Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:17:55 (980)

1996-11-07 18:17:55# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Veruleikinn með Framkvæmdasjóð fatlaðra er sá að nú eru hlutirnir kallaðir sínum réttu nöfnum og rekstrarverkefnin eru tekin út úr framkvæmdasjóði en sett annars staðar undir aðra fjárlagaliði. Þar af leiðandi er hægt að finna það út að minna fé sé merkt á framkvæmdasjóðinn en í fyrra, en það eru líka verkefni sem honum er ætlað að vinna. Hlutirnir eru bara kallaðir sínum réttu nöfnum núna og það tel ég vera framför. Það tel ég vera skynsamlegt eins og ég hef rakið þrásinnis áður í dag.

Það hefur ekki nein stefnubreyting verið boðuð varðandi útskriftir á Kópavogshæli. Það sem hefur verið gert er að leitast við að standa við þann samning, þá ákvörðun, sem fyrirrennari minn, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, tók, að útskrifa í fyrsta áfanga 37 vistmenn af Kópavogshæli og er verið að gera það. Það er ekki alveg búið en það eru líkur til að það takist innan skamms. Engin önnur stefnubreyting hefur verið boðuð og það var enginn samningur gerður um meira á Kópavogshæli. Það eina sem ég hef látið frá mér fara eru vangaveltur um það hvort skynsamlegt sé að gera það á undan öðrum verkefnum sem bíða í málefnum fatlaðra.