Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:11:11 (996)

1996-11-07 19:11:11# 121. lþ. 20.4 fundur 50. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:11]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef ekki mikið við það að bæta sem hv. málshefjandi fór hér allt réttilega með. Ég vil aðeins nefna vegna þess að það hefur, ekki af hálfu málshefjanda, stundum verið nefnt í þessari umræðu að menn hafa talið að menn væru að koma í veg fyrir að kosningar væru leynilegar. En auðvitað eru kosningar jafnleynilegar eftir sem áður því að menn kjósa í einrúmi. Sums staðar hins vegar er ekki eftir því sem ég best veit heimilt að hafa leynilegar kosningar. Ég held að það sé rétt hjá mér að í þessum sal til að mynda sé ófært að fá fram leynilegar kosningar. Og stundum hefur því verið haldið fram að þegar ríkisstjórn hefur nauman meiri hluta, þá sé ekki endilega víst, ef kosningar væru hér leynilegar, að ríkisstjórnin héldi alltaf velli í hverju máli fyrir sig. Það má vel vera að mér þingreyndari menn segi að hér sé hægt að hafa leynilegar kosningar. Ég kannast ekki við það.