Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 17:13:00 (968)

1996-11-07 17:13:00# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[17:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er spurning hvort væri ekki hægt að tryggja að hæstv. forsrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Ég reikna með að hann sé í húsinu en finnst satt að segja enginn bragur á því að flutningsráðherrar mála séu ekki í salnum eða í grennd við hann þegar verið er að ræða mál. Þó að ég kunni vel að meta hæstv. heilbrrh. vil ég hafa orð á þessu og spyrja hæstv. forseta hvort hann gæti hugsað sér að láta hæstv. forsrh. vita að hans sé saknað úr þessum sal.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherra komi í salinn.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir.

Þetta frv. ber að nokkru leyti merki þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur tekið upp það sem kallað er rammafjárlög og gengur í grófum dráttum út á að hverjum ráðherra er ætlað að miða við tiltekinn ramma í sínum ráðuneytum. Ráðherrarnir eiga síðan að verja fjármunum samkvæmt þeim niðurstöðum. Niðurstöðurnar eru venjulega fengnar með því að haldnir eru ríkisstjórnarfundir og þar komast menn að tiltekinni pólitískri niðurstöðu um hvað hægt sé að miða við, bæði í tekjum og gjöldum.

Vandinn við þessa aðferð er hins vegar sá að aðrir ráðherrar vita ekki hvað hinir gera. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að hæstv. menntmrh. sé í einstökum atriðum inni í því hvernig hæstv. heilbrrh. ætlar að spara. Ég held líka að t.d. hæstv. heilbrrh. sé kannski ekki inni í því í einstökum atriðum hvernig hæstv. menntmrh. ætlar að spara. Þar af leiðandi eru þau mál sem koma inn í þessa virðulegu stofnun, Alþingi, munaðarlaus. Þau eru pólitískt munaðarlaus. Hver ráðherra reynir auðvitað að verja þau mál sem hann flytur, en þegar kemur að meðferð málanna í hv. efh.- og viðskn. hefur það gerst aftur og aftur á undanförnum árum að komið hefur í ljós að í raun og veru hefur ekki verið staða til að fylgja þeim eftir af því að þingmenn stjórnarflokkanna hafa, án þess að mikið bæri á, oft ýtt ýmsum þessum tillögum til hliðar og jafnvel út úr frumvörpunum. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því að þannig gerist það í ýmsum málum og þegar við lítum yfir frumvörpin um ráðstafanir í ríkisfjármálum og niðurstöðurnar á undanförnum árum hefur það aftur og aftur komið fyrir að þingmenn stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar auðvitað líka hafa komið vitinu fyrir ráðherrana í sambandi við einstök mál.

[17:15]

Þetta segi ég, hæstv. forseti, vegna þess að í frv. úir og grúir af svona málum og ég er alveg sannfærður um það að þegar frv. kemur til lokameðferðar í þinginu munu menn hafa viðurkennt að því verður að breyta. Í þessu sambandi kemur mér í hug í augnablikinu t.d. tillagan um 2 millj. kr. í tekjur af gjaldi sem á að taka vegna manna sem vilja áfrýja úrskurðum samkeppnisráðs. Þetta er alveg ótrúlega smátt, 2 millj. kr. fyrir þá sem vilja kannski kæra niðurstöður þessarar stofnunar, 2 millj. kr. í fjárlögum sem eru á annað hundrað milljarðar kr. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki er stundum sagt. Það á kannski ekki við í þessu sambandi en manni kemur það þó í hug vegna þess að þetta breytir í rauninni engu um heildarfjármál ríkissjóðs og þannig er verið að setja þessa grein inn undir fölsku flaggi. Ég er nokkuð viss um að menn munu sjá til þess í meðferð málsins á Alþingi að greinin verður tekin út, hún er vitleysa.

Önnur grein í frv., sem á ekki heima hér og ætti að taka út strax og ætti að vera ráðherranna að sjá til að verði tekin út vegna þess að hún tilheyrir ekki ráðstöfunum í ríkisfjármálum, er greinin að skipta um formenn í stjórnum heilsugæslustöðvanna. Út af fyrir sig getur maður skilið það að framsóknarmenn vilji losna við kratana úr stjórnum heilsugæslustöðvanna. Það getur verið keppikefli fyrir framsóknarmenn út af fyrir sig. En framsóknarmennirnir þurfa þá að sýna mér fram á að það spari að henda krötunum út. Auðvitað er hugsanlegt að það séu einhver dulin rök á bak við það að það spari verulega peninga að losna við kratana, ég skal ekkert um það segja. En það kemur ekki fram í greinargerð frv. og hefur ekki komið fram í ræðu hæstv. forsrh. að það sé sérstaklega hagkvæmt fyrir ríkissjóð að henda krötunum út.

Þetta nefni ég hér, hæstv. forseti, vegna þess að þessi tillaga, eins og reyndar fleiri í frv., er algerlega á skjön við ráðstafanir í ríkisfjármálum og menn eiga að hætta svona vitleysu. Vitaskuld er það þannig, hæstv. forseti, líka þegar verið er að breyta lögum til langframa eins og verið er að gera tillögu um, þá á að breyta þeim með frumvörpum um viðkomandi lög en ekki í bandormi af þessu tagi. Það hefur gerst aftur og aftur á undanförnum árum og áratugum að menn flytja frumvörp um ráðstafanir í ríkisfjármálum með fjöldanum öllum af frumvörpum og breytingum á lögum þar sem gert er ráð fyrir því að um takmarkaðan tíma verði þessu breytt og þessu breytt og þessu breytt. Þannig hefur það verið. En í frv. eru menn ekki bara að því. Menn eru að breyta varanlega einum 16 lagabálkum þannig að þær breytingar sem verið er að taka á gilda ekki bara fyrir árið 1997 eins og oft hefur verið miðað við, að þau giltu fyrir næsta fjárlagaár, heldur gilda þessar breytingar varanlega. Þetta er fúsk með löggjafarvaldið. Það er ekki hægt að fara svona með mál. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti áðan á í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. er ekki kominn í salinn enn þá en ég held að öðru leyti áfram máli mínu og fer fram á að gerð verði tilraun til að láta hann aðeins vita af umræðunni. Alþingi er farið að haga störfum sínum eftir fjarveru ráðherra. Dagskrá Alþingis er búin til eftir fjarveru ráðherra. Það er ekki lengur búin til dagskrá Alþingis út af forgangi og því hvernig á að afgreiða þingmál og fara með þau. Það er fyrst gáð hvaða ráðherrar eru í burtu. Svo er dagskráin búin til. Þetta færist mjög í vöxt hjá núverandi ríkisstjórn þar sem lítilsvirðingin við Alþingi og framkvæmdarvaldsbragurinn á öllum hlutum hefur farið stórkostlega vaxandi. Ég endurtek að mér þætti sniðugt ef hæstv. forsrh. yrði jafnvel bara látinn vita aftur nema hann sé farinn.

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. forsrh. er rétt ókominn en hafði þurft að víkja sér frá um stutta stund þannig að forseti væntir þess að það líði ekki nema stutt stund þangað til hæstv. forsrh. verður hér.)

Út af fyrir sig gæti ég hugsað mér að fresta ræðu minni meðan beðið er eftir ráðherranum en ég mun þó halda áfram í trausti þess að tíminn sé ekki langur og víkja hér að einstökum atriðum sem snerta fagráðuneytin.

Ég ætla þá fyrst að víkja að 2. gr. Ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh. einnar spurningar: Hver fann upp endurinnritunargjaldið í framhaldsskólunum? Hver er hinn mikli uppfinningamaður, nýsköpunarmaður í meðferð ríkisfjármála og menntamála á Íslandi? Hver fann þetta upp? Þar sem menn ætla sér að ná í hvað? Hvorki meira né minna en 32 millj. kr. og munar nú um minna þegar menn eru að taka á honum stóra sínum í sambandi við ríkisfjármálin. Hvernig á að fara að þessu? Það á að fara þannig að þessu að þeir sem þurfa að endurtaka próf þurfa að borga 1.500 kr. Svo er löng þvæla um það í fjárlagafrv. og ég skora á hv. þm. að lesa það á bls. 292 og 293 hvernig á að standa að þessu með mismunandi hætti, annars vegar í áfangaskólum og hins vegar í bekkjaskólum. Ég trúi því ekki að sú greinargerð hafi verið samin í menntmrn. Hún hlýtur að hafa verið samin einhvers staðar annars staðar.

Hverju mun þetta skila í raun? Spá mín er sú að þetta muni skila miklu lægri upphæð af því að menn munu horfast í augu við þann veruleika að það er erfitt fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra að borga fyrir þetta. Og ætli það verði auðvelt fyrir nemanda sem á kannski í erfiðleikum í náminu að koma heim til sín og segja: Ég féll og þarf að taka prófið aftur og þarf fyrir það 1.500 kr.? Er verið að efla sjálfsvirðingu, traust og stolt nemenda með þessu gjaldi? Þetta er þvílík hugsun og þvílík niðurlæging sem þarna er verið að efna til, sérstaklega fyrir þá sem síst skyldi. Vita menn það t.d. að 10% nemenda í framhaldsskólum eiga við lestrarerfiðleika að stríða, m.a. af ástæðum sem eru algerlega óviðráðanlegar eða lítt viðráðanlegar og heita lesblinda? Allt þetta fólk er að berjast á mörkum þess að þrælast í gegnum framhaldsskólann oft og tíðum. Fjöldinn allur af þessu fólki neyðist af þessum ástæðum til að horfast í augu við það að þurfa að taka próf jafnvel aftur og aftur en lýkur þeim oft að lokum með glæsibrag og reynist vera fólk sem stendur sig með prýði og sóma t.d. í háskólanámi eins og við þekkjum dæmi um.

Hér er tillaga um að leggja stein í götu þessa fólks fyrir 32 millj. kr. Ég segi það alveg eins og er: Ef það rennur enn þá blóð í æðum þeirra þingmanna sem eru yfir höfuð í þessum sal fyrir stjórnarflokkana, þá skora ég á þá að taka þetta út. Ég skora á þingmenn stjórnarflokkanna að sjá sóma sinn í því að taka þetta út vegna þess að þetta er atlaga að þeim skólanemendum sem síst skyldi. Ég trúi því ekki að aðrir ráðherrar geri sér grein fyrir því hvað er verið að gera með þessu, ég trúi því ekki. Ég vona að hæstv. menntmrh. hafi verið að gera mistök og sé tilbúinn til þess að leiðrétta þau því að svona kemur maður ekki fram við það fólk. Svona gerir maður ekki, var einu sinni sagt, og það á við í þessu tilviki. Ég skora á hæstv. menntmrh. að henda þessari grein út og ég skora á þingmenn stjórnarflokkana að strika hana út ef ráðherrann sér ekki sóma sinn í því að taka hana út vegna þess að þetta er þvílík atlaga að sjálfsvirðingu þess fólks sem er að berjast í gegnum framhaldsskólanám við margvíslegar aðstæður sem eru oft erfiðar. En hæstv. menntmrh. setur þessa hluti þannig upp eins og hérna sé um að ræða einstaklinga sem af trassaskap nenna ekki að taka prófin sín. En þannig eru hlutirnir ekki. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er það þannig að framhaldsskólinn á að vera fyrir alla. Með þessu er verið að segja: Þeim sem hlekkist á einu sinni á að henda út. Það á a.m.k. að gera þeim eins erfitt fyrir og mögulegt er að halda áfram. Þetta er ekki hægt, hæstv. forseti.

Í öðru lagi vildi ég víkja að greininni um málefni fatlaðra. Já, hæstv. forseti. Það er mikill völlur á hæstv. félmrh. þegar kemur að málefnum fatlaðra (Félmrh.: Það er ekki að ástæðulausu.) og hann sér ekki einu sinni sóma sinn í að láta það vera að vera með frammíköll af því tagi sem hann var með núna sem sýnir að hann gerir sér enga grein fyrir því hvað hann er að gera. En samt er engin ástæða til að fyrirgefa honum vegna þess að hann ber ábyrgð á málinu. Í grein í Morgunblaðinu í dag segir formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Guðmundur Ragnarsson, með leyfi forseta:

,,Skerðing sjóðsins nú er hins vegar meiri en nokkru sinni fyrr og það þrátt fyrir að tekið sé tillit til þess að rekstri hafi verið létt af sjóðnum.`` Hann segir enn fremur: ,,Er um að ræða aukna skerðingu milli ára um a.m.k. 140 millj. kr.`` Og hann segir líka: ,,Nú hefur verið boðuð sú stefnubreyting að fresta því að íbúar Kópavogshælis fái aðra búsetu og er það algerlega óviðunandi og svik við þá sem þar búa, aðstandendur þeirra og starfsfólk stofnunarinnar.`` Hann vitnar enn fremur í sjónvarpsviðtal við hæstv. félmrh. þar sem hæstv. félmrh. upplýsti það að þess væru dæmi að einn einstaklingur kosti 10 millj. á ári og það finnst mér mikið þegar litið er til þess að sumir hafa hér um bil ekki neitt.

Ég vil segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér þóttu þessi ummæli athyglisverð og ég vona að hæstv. félmrh. hafi beðist afsökunar á þeim einhvers staðar vegna þess að svona talar maður auðvitað ekki um þá sem njóta þjónustu á vegum málaflokksins fatlaðir og félmrn. Það gerir maður ekki. En þegar formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar gagnrýnir málin með þeim hætti sem hann gerir í Morgunblaðsgrein í dag, hvað segir þá félmrh. við hann? Tók hæstv. forseti eftir því? Hæstv. félmrh. sagði við formann Þroskahjálpar: ,,Er hann að stofna stjórnmálaflokk? Er maðurinn kominn í stjórnmálaflokk?`` Hann er með öðrum orðum að segja: Sá sem er ekki með mér er á móti mér. Hann er með öðrum orðum að segja: Sá sem leyfir sér að gagnrýna mig á vegum hagsmunasamtaka eins og Þroskahjálpar skal nú komast að því fullkeyptu þegar ég fæ tök á því að sýna valdið.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé næsta einstætt að ráðherra hafi með þessum hætti uppi orð og ummæli um forustumenn hagsmunasamtaka sem setja mál sín fram með rökum eins og formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar gerir í Morgunblaðinu í dag. Ég skora á hv. þm. sem hér eru viðstaddir og hafa ekki þegar gert það að lesa þessa grein.

Guðmundur Ragnarsson er vandaður maður og vandar þessa grein. Hún er málefnaleg og nákvæm. Hún segir hvernig er verið að fara með sjóðinn. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. félmrh. að það hefur verið farið illa með sjóðinn áður en það bætir ekki málið, það bætir ekki um fyrir hæstv. félmrh. Það er auðvitað rétt sem hæstv. félmrh. segir að það var slæmt þegar sjóðurinn var á síðustu árum var tekinn í rekstur að nokkru leyti. Það var mjög slæmt. Það var gagnrýnt af okkur talsmönnum Alþb. á þeim tíma og af talsmönnum Framsfl. mjög harðlega á þeim tíma og af talsmönnum Kvennalistans ef ég man rétt. En það breytir því ekki að veruleikinn er sá að Framkvæmdasjóður fatlaðra er að verða að engu. Miðað við þær skyldur sem hann hafði er hann að verða að engu, er að verða veikari og veikari og það ljóta í dæminu er það að með þessum vinnubrögðum er verið að svíkja fólk sem hafði fengið fyrirheit um aðra hluti samkvæmt þeirri grein sem birtist eftir Guðmund Ragnarsson í Morgunblaðinu í dag. Það er verið að svíkja, segir Guðmundur Ragnarsson, það fólk sem hafði treyst því að um breytingar yrði að ræða á heimilum margra þeirra einstaklinga sem hafa dvalist á Kópavogshælinu.

[17:30]

Að minnsta kosti nokkur okkar í þessum sal hafa tekið þátt í því að móta þá stefnu að það fólk sem var á Kópavogshælinu fengi aðstöðu annars staðar á sambýlum og víðar í samfélaginu. Það var full sátt um þá stefnu. Ég man eftir því að við vorum gagnrýnd fyrir það, m.a. við sem vorum í stjórnarandstöðu, að við vildum ganga of hægt fram í þeim efnum vegna þess að við vildum ekki gefa fyrirheit um annað en við gætum staðið við. Ég man eftir afar sárum fundi sem haldinn var um þessi mál á vegum Þroskahjálpar, einmitt suður í Kópavogi, fyrir fáeinum árum. Samt sem áður var það þannig að það var gengið frá tilteknum samningum, tilteknum yfirlýsingum, tilteknum loforðum. Og hvað er að gerast núna? Það er verið að skera sjóðinn þannig niður að verið er að svíkja þessi fyrirheit og það er slæmt, hæstv. forseti.

Ég hef senn lokið ræðutíma mínum, ég á eftir eina mínútu. Ég bað um það í upphafi ræðu minnar, sem hefur þá staðið væntanlega í 19 mínútur til þessa, að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna. Hann er ekki kominn enn. Mér finnst það slæmt að málflutningi stjórnarandstöðunnar sé sýnd lítilsvirðing af þessu tagi, sérstaklega þegar beðið er um það að menn komi í salinn. Ég tek fram að ég á eftir að ræða ýmis mál í frv., t.d. alveg ótrúlegan kafla um heilbrigðismál sem er m.a. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, en samkvæmt honum má heilbrrh. gera það sem henni sýnist. Það er afar nýstárleg lagasmíð svo ekki sé meira sagt, hæstv. forseti. Tíminn leyfir það ekki en mér þykir leitt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér í salnum og bendi á þann möguleika að fresta þessum umræðum þar til hæstv. ráðherra kemur í salinn því að hann er flutningsmaður málsins.