Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:48:14 (963)

1996-11-07 16:48:14# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fór hér með mikið talnaflóð varðandi fjármagn til fatlaðra, en ég er hætt að nenna, virðulegi forseti, að ræða við ráðherrann um tölur. Hann skilur ekki tölur. Hann snýr öllu á hvolf og hann segir niðurskurð vera aukningu á framlögum. Ráðherrann segir nefnilega nákvæmlega sisvona að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Það er alveg tilgangslaust að eyða tíma þingsins í að rökræða við ráðherrann. Ráðherrann trúir mér ekki. Gott vel ég sætti mig við það. En hvað með hæstv. fjmrh.? Trúir hæstv. ráðherra fjmrh. eða forsrh. sem ber fram þetta frv.? Hann talar um sparnað í útgjöldum og hann talar um að í Framkvæmdasjóð fatlaðra sé niðurskurður upp á 268 milljónir. Sparnaður, þ.e. niðurskurður. Ég vil kalla einn annan til vitnis, þ.e. formann Þroskahjálpar. Ég man aldrei eftir í þau sjö ár sem ég var ráðherra að hafa fengið slíka grein frá formanni Þroskahjálpar þar sem niðurskurðurinn á næsta ári til málefna fatlaðra er gagnrýndur mjög og farið með tölur sem ráðherrann getur varla vefengt. Bæði forsrh. og formaður Þroskahjálpar. Látum vera þó ráðherrann trúi mér ekki. Hér er náttúrlega líka farið inn á það sem er mjög alvarlegt og ástæða er til að ræða við ráðherrann, þ.e. þegar hann var t.d. í sjónvarpi að tala um hvað fatlaðir gætu verið dýrir einstaklingar fyrir þjóðfélagið. Og formaður Þroskahjálpar talar einmitt um að það sé til skammar að ráðherrann sé að nota þetta fólk, sem þarf vissulega á dýrri þjónustu að halda, sem blóraböggul fyrir þjónustuleysi við aðra.

Og varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna þá munum við hvergi samþykkja hvaða upphæðir fara í þessa málaflokka heldur verður það undir hælinn lagt hér eftir, ef þetta nær fram að ganga, hvað stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þóknast eða getur látið til þessara málaflokka.