Réttur til launa í veikindaforföllum

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:19:12 (1001)

1996-11-07 19:19:12# 121. lþ. 20.7 fundur 16. mál: #A réttur til launa í veikindaforföllum# (læknisfræðilegar aðgerðir, líffæragjafar, sjómannalög) frv., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:19]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga, um rétt til launa í veikindaforföllum, í fjarveru 1. flm. Hjörleifs Guttormssonar.

Frumvarp þetta var upphaflega flutt á 118. löggjafarþingi og aftur á 120. löggjafarþingi, með smávægilegum breytingum og er frumvarpið nú endurflutt nær óbreytt frá 120. þingi. Markmið með frumvarpinu er tvíþætt. Annars vegar er lögð til lagabreyting sem stuðlar að því að jafna rétt launafólks hér á landi til launa í veikindaforföllum. Hins vegar er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um rétt tiltekins hóps manna, heilbrigðra líffæragjafa, og þeim veittur lagalegur réttur til launa sem um veikindaforföll væri að ræða. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi þróunar hér á landi undanfarinn áratug.

Um rétt launafólks til launa í veikindaforföllum gilda lög nr. 19/1979, sem ná til landverkafólks, lög nr. 35/1985, sem gilda um sjómenn, og lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Auk þess eru í flestum kjarasamningum ákvæði um rétt til launa í veikindaforföllum.

Í stuttu máli má segja að þróun undanfarinna ára hafi aukið misrétti milli einstakra hópa launafólks hvað varðar rétt til launa í veikindaforföllum. Það byggist annars vegar á því að lögbundinn réttur verkafólks og sjómanna á þessu sviði hefur verið túlkaður mjög þröngt fyrir dómstólum og hins vegar á því að þessum hópum hefur ekki verið tryggður réttur í samræmi við þróun á sviði nútímalækninga. Hvað varðar fjarveru af völdum tæknifrjóvgunar er langt frá því að verkafólk og sjómenn njóti sama réttar og starfsmenn ríkis og bæja og í raun hefur þróunin í heild leitt til þess að verkafólk og sjómenn hafa nú lakari rétt en almennt gerist og lakari rétt en ráða má af lagafyrirmælum. Þannig hafa hugtökin ,,sjúkdómur`` og ,,óvinnufærni`` í lögum nr. 19/1979 og sjómannalögum frá 1985 verið túlkuð afar þröngt af dómstólum og beinlínis hefur verið um misvísandi túlkanir að ræða sem gerir það að verkum að réttarástandið er tiltölulega óljóst á þessu sviði. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögin tryggi þeim ekki rétt sem að læknisráði gangast t.d. undir hjartaþræðingu eða rannsókn vegna magasárs. Fjarvistir vegna munnskurðaðgerðar, kjálkaaðgerðar eða ísetningar nýs gerviauga hafa ekki verið taldar veita rétt til launa í veikindaforföllum. Þá hefur tæknifrjóvgun ekki talist til greiðsluskyldra forfalla þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi, en eins og að framan er getið fá opinberir starfsmenn greidd laun í forföllum vegna tæknifrjóvgunar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem tryggja eiga rétt launafólks til greiðslu launa í forföllum að læknisráði án þess að gert sé að ófrávíkjanlegu skilyrði að viðkomandi sé óvinnufær. Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að réttur heilbrigðra líffæragjafa verði tryggður sérstaklega.

Eins og að framan greinir hafa opinberir starfsmenn fengið viðurkenndan rétt til greiðslu launa vegna forfalla vegna tæknifrjóvgunar sem eru að vissu leyti einnig aðgerðir sem einstaklingar velja sjálfir hvort þeir gangast undir. Heilbrigðir líffæragjafar hafa þó algera sérstöðu þar sem þeir gangast heilbrigðir undir aðgerð til hjálpar þriðja manni, ef til vill ekki beinlínis að ráði læknis, þó að um geti verið að ræða að verið sé að bjarga lífi annarrar manneskju. Sú breyting, sem hér er lögð til, á því fyrst og fremst rætur að rekja til mannúðarsjónarmiða.

Herra forseti. Ég legg að lokum til að máli þessu verði vísað til hv. félmn. og ég hvet formann nefndarinnar sem er hér stödd, hv. þingkonu, Kristínu Ástgeirsdóttur, að gangast í að þetta mál verði afgreitt í nefndinni. Það kom til nefndarinnar í fyrra og var ekki afgreitt þar vegna djúps ágreinings sem kom upp milli annars vegar samtaka launafólks og hins vegar atvinnurekenda þegar umsagnir tóku að berast til nefndarinnar um málið og sá ágreiningur er væntanlega enn til staðar. Ég veit ekki til að nein breyting hafi orðið þar á. En réttaróvissan er fyrir hendi og löggjafinn verður að taka af skarið í þessu máli. Lögin eru óskýr, dómstólaframkvæmdin er misvísandi og hefur leitt til enn frekari óskýrleika og aðilar vinnumarkaðarins hafa verið algjörlega á öndverðum meiði í málinu og þar af leiðandi hefur ekki verið grundvöllur fyrir því að samkomulag náist. Ég hvet því hv. félmn. til að gangast í þetta mál og sjá til þess að það verði afgreitt út úr nefndinni.