Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:09:21 (978)

1996-11-07 18:09:21# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:09]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég svaraði því rækilega áðan hv. 8. þm. Reykv. hvernig málefnum fatlaðra er háttað varðandi fjárlög næsta árs. Til málefna fatlaðra verður varið 190 millj. meira á árinu 1997 en gert er í ár. Að vísu er rétt að hægt er að finna það út að talan sem merkt er á Framkvæmdasjóð í fjárlagafrv. er lægri en talan sem var merkt á hann í fyrra, en það er líka létt af honum skyldum. Það sem máli skiptir er það að til málefna fatlaðra í heild fer 190 millj. kr. meira á næsta ári en í ár. Þessi málaflokkur hefur algeran forgang í félmrn. og er eini málaflokkurinn sem hækkar í líkingu við þetta því að þetta eru aðhaldssöm fjárlög og við erum ákveðnir í því að reyna að afgreiða þessi fjárlög hallalaus. Það er alveg þýðingarlaust að taka einn þátt úr úr og staglast alltaf á honum. Það er heildarmyndin sem menn verða að horfa á.

Ég veit ekki hvort ég á að fara að ræða svikabrigsl sem hv. 8. þm. hafði uppi í ræðu sinni fyrr í dag. Ég hef ekkert svikið. Það var gerður samningur um útskrift 37 vistmanna á Kópavogshæli af forvera mínum án þess að til þess væru neinir peningar merktir því. Þetta var gert í hita kosningabaráttunnar. Ég tel mig bundinn af þeim samningi og verið er að útskrifa þetta fólk af Kópavogshæli. Það er það eina sem loforð hefur verið um. Vangaveltur um það hverjar áherslurnar eigi að vera og það er stefnt að því að halda áfram útskriftum af Kópavogshæli en hins vegar er ekki búið að gera neina samninga þar um. Það er full ástæða til að velta vöngum yfir því hvort það er rétt, hvort fötluðum er meiri greiði gerður með því að útskrifa alla sem allra fyrst af Kópavogshæli eða hvort ástæða er til að sinna þeim sem enga þjónustu fá eða litla. Ég tók aldeilis við biðlistum þegar ég kom í þetta ráðuneyti, þeir hafa ekki orðið til í minni tíð. Þeir hafa styst í minni tíð. Mér er mjög umhugað um að reyna að bæta úr neyðarástandi sem sums staðar hefur komið í ljós. Það er t.d. verið að stofnsetja heimili fyrir einhverf börn upp í Tjaldanesi en í þeim málaflokki var neyðarástand og var reynt að bæta úr því. Þetta er bara spurning um forgangsröðun. Við erum ekki ósammála um markmiðið en þetta er spurning um forgangsröðun.

Ég gleymdi að minnast á það í ræðu minni áðan að það er náttúrlega deginum ljósara að sveitarfélögin taka ekkert við málefnum fatlaðra nema samkvæmt samningi þannig að þau fái borið uppi þá þjónustu sem þau þurfa að veita, það er alveg deginum ljósara. Við ætlum ekkert að taka einhliða ákvörðun um að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga. Það gerist að sjálfsögðu í samningum. Hins vegar höfum við fjmrh. komist að samkomulagi við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um að stefna að því að þessi yfirfærsla fari fram 1. jan. 1999. Það er að sjálfsögðu undanskilið að samkomulag verði um yfirfærsluna alveg eins og var með grunnskólann um kostnaðarskiptinguna eða hvernig málið verði fjármagnað. En að þessu er stefnt. Ég vænti þess og sé það reyndar í hendi minni að sveitarfélögin eru ófáanleg að taka við málaflokknum nema fá með honum fé. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Hlöðvessyni fyrir að taka eftir því og nefna það hér að hlutur sveitarfélaganna er ekki fyrir borð borinn í frv. Það er að vísu skerðing á þátttöku ríkisins til refaveiða og það mál gæti þarfnast einhverrar endurskoðunar. Það er ekki verið að friða refinn með þessu frv. heldur er verið að ætlast til þess að sveitarfélögin ein beri þann kostnað sem af refaveiðunum hlýst og sum sveitarfélög fara ansi létt með það. En það hefur komið í ljós að þau sveitarfélög eru til þar sem þessi kostnaður er illviðráðanlegur eða óviðráðanlegur þannig að ekki verður mögulegt fyrir þessi sveitarfélög að halda jafnvægi í náttúrunni með því að fækka ref.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta nægja.