Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:29:32 (1003)

1996-11-07 19:29:32# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:29]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um lágmarkslaun á þskj. 89. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Guðmundur Árni Stefánsson.

1. gr. er svohljóðandi: ,,Heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skulu ekki vera undir 80.000 kr. fyrir fulla dagvinnu.``

2. gr. er: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. mars 1997.``

[19:30]

Já, herra forseti, ég mæli fyrir frv. um lágmarkslaun. E.t.v. ætti að ræða um lágmarkstekjur fyrir fulla dagvinnu í einn mánuð eða tekjusamsetningu launa fyrir átta stunda vinnudag. Ég hef fullyrt að fjöldi fólks nær ekki 55 þús. kr. tekjum á mánuði fyrir dagvinnuna. Við það stend ég fullkomlega því að rannsóknir sýna að svo er og vísa ég til svara Félagsvísindastofnunar þar að lútandi. Það hefur verið sagt að örðugt sé að skilgreina hvað er fátækt. Menn hafa sagt að þarfir séu svo mismunandi að einn getur komist vel af með tekjur sem annar nær ekki saman endum með. Það getur verið rétt, þetta fer eftir aðstæðum. Ég vil samt fullyrða að sá sem þarf að greiða skatt af 60 þús. kr. tekjum er fátækur. Sá sem hefur svo lítið á milli handanna að hann getur ekki sparað er fátækur. Herra forseti, sá sem getur ekki leyft sér að fara í kvikmyndahús, leikhús, veitingahús fjórum til sex sinnum á ári er fátækur. Sá sem getur ekki leigt sér litla íbúð, haft sjónvarp og síma auk fæðis og klæðis er fátækur. Aðra skilgreiningu en þá sem ég hef sett hér fram þarf ekki. Ef laun eru svo lág að ekki sé unnt að fullnægja slíkum lágmarksþörfum er um fátækt að ræða.

Herra forseti. Útspil Vinnuveitendasambands Íslands miðvikudaginn 30. október er fullkomin ástæða til þess að verkalýðsfélögin, almenningur, þingmenn og ríkisstjórn landsins bregðist hart við. Hafi einhvern tíma verið ástæða til að setja lög um lágmarkslaun er hún til staðar núna. Vinnuveitendasamband Íslands boðar 3,5--4% launahækkun á almenn samningsbundin laun. Vita menn að lægstu samningsbundin laun eru 49.700 kr. fyrir fulla vinnu á byrjunartaxta í heilan mánuð? Vita menn það? Vita menn að þar sem kaupfélög eru enn til greiða þau flestum starfsmanna sinn laun sem eru undir 60 þús. kr. á mánuði? Sláturhús, ígulkeravinnslur og mörg atvinnufyrirtæki greiða lágmarkstaxta vegna þess að þeir eru til staðar.

Hver er svo viðbótarboðun Vinnuveitendasambandsins? Framkvæmdastjóri þess sagði í sjónvarpsþætti sl. vor að 50 þús. kr. lágmarkslaun væru siðferðislega verjandi. Ætli einhverjir hv. alþm. séu sammála því? Ef einhver finnst á Alþingi sem er sammála því að það sé siðferðislega verjandi að greiða 52 þús. kr. lágmarkslaun skora ég á hann að koma hér og svara fyrir það. Ég trúi því ekki, þegar einstaka þingmenn eru með í aukagreiðslur fyrir stjórnarsetu í hinum ýmsu ráðum eða stjórnum meira en lægstu laun verkamanns, að hér sé einhver á hv. þingi sem vill svara á sama máta og formaður Vinnuveitendasambands Íslands.

Í komandi kjarasamningum verður farið fram að leggja af neysluhlé eða breyta þeim. Það er farið fram á óskilgreinda hagræðingu, breytingu á vinnutíma og fjölmargt annað. En á sama tíma er stríðshanska kastað framan í verkafólk með tilboði um 3,5--4% launahækkun. Ef greidd eru mannsæmandi laun, sem ég met að séu 80 þús. kr. á mánuði fyrir átta stunda dagvinnu, mun fólk verða reiðubúið til ýmiss konar hagræðingar. En fyrir 52 þús. kr. laun eða tæplega það sem ná ekki einu sinni atvinnuleysisbótum fæst fólk ekki til vinnu.

Herra forseti. Ég hef fyrir því fulla vissu að verkalýðsforustan á Íslandi íhugar alvarlega að það verði að lögbinda lágmarkslaun á sambærilegan hátt og gert er í Frakklandi og í Bandaríkjunum miðað við þau skilyrði sem Vinnuveitendasamband Íslands boðar.

Herra forseti. Ég minni á að frambjóðendur til embættis forseta Íslands sögðu allir sem einn í kosningabaráttu sinni að það yrði að hækka lægstu laun verulega. Hæstv. forsrh. Íslands, Davíð Oddsson, sagði í hátíðarræðu sinni 17. júní sl. að það yrði að hækka verulega lægstu laun og bæta kjör öryrkja og aldraðra. Það er heilög skylda allra aðila að standa við stóru orðin í þessum málum. Það er skylda sérhvers alþingismanns að taka undir þá kröfu að lægstu laun verði hækkuð verulega án þess að þeir sem hærra eru settir fái sömu prósentuhækkun á sín laun.

Herra forseti. Ég er ekki að slá mig til riddara með þessum málflutningi. Ég er ekki, herra forseti, að sýnast einhver frelsisengill enda hefur frv. um lágmarkslaun verið flutt áður en þó í öðru formi. Ég tel þvert á móti til skammar að þurfa að flytja svona mál á hinu háa Alþingi þó að málum sé svo komið að ekki verður undan vikist.

Virðulegi forseti. Í bók sinni Life begins at forty eftir Walter Boughton Pitkin er sagt, með leyfi forseta: ,,Eins og nú er málum háttað verður fólk að eyða ævidögum sínum í að hafa sér til hnífs og skeiðar. Einstöku sinnum fær fólk smáfrí sem ekki er annað en vökusvefn.`` Sú bók sem vitnað er í er skrifuð árið 1932. Ástandið er enn svo á Íslandi að fólk þarf að leggja nótt við dag til að hafa í sig og á. Því er ástæða til að spyrna við fótum. Þar að auki eru allt of margir sem ekki eiga þess kost að bæta við sig vinnu eins og hefur verið hægt fram til síðustu ára á Íslandi. Þess vegna er frv. flutt, herra forseti. Meginvandi í íslensku þjóðfélagi er fátækt sem stafar af lágum launum. Þau hafa því miður leitt til fólksflótta frá landinu. Einkenni íslensks hagkerfis eru hin lágu taxtalaun. Um nokkra hríð hefur ekki verið hægt að framfleyta fjölskyldu með lægstu taxtalaunum. Launakerfið á Íslandi hefur einkennst af umfangsmiklum feluleik með raunveruleg launakjör og þannig hafa ýmiss konar aukagreiðslur komið til viðbótar við taxtalaun. Annað einkenni á íslensku atvinnulífi er hve langan vinnutíma íslenskir launamenn hafa unnið eða vinna. Í samanburði sem gerður var milli Íslands og Danmerkur kom í ljós að launamaður hérlendis vinnur um 50 klst. á viku að meðaltali en danskur launamaður 39 klst. Þetta sýnir að íslenskur launamaður vinnur að jafnaði 10 vikum lengur en danskur launamaður á ári hverju. Lífskjörum hér á landi, sem eru betri en launin gefa til kynna, er þannig auðljóslega fyrst og fremst haldið uppi með löngum vinnudegi. Hjálparstarf hefur sífellt aukist innan lands vegna bágs ástands. Samkvæmt upplýsingum hjálparstofnana og ýmissa líknaraðila hafa þúsundir einstaklinga notið matargjafa sökum fátæktar. Félagsleg aðstoð sveitarfélaga hefur aukist svo á síðustu árum að heita má að fjármunir til þessa málaflokks hafi gengið til þurrðar á hverju ári. Hvað segir þetta okkur?

Í alþjóðlegum samanburði kemur fram að óbeinir skattar hérlendis eru mun hærri en erlendis. Þá er verð á matvælum mun hærra hér en í nágrannalöndunum og leiðir það hugann að því að það er nauðsyn að stokka upp í kerfunum sem halda uppi háu matarverði.

Við gerð kjarasamninga undanfarin á hefur verkalýðshreyfingin oft talað um að nú væri kominn tími til að hækka lægstu launin. Það hefur ekki tekist. Á verðbólgutímunum var einna algengast að samið væri um kauphækkun sem átti að leiðrétta lægstu launin. Þá var reiknuð út prósentuhækkun þeirrar launahækkunar og hún gekk í gegnum allt kerfið. Láglaunafólk stóð þannig eftir í sömu sporum og áður og verðbólgan eyddi áhrifum hagstæðra kjarasamninga á skömmun tíma.

Við gerð kjarasamninga hin síðari ár hefur reynst einna best að semja um eingreiðslur til að hækka lægstu laun. Sú aðferð virðist hafa haldið nokkuð vel í undanförnum kjarasamningum. Þrátt fyrir það eru lægstu taxtalaunin svo lág að það er gjörsamlega óverjandi fyrir þjóðfélagið. Ekki má gleyma því að fjölmargir, eins og ég sagði áðan, fá greitt eftir þessum töxtum og má þar nefna til viðbótar við það sem ég sagði áðan ófaglært starfsfólk, ekki hvað síst á vegum hins opinbera. Þetta launafólk hefur ekki tækifæri til að bæta sér upp lág laun með mikilli vinnu eða kaupaukakerfi. Það lifir því í raun í sárri fátækt og á fárra kosta völ.

Herra forseti. Ég vil víkja aðeins að gildistökutíma frv. Við flm. teljum að allt sem viðkemur kjarasamningum eigi að vera á forræði samningsaðila. Þar sem ekki hefur tekist með samningum að knýja fram hækkun lægstu launa undanfarin ár ber Alþingi Íslendinga skylda til að grípa inn í þessi mál með lagasetningu.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að heildarlaun á mánuði fyrir 16 ára og eldri skuli ekki vera undir 80 þús. kr. en 2. gr. kveður á um að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en 1. mars 1997. Ástæða þessa er að þannig skapast svigrúm fyrir aðila vinnumarkaðarins til að semja sjálfir um þá niðurstöðu sem frv. gerir ráð fyrir. Það er ljóst að 80 þús. kr. mánaðarlaun fyrir fulla dagvinnu eru ekki há laun. Allmargir launþegar hafa meiri tekjur með nokkurri eftirvinnu. Frv. er í rauninni fyrst og fremst ætlað að skapa vörn fyrir þá sem minnst mega sín.

Ég tel að rökin hljóti að vera augljós. Hækkun lægstu launa í 80 þús. kr. á mánuði mun auka velferð í íslensku þjóðfélagi, einkum hjá þeim sem verst eru settir og mun jafna laun og bæta afkomu margra einstaklinga. Engin ástæða er til þess að ætla að lagasetning af þessum toga muni kalla á óðaverðbólgu, allra síst ef aðilar vinnumarkaðarins setjast í alvöru niður til að semja um hækkun lægstu launataxta eins og þeir hafa margoft sagt undanfarin ár.

Að mati okkar flutningsmanna mundi lagasetning af þessum toga knýja samningsaðila til að finna leiðir til að gera það kleift að unnt sé að lifa mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum. Þess vegna er frv. flutt. Þetta frv. mun verða dregið af borðum Alþingis náist sá árangur sem hér er verið að gera ráð fyrir.

[19:45]

Launaumræðan verður að vera í alþjóðlegu samhengi. Íslenskar vörur eru í samkeppni við erlendar hvort sem er um að ræða útflutningsvörur okkar eða vörur sem keppa við innflutning. Við verðum að standast þessa alþjóðlegu samkeppni og okkur hefur fyrst og fremst tekist það með löngum vinnudegi.

Ég bendi á að löggjöf um lágmarkslaun er til erlendis, t.d. í Ameríku og Frakklandi. Þess má geta að nokkur umræða um lágmarkslaun var í Bandaríkjunum í aðdraganda forsetakosninganna þar sem úrslit lágu fyrir, ef ég man rétt í gær.

Hægt er að sýna fram á að séu lágmarkslaun ákveðin of há geti það leitt til þess að það dragi úr vinnu í viðkomandi hagkerfi. Þetta eru helstu rök gegn lögbindingu lágmarkslauna. Þau eiga ekki við núverandi aðstæður hérlendis að mati okkar flm. Þau lágmarkslaun sem gert er ráð fyrir í þessu frv. eru ekki há og atvinnulífið á auðveldlega að geta ráðið við þau með aukinni framleiðni. Atvinnuástand hér á landi er einnig að mörgu leyti mun betra en í nágrannalöndunum.

Herra forseti. Það er liðin tíð að hægt sé að ætlast til þess af Íslendingum að þeir vinni allt að 30% lengri vinnudag en kollegar þeirra erlendis til þess eins að ná sambærilegum launum. Það mun ekki auka framleiðni íslenskra fyrirtækja ef þau eiga í auknum mæli að byggja á ódýru vinnuafli. Við verðum að snúa af þessari braut því að annars verður landflótti viðvarandi og Ísland verður áfram láglaunaland.

Frv. þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið er ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir á lágmarkstöxtum og eiga sér ekki viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. félmn. til umfjöllunar. Ég gæti hugsað mér að það frv. sem hér er á borðum sem fjallar um launamál og styttri vinnutíma ætti samleið með þessu frv. Ég vil biðja um að hv. formaður félmn. skoðaði það um leið og málin koma til umfjöllunar.