Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:02:54 (975)

1996-11-07 18:02:54# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef skoðuð eru lög um heilbrigðisþjónustu kemur þar fram að nú þegar hefur ráðherra allvíðtækar heimildir til að beita reglugerðum við útfærslu þeirra laga og breytingin er því ekki eins mikil og hér gæti virst þótt nokkrir þættir séu sérstaklega til nefndir. En ef lögin um heilbrigðisþjónustu eru skoðuð kemur fram í lokagrein þeirra að fyrir hendi eru allvíðtækar heimildir ráðherrans nú þegar til að beita reglugerðarvaldi við útfærslu laganna þannig að þarna verða engin kaflaskipti.

Ég svaraði heldur ekki hv. þm. varðandi það hvort verið væri að undirbúa jarðveginn varðandi 8. og 9. gr. vegna hugsanlegs flutnings málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga sem hefur ekki verið neins staðar endanlega rædd þó að margir hafi látið í ljós þær skoðanir að vel gæti farið á því að sveitarfélögin önnuðust meira þennan málaflokk en nú er. Það er auðvitað ekki verið að stíga nein skref í því sambandi til þess að gera sveitarfélögunum slíka yfirtöku erfiðari ef til kæmi.

Um 11. gr. er það að segja að í gildandi lögum segir að við endurskoðun fjárlaga skuli endurskoða hámarksbætur atvinnuleysisbóta og verið er að uppfylla þessa lagaskyldu sem menn eru að fylgja fram hér og hækkunin er í samræmi við þær verðbreytingar sem orðið hafa á tímabilinu og það sama má reyndar segja um 14. gr.

Varðandi það sem vitnað var til fjárlaganna þá er sú tala, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh., sem notuð er sem uppfærslutala í fjárlögunum eingöngu viðmiðunartala, reikningstala, og segir ekkert, spáir ekki einu sinni um það hvað ríkisstjórnin, Þjóðhagsstofnun eða aðrir aðilar, ímynda sér að launabreytingar muni verða á tímabilinu. Verði launabreytingar á tímabilinu sem verða úr takt við þetta þá hafa menn heimild til að grípa þar inn í og í síðasta lagi við næstu fjárlög ber mönnum að endurskoða taxtann.