Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:30:02 (984)

1996-11-07 18:30:02# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:30]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið stuttorður um þetta mál því að það skýrir sig sjálft í greinargerðinni og mín sjónarmið hafa komið fram í umræðunum, bæði um þetta frv. og líka áður. Það sem er aðalatriðið er að hugmyndin er sú að gjaldtakan leiði til markvissari innritunar og auðveldi skipulagningu í kennslu fremur en að leiða til útgjalda nemenda. Eins og hv. þm. nefndi eru fjárhæðirnar, ef hann reiknar þessar tölur eins og hann gerði, sem hann fær út og lenda í útgjöldum nemenda lágar. Aðalatriðið er: Tekst með þessum stjórnunarháttum að skapa það aðhald í skólunum að það verði sparnaður í rekstri þeirra og aukin hagkvæmni? Það er markmiðið með þessu eins og hér hefur margsinnis verið tekið fram og stendur í 2. grein. Og það eru mörg rök fyrir því eins og ég segi, menn geta tekið mörg dæmi úr daglegu lífi til þess að átta sig á því til hvers innheimta á gjöldum getur leitt og hvernig hún getur breytt viðhorfi fólks þegar ákvarðanir eru teknar um margvíslega hluti.

Þegar við veltum fyrir okkur stöðu íslenska skólakerfisins og framhaldsskólans þá stöndum við frammi fyrir því, eins og er imprað á í greinargerðinni einnig, að brottfall nemenda í framhaldsskólanum er óvenjuhátt. Því miður liggja ekki fyrir haldbærar nýjar rannsóknir á því hvað veldur þessu brottfalli og það er nauðsynlegt finnst mér að rannsaka það við núverandi aðstæður og mun ég beita mér fyrir rannsókn á því hvað veldur brottfallinu. Það er mjög misjafnt eftir skólum hvernig þessu brottfalli er háttað og hvaða ástæður eru fyrir því og það er sjálfstætt rannsóknarefni og nauðsynlegt að velta því fyrir sér. Ein ástæðan gæti verið að nemendur velji sér nám sem þeir ráða ekki við og þeir ætli að leggja of mikið undir í sínu námi og það valdi þessu brottfalli. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessum hlutum sem sjálfsagt er að kanna, en ég tel að einmitt með þessum aðgerðum sé unnt e.t.v. og vonandi eins og hér er lýst að stýra þessu betur og ná fram hagkvæmari og betri nýtingu á fjármunum í framhaldsskólakerfinu. Þannig er þessi fjárhæð fundin með útreikningum sem menn geta kynnt sér þegar málið er rætt nánar við sérfræðinga í nefndinni sem ég ætla ekki að fara út í hér, en það er hægt að leiða rök að því að þessi tala geti komið út þegar menn leggja það saman og skoða áfangastærðir, fjölda manna í áföngum og hvernig það þróast eftir ákveðnum skólum. Þetta er alls ekki gert til þess að íþyngja nemendum um of, þvert á móti sem nauðsynlegt stýritæki í skólakerfinu miðað við þróun okkar framhaldsskólakerfis á undanförnum árum.

Það var spurt áðan: Hver fann þetta upp? Ég fann þetta ekki upp. Þetta eru hugmyndir sem hafa verið á döfinni og skólamenn hafa rætt um. Menn hafa velt fyrir sér úrræðum í þessu efni til þess að sporna við þessari þróun því að það er þróun sem skólamenn í sjálfu sér eru ekkert hrifnir af að þetta dreifist ... (Gripið fram í.) Ég nefndi það áður að það væri kannski hugsanlegt að hafa þetta hærra til að fælingarmátturinn væri meiri eins og ég orðaði það í umræðum hér í þinginu. Það er því hægt að velta þessu fyrir sér frá ýmsum sjónarhornum eins og hv. þm. hefur farið að gera þegar hann skilur um hvað málið snýst. Hann virðist ekki hafa skilið það hingað til og kemur það mér í sjálfu sér ekki á óvart.

En það er þetta sem um er að ræða og málið er lagt þannig fram að ráðherrann fái heimild til þess að setja um þetta reglur, m.a. af því að menn vilja að sjálfsögðu taka tillit til þeirra sem búa við fötlun eða annað það sem hér hefur verið nefnt. Ég tek undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að vandamál þeirra sem eru með lesblindu er vandamál sem er að verða skýrara og ótvíræðara í okkar skólakerfi heldur en áður. Lesblinda greinist nú betur en áður og ýmislegt sem menn hafa skýrt á þann veg að væri einkennileg hegðun á e.t.v. rætur að rekja til lesblindu. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að koma til móts við lesblinda nemendur og þarf að gera það betur. M.a. hefur Blindrabókasafnið verið eflt í því skyni og látið útbúa hljóðspólur fyrir lesblinda nemendur og það hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir. Á vegum menntmrn. verður gert enn meira til þess að koma til móts við þá sem eru með lesblindu.

Ég held, herra forseti, að fyrir þessu séu haldgóð rök. Eins og margsinnis hefur komið fram af minni hálfu er markmiðið ekki að íþyngja nemendum með greiðslum heldur að skapa stjórnkerfi í skólunum til þess að ná fram sparnaði og hagræðingu.