Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:15:53 (979)

1996-11-07 18:15:53# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:15]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir það að bregðast við ræðu minni. Ég tek hins vegar eftir því að hæstv. menntmrh. situr enn þá og segir ekkert við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þessa ótrúlegu 2. gr. frv. en ég ætlaði að beina orðum mínum til hæstv. félmrh. og segja:

Veruleikinn er sá að það er verið að skerða framkvæmdasjóðinn, það er alveg óhjákvæmilegt að horfast í augu við það. Það er verið að gagnrýna það mjög harkalega af formanni Landssamtakanna Þroskahjálpar í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að boðuð hafi verið stefnubreyting í þá átt að fresta því að íbúar Kópavogshælis fái aðra búsetu og er það algerlega óviðunandi og svik við þá sem þar búa, aðstandendur þeirra og starfsfólk stofnunarinnar. Þetta er algerlega skýrt að formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar kveður hér mjög sterkt að orði og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. félmrh. að átta sig á því að hér er um ákveðin tíðindi að ræða þegar málið er sett upp með þessum hætti.

Auðvitað getur hæstv. ráðherra félagsmála reynt að skýla sér á bak við forvera sína sem hafi byrjað á því að skerða framkvæmdasjóðinn og taka hann í rekstur. En það er í raun og veru engin lausn og ekkert svar. Það er ekkert svar fyrir hæstv. félmrh. Framsfl. að skýla sér á bak við forvera sína í þessu efni. Hann einn ber ábyrgð á þeim ákvörðunum sem nú er verið að taka og það er bersýnilegt að í þeim samtökum sem helst sinna þessum málum er mikil óánægja með vinnubrögð ráðherrans að því er þessa hluti varðar.