Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:03:24 (994)

1996-11-07 19:03:24# 121. lþ. 20.4 fundur 50. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. frumvarpsflytjandi nefndi það sem meginröksemd máli sínu til stuðnings að þar sem ekki væri skylt að kjósa hér eins og sums staðar er skylt, megi af því draga þá ályktun að kjósandinn hljóti að eiga þann rétt að ekki sé með því fylgst og ekki sé haft eftirlit með því hvort hann kjósi eða ekki. Þar sem það er skylt að menn kjósi, þá er haft eftirlit með því. Og hver hefur eftirlit með því? Það hefur hið opinbera. Hjá okkur, þar sem ekki er skylt að kjósa --- það er ekki þegnskylda eins og sums staðar er, ekki bara eins og var í austantjaldsríkjunum heldur er það þannig til að mynda, ef ég veit rétt, t.d. í Belgíu --- hefur hið opinbera eftirlit með því hvort menn kjósi. Það er fært inn á skrá af hálfu þriggja manna, kjördeildarstjórans og tveggja aðstoðarmanna þannig að þeir hafa eftirlit með því að það sé kosið. Frumforsendan sem hv. þm. gaf sér er því ekki fyrir hendi. Það er bara merkt við. Ég veit ekki annað en skráin sé geymd. Ég hef reyndar ekkert spurst fyrir um það. En það er svo sannarlega haft eftirlit með því.

Númer tvö vil ég nefna, vegna þess að um þetta hefur stundum verið misskilningur, að þegar fulltrúar lýðfrjálsra landa hafa gerst eftirlitsmenn hjá ríkjum þar sem verið er að kjósa lýðræðislega í fyrsta eða annað sinn, þá skila þeir skýrslum. Yfirleitt er fyrsta atriðið sem nefnt er í þeim skýrslum að flokkar hafi fengið að hafa fulltrúa sína í kjördeild. Við erum hins vegar svo sósíalíseruð hér, Norðurlandabúar og Norður-Evrópumenn, að við treystum ríkinu fullkomlega. Það ætti mér sem einum helsta forsvarsmanni ríkisins að þykja vænt um. En þetta er ekki hinn sjálfgefni hlutur.

Eftirlitsmenn flokkanna í kjördeildum eru hafðir til þess að fylgjast með því að ríkisvaldið, sem áður hafði öll tögl og hagldir, fari rétt með. Fulltrúar frambjóðendanna fá sem sagt umboð til þess að fylgjast með því að ríkisvaldið sem á að sjá um kosningarnar eða sveitarstjórnarvaldið sem stundum er, fari að öllum lögum og gæti réttar. Ef það væri til að mynda bannað að hafa fulltrúa flokka, þ.e. fulltrúa frambjóðenda í kjördeildum, þá færi ekkert slíkt eftirlit þar fram. Þetta er hugsunin á bak við þetta. Þetta stunduðu allir flokkar hér mjög lengi. Síðan urðu sumir flokkar minni og félagslegar heildir þeirra minnkuðu og þeir höfðu ekki mannskap til að sinna þessu lýðræðislega starfi sem lagt er á flokkana. Þá breyttu þeir um afstöðu sumir hverjir og fóru að auglýsa að þeir ætluðu ekki að njósna í kjördeildunum og sögðu þar með að þeirra fyrrverandi forustumenn og þeir sjálfir hefðu setið og njósnað um fólk í kjördeildunum hér á árum fyrr. Ég er ekki að segja að flokkur hv. þm. hafi haldið þessu fram og ég hygg reyndar að sums staðar hafi sá flokkur menn í kjördeildum. En þetta var auglýst. ,,Við ætluðum ekki að njósna í kjördeildunum``, sögðu þeir flokkar sem ekki höfðu lengur mannskap til að sinna þessu verkefni sem er nauðsynlegt að frambjóðendurnir hafi út frá meginreglum.

Öll þessi umræða hefur ruglast og ruglað menn í ríminu þannig að það fer fram eftirlit í kjördeildinni af hálfu þriggja opinberra aðila, hvort menn kjósi. Þær upplýsingar liggja fyrir þannig að viðbótarupplýsingarnar eru kannski ekkert mjög hættulegar þó að það séu fulltrúar frambjóðendanna sem viti hvort réttir aðilar séu að kjósa eða hvort til að mynda aðrir eru að kjósa fyrir menn eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson gat um áðan réttilega að því miður gerðist hér.

Þessu vildi ég koma að eins og stundum er sagt í fullri vinsemd, svona í þágu röksemdanna og má vel vera að ég hafi lengt umræður, en það getur ekki verið skaði. Þetta er þess háttar mál að það er þarft að ræða það.