Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:52:27 (989)

1996-11-07 18:52:27# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar athugasemdir. Ég hafði heyrt, herra forseti, svör ráðherrans vegna fyrri spurningar um Sjúkrahús Reykjavíkur og heilsugæsluna í Fossvogi. En ég spurði hvort þetta opnaði ekki jafnframt möguleikann á að samþykkja þessa grein að sett yrði sama stjórn yfir Sjúkrahús Reykjavíkur og heilsugæsluna í Fossvogi. Ég hafði heyrt svör ráðherrans um að það væri ekki í bígerð, a.m.k. þessa stundina. En opnar það ekki fyrir þann möguleika að samþykkja þetta? Ég veit að hæstv. ráðherra er með í huga að sameina stjórnir sjúkrahúsa úti á landi og heilsugæslustöðva.

Vegna umræðunnar um stjórnir heilsugæslustöðvanna í Reykjavík þá er ég ekkert að mótmæla því að það geti verið hagræði í því að hafa eina stjórn yfir. En ég vil að þetta verði rætt því að það er ákveðin breyting á stefnumörkun í heilsugæslunni í Reykjavík að hafa þennan hátt á. Ég tel ekki eðlilegt að slíkt fari fram í umræðu með bandormi eða frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég tel það fullkomlega óeðlilegt og hefði talið að sú umræða hefði átt að fara fram sérstaklega og í sérstöku frv. Hefði hæstv. ráðherra ekki þótt eðlilegt að þetta færi þannig í gegnum þingið og það færi fram sérstök umræða um þetta? Ég benti sérstaklega á það vegna þess að borgaryfirvöldum hefur þótt eðlilegt að í stjórnina komi einstaklingar sem búa í þessum umdæmum og þekkja svæðið og þekkja þá þjónustu sem veitt er í hverju heilsugæsluumdæmi. Þetta er bara innlegg í þessa umræðu og hún þyrfti auðvitað að verða miklu meiri og víðtækari áður en farið er út í svona breytingar.