Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:06:30 (977)

1996-11-07 18:06:30# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:06]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan kom ég á framfæri athugasemdum varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra og fleiri þætti. Sömuleiðis minntist ég aðeins á heilbrigðismálaþáttinn sem hefur verið ræddur talsvert af öðrum þannig að ég ætla ekki að bæta neinu við það sem ég sagði áðan að öðru leyti en því að ég harma að ráðherrarnir skuli ekki hafa svarað fyrir sig, hvorki hæstv. félmrh. né hæstv. menntmrh., sem er vonandi til marks um að þeir séu sammála um þær ábendingar sem fram komu frá mér og séu að íhuga þær. (Gripið fram í: Um hvað?) Um að Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi aldrei verið verr leikinn en núna eins og formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar segir í Morgunblaðinu í dag. Sömuleiðis vænti ég þess að hæstv. menntmrh. taki 2. gr. frv. aftur. Hún er satt að segja algjörlega ófær.

Ég kvaddi mér hér aðallega hljóðs til að hvetja alla hæstv. ráðherra til að íhuga 2. gr. frv., um þetta prófa- og endurtekningargjald eins og ég held að það sé kallað. Þetta gjald gengur ekki. Þetta er mjög vont gjald. Þetta er gjald sem leggst á þá sem síst skyldi eins og hv. þm. Sigurður Hlöðvesson rakti hér áðan. Þetta leggst á þá sem af einhverjum ástæðum eiga í erfiðleikum með að taka próf við þau skilyrði sem búin eru á hverjum tíma. Stundum getur það verið af efnahagslegum ástæðum, stundum af öðrum ástæðum sem eru algjörlega óviðráðanlegar og ég rakti í máli mínu áðan. Stundum af báðum þessum ástæðum, þ.e. bæði af efnahagslegum ástæðum og því að viðkomandi séu fatlaðir eða eigi af öðrum ástæðum erfitt með að taka próf og verði að taka þau þess vegna aftur og aftur. Í fullri einlægni, hæstv. forseti, að ráðherrunum viðstöddum og ekki síst hæstv. forsrh., ég bið um að þetta verði strikað út. Ég fer fram á það að ráðherrarnir sýni þá sanngirni að þetta verði strikað út. Þetta gengur ekki, hæstv. forseti. Þetta væri þvílík skömm og þvílík smán fyrir ríkið, fyrir menntakerfið að innleiða þennan endurtekningarskatt að það gengur alls ekki. Ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að hafa vit fyrir ráðherrum sínum í ýmsum efnum, m.a. þessu, og strika greinina út. Hún er hneisa, hæstv. forseti.