tillögu minni ákveðið að verja 40% til rekstrarverkefna. Þetta gerði ég eins og fyrirrennari minn. Þá var framlag til framkvæmdasjóðs ákveðið 257 millj. kr. Þá var ákveðið með ,,þrátt-fyrir``-ákvæði að það sem erfðafjárskattur gæfi umfram 257 millj. gengi til ríkissjóðs. Á árinu 1996 fékk Framkvæmdasjóður 80 millj. sem var söluandvirði Sólborgarhúsanna. En að minni kröfu fékk sjóðurinn einnig á fjáraukalögum 1995 108 millj. og 90 millj. á fjáraukalögum 1996 en það voru eftirstöðvar af því sem erfðafjárskattur hafði gefið 1994 og 1995 umfram áætlun. Þetta var í fyrsta sinn sem félmrh. höfðu fyrir því að ganga eftir mismun áætlaðra tekna og rauntekna af erfðafjárskatti. T.d. hafði hv. 13. þm. Reykv. í félagsmálaráðherratíð sinni árin 1990 og 1991 ekki fyrir því að hirða 108 millj. sem erfðafjárskattur gaf umfram það sem rann í framkvæmdasjóð. Það var úthlutað úr sjóðnum árið 1996 141,9 millj. til rekstrarverkefna. Í fjárlagafrv. 1997 er að tillögu minni lagðar til framkvæmdasjóðs 165 millj. en á móti kemur að af honum verður létt öllum rekstrarverkefnum nema stjórnarkostnaði sjóðsins og styrkjum til félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem samtals eru áætlaðar 13 millj., þ.e. 152 millj. ganga því óskertar til framkvæmda. Kostirnir við að sérmerkja framkvæmdafé eru m.a. að launahækkanir á næsta ári ganga þá ekki á framkvæmdafé sjóðsins.

Úthlutanir úr framkvæmdasjóði til rekstrar hafa oft ekki legið fyrir fyrr en í febrúar eða mars og það hefur gert svæðisskrifstofunum erfitt fyrir með áætlanagerð. Þetta hefur verið mjög bagalegt ekki hvað síst hvað varðar áætlanir um liðveislu og stuðningsfjölskyldur. Féð til rekstrarverkefna sem sjóðurinn hefur sinnt er nú ákvarðað í öðrum fjárlagalið. Af honum er létt samkvæmt fjárlagafrv. 1997 rekstrarverkefnum að upphæð 130 millj. Öllum rekstrarverkefnum sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur kostað verður jafn vel sinnt 1997 og var 1996 eða betur, t.d. hækkar frekari liðveisla um 25%.

Rétt er að hafa í huga að stofnkostur sambýlis er á bilinu 25--33 millj. Rekstur sambýlis kostar á ári að meðaltali 13 millj. þannig að rekstur sambýlanna svarar því að þau væru öll byggð frá grunni á tveggja til þriggja ára fresti. Ef fjárlög undanfarinna ára eru athuguð kemur í ljós að stöðugt er verið að auka fé til rekstrar í málefnum fatlaðra. Ég vil upplýsa hver aukningin hefur verið á verðlagi 1996. Árið 1991 var aukningin 143,6 millj., árið 1992 var aukningin 53,7 millj., árið 1993 89,8 millj., árið 1994 33,8 millj., árið 1995 var hún 70,4 millj., árið 1996 84,9 millj. og 1997 er aukningin til rekstrarverkefna 281,8 millj. kr.

Niðurstaðan í þessu máli er sú að til málefna fatlaðra var á þessu ári varið 2.124 millj. kr. en til málefna fatlaðra verður á fjárlögum 1997 varið 2.313. millj. kr. Hækkun til málefna fatlaðra á fjárlögum milli áranna 1996 og 1997 er samtals 190 millj. kr. Um þetta þarf ekkert að deila. Þetta á bæði hv. þm. og aðrir þeir sem vilja hafa það sem sannara reynist að geta skilið.

Gerð hefur verið athugasemd við það af hverju í 10. gr. frv. um bandorminn er verið að breyta lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu. Í þessari grein er kveðið á um það framlög til starfsmenntasjóðs komi úr Atvinnuleysistryggingasjóði á næsta ári. Framlög til sjóðsins hafa komið beint af fjárlögum og sjóðurinn hefur til ráðstöfunar í ár 47 millj. kr. og í áætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs er gert ráð fyrir sömu upphæð á næsta ári. Þá hefur líka verið gerð athugasemd við það að verja eigi fjármunum úr Atvinnuleysistryggingasjóði til starfsmenntunar og þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur. Í áætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs er gert ráð fyrir 20 millj. til þessa verkefnis og það er sama fjárhæð og ætluð var til þeirra í ár. En hvað er nú svo voðalegt við að gera þetta? Atvinnuleysistryggingasjóður hefur burði til að gera þetta. Atvinnuleysistryggingasjóður er að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, styrkja átaksverkefni og þvílíkt. Þessu er vel fyrir komið hjá honum.

Ég vil biðja hv. þm. að hafa ekki neinar sérstakar áhyggjur af Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þess að ef þau tillög sem merkt eru til Atvinnuleysistryggingasjóðs duga ekki er ríkissjóður ábyrgur fyrir því sem á vantar til að halda uppi lögboðnum atvinnuleysistryggingum.