Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 17:44:44 (972)

1996-11-07 17:44:44# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SHl
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[17:44]

Sigurður Hlöðvesson:

Virðulegi forseti. Hér er á dagskrá frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. svokallaður bandormur. Ég get sagt fyrir mig að mér finnst hann nokkuð sérstakur fyrir þær sakir að óvenjulítið er seilst í vasa sveitarfélaganna en það hefur verið gert árvisst svo langt sem ég man eða síðan ég fór að fylgjast með þessum málum. Á undanförnum árum hefur ítrekað verið gerð aðför að sveitarfélögunum ýmist með því að skerða tekjur þeirra eða með því að flytja verkefni til þeirra án þess að þau fái tekjur til að standa undir þeim. Þó hangir enn yfir smá angi í bandorminum sem bitnar hart á fámennum sveitarfélögum. Það er í 27. gr. þar sem ákvæði er um að hætta 50% þátttöku í refaveiði. Alls er þarna um að ræða 19 millj. kr. sem ríkissjóður ætlar að spara og um leið að velta yfir á sveitarfélögin. Ég ætla ekki að fara í umræður um það hvort friða eigi refinn eða ekki, það finnst mér svo fráleitt. Þó menn komi hér og grínist með að hér eigi að friða refinn þá held ég að það sé eitthvað sem við hlustum varla á, að minnsta kosti ekki þeir sem þekkja til úti á landsbyggðinni og heyra í fólki sem býr í þeim sveitarfélögum þar sem eyðilegging af völdum refa er hvað mest. Málflutningur sumra Reykjavíkurþingmanna hér um að það eigi að friða refinn er fráleitur. Ég held að það væri hugsanlegt að þeir mundu fá sér ref í garðinn sinn en þó held ég að það sé of slæm meðferð á refnum.

Í fámennum sveitarfélögum getur það verið stór hluti af tekjum sem fer í þetta. Það var nefnt dæmi fyrr í umræðunni að í Þingvallasveit færu 10% af brúttótekjum sveitarfélagsins í að greiða þau 50% sem því ber að standa skil á. Með öðrum orðum að þegar ríkissjóður hættir að greiða sín 50% hækkar þetta um helming, þá fara 20% af brúttótekjum sveitarfélagsins í að greiða fyrir eyðingu refa. Ég ætla ekki að í þessum sveitarfélögum sé fólk að stunda refaveiðar að gamni sínu eingöngu. Ég hygg að þeir sem eru að hugsa um skepnur sínar séu fyrst og fremst að gera þetta vegna þess að refurinn er vágestur í högunum og honum ber að halda í skefjum. Friðun refsins mundi leiða mikinn vanda yfir þessi sveitarfélög.

Virðulegi forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um fleiri greinar í bandorminum. Ég vil taka til við 2. gr. þar sem er heimild til framhaldsskóla um að innheimta sérstakt 1.500 kr. endurinnritunargjald. Ég get upplýst að í þingmanna\-rallýi á Norðurl. v. var þessum skatti gefið ágætt heiti, það var bágindaskattur. Þetta er mjög óréttlát skattheimta sem bitnar harðast á þeim sem af ýmsum sökum geta hugsanlega ekki stundað námið af kostgæfni. Þar vil ég t.d. nefna þá sem þurfa vegna efnahagsaðstæðna að vinna með námi en mjög stór hópur framhaldsskólanema er nauðbeygður til að vinna með námi til að geta framfleytt sér og stundað nám. Með öðrum orðum er verið að skattleggja fátæktina með þessum sannkallaða bágindaskatti. Auk þess get ég tekið undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar um að þetta bitnar verulega illa á þeim sem eiga af öðrum ástæðum erfitt með nám, t.d. þeir sem eru lesblindir. Því er þessi skattur á allan máta mjög vondur og væri réttast að kasta honum út þegar í stað.

Ég vil líka fara nokkrum orðum um þær greinar sem snúa að heilbrigðisgeiranum, þ.e. 15.--20. gr. Í þessum greinum er byggð upp lagastoð m.a. til að geta staðið við ákvæði fjárlagafrv. um að skera niður um 160 millj. kr. á sjúkrastofnunum úti á landsbyggðinni. Mér finnst full ástæða til að mótmæla þeirri lagasetningu. Það er kominn tími til að hætta þessari göngu. Við erum komin á enda götunnar. Það verður ekki skorið meira niður hjá sjúkrastofnunum úti á landsbyggðinni nema skera niður þjónustuna. Því er eflaust haldið fram að skýrslur og greinargerðir sýni að spara megi á þessu sviði. Ég hef raunar heyrt af einni slíkri sem segir að það megi spara 320 millj. kr. hjá sjúkrastofnunum úti á landsbyggðinni en nú sé aðeins farið hálfa leið og það ætti þá væntanlega að vera létt verk. Því miður hafa allar þessar skýrslur verið í veigamiklum atriðum rangar, úr öllu samhengi við raunveruleikann og verið hraktar í veigamiklum atriðum.

Í þingmannarallýi sem ég nefndi hér áðan fóru m.a. þingmenn á Norðurl. v. í heimsókn á sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Ég tel mig þekkja nokkuð vel til rekstrar heilsugæslunnar á Norðurl. v. og fullyrði að þar er mjög vel farið með, þar er ýtrasti sparnaður í rekstri og þar er ekki hægt að skera meira niður nema með því að skerða þjónustuna. Þá fer kannski vel á því að hugsa til þeirrar umræðu sem fór fram um byggðamál hér fyrr í dag í umræðu um skýrslu Byggðastofnunar. Í skýrslunni kom m.a. fram búsetuþróunin á landinu á síðustu tíu árum. Engum blöðum er um það að fletta að stanslaus umræða um niðurskurð í heilbrigðisgeiranum hefur afar slæm áhrif á alla búsetuþróun á landsbyggðinni. Sífellt vofir yfir að þessi þjónusta sé skorin það niður að þjónustan versni og það gefur auga leið að það hefur áhrif á búsetuna. Fólk, sem vildi hugsanlega setjast að úti á landsbyggðinni eða vildi búa þar áfram, hugsar sig tvisvar um þegar það heyrir sífellda umræðu um niðurskurð. Fólk vill ekki flytjast út á land þar sem yfirvofandi er niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það sé kannski skorin af þessi deild eða hin deildin, fæðingar þurfi að fara fram á sjúkrahúsinu sem er í hundrað km fjarlægð frá þéttbýlisstaðnum o.s.frv. Þetta eru hlutir sem hollt er að hugsa um. Ég hygg að þetta sé einn af þeim þáttum sem hefur hvað mest áhrif á búsetuþróun á landinu.

Því hefur verið fleygt fram að tilflutningur á 3.000 manns af landsbyggðinni suður kosti þjóðfélagið 10 milljarða kr. Það kostar eitthvað að leggja byggðir í rúst. Það kostar eitthvað að skilja eftir mannvirki, fasteignir, íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði vegna þess að fólk vill ekki búa þar lengur. Þá þarf á sama hátt að byggja þetta upp á öðrum stað auk þess sem byggja þarf upp aukna þjónustu af sama tagi og skorin hefur verið niður á landsbyggðinni. Það þarf þá að byggja þjónustuna upp í Reykjavík ef flutningurinn er í þá átt. Það þarf að byggja umferðarmannvirki og margt þarf að gera til að taka á móti þessari búsetuþróun. Ég held því að það væri hollt fyrir hæstv. ráðherra Framsfl. að hugsa um það hvort þessi sífelldi niðurskurður úti á landsbyggðinni í heilbrigðismálunum er framlag flokksins til byggðastefnu.